fbpx
Sunnudagur 29.nóvember 2020
Eyjan

Sigmundur kemur lögreglunni til varnar – Norrænir krossfánar „langflottustu fánarnir“

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 24. október 2020 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kemur umdeildum merkjum lögreglunnar til varnar í pistli sem birtist á Vísi í gærkvöldi. Svokallað Fánamál hefur verið mikið í umræðunni í vikunni eftir að mynd af lögregluþjóni með Vínlandsfána og Thin Blue Line-fána dreifðust um netið. Umræddir fánar hafa verið tengdir við hvíta þjóðernishyggju, nýnasisma og andstöðu við Black Lives Matter-hreyfinguna (BLM).

Sigmundur tekur fram að honum finnist lögreglan ekki eiga að bera merki sem ekki tilheyri lögreglunni. Að hans mati snýst þó umræðan ekki um hvort að fánarnir tákni eitthvað slæmt, heldur sé verið að finna höggstað á lögreglunni.

„Enn er haldið áfram að hamast í lögreglunni vegna hátt í þriggja ára gamallar myndar af merkjum á lögreglubúningi. Eins og ég hef getið um áður finnst mér að það eigi ekki að vera önnur merki á lögreglubúningum en þau sem tilheyra lögreglunni. Sú er þegar orðin raunin. Hins vegar snýst hamagangurinn um allt annað. Hann snýst um að ná höggstað á lögreglunni og níðast á einstaklingum og í sumum tilvikum heilli starfsstétt.“

„Enda langflottustu fánarnir“

Í pistli sínum segir Sigmundur að lögreglukonan, ásamt lögreglustéttinni í heild sinni hafi þurft að þola svívirðingar vegna málsins. Sigmundur reynir þá að útskýra uppruna fánans og bendir á að norrænir krossfánar séu ólíkir, en honum finnst slíkir fánar „langflottastir“.

„Nú sætir lögreglukona viðvarandi svívirðingum og jafnvel lögreglan öll m.a. vegna fána sem hannaður var af íslensk ættuðum forsprakka rokkhljómsveitar og hefur verið notaður af fjölmörgum hópum sem tákn um marga ólíka hluti.

Byrjað var á svo kölluðum Vínlandsfána sem hefur verið notaður af ýmsu tilefni. Eða var þetta norskur herfáni? Eða e.t.v. fáni frændfólks okkar í Suðureyjum þ.e. íbúanna á Suðvesturey eða Suður Vist (South Uist)? Eyju sem er skammt suður af Grímsey í Suðureyjum (ef það hjálpar).

Norræni krossfáninn tekur á sig ýmsar myndir og er notaður víða um heim (enda langflottustu fánarnir). Við verðum bara að vona að eitthvað vafasamt fólk taki ekki upp á því að nota íslenska fánann. Hvað gera ybbar þá?“

Fólk reyni að stjórna hugsunum

Sigmundur heldur því fram að andstæðingar fánanna vilji stjórna hugsunum fólks, en að hans mati er um að ræða dæmi um „ímyndarstjórnmál samtímans“. Hann segir að fólki sé skipt í fórnarlömb og óvini, og svo sé orðum þessara óvina snúið á haus.

„Í fánamálinu vilja andstæðingar þeirra sem notuðu merkin ráða því hvaða hugsanir lágu þar að baki. Þeir telja sig vita meira um hugarfar annars fólks en fólkið sjálft. Þarna er unnið út frá einu af megineinkennum ímyndarstjórnmála samtímans. Fólki er skipt í fórnarlömb og óvini. Allt það sem þeir sem teljast til óvina segja og gera er svo túlkað á versta veg. Því miður hefur lögreglan verið flokkuð með óvinahópum. Einna óvægnastir í þeim efnum eru þeir sem kenna sig við aldalanga glæpastarfsemi á heimshöfunum.“

Sakar Black Lives Matter um hatursorðræðu

Þá veltir Sigmundur Thin Blue Line-fánanum fyrir sér. Hann hefur verið sagðir marka andstöðu við Black Lives Matter-hreyfinguna, en Sigmundur sakar hana um hatursorðræðu í garð lögreglu.

„Eftir að menn höfðu skammast yfir Vínlands-/Suðureyjafánanum var athyglinni beint að merki hinnar fínu bláu línu (e. thin blue line) og því meðal annars haldið fram að það sé svar við BLM hreyfingunni. Þá mætti spyrja hvort það sé óeðlilegt að lögreglan sýni samstöðu gagnvart hreyfingu sem hefur það að meginmarkmiði að leggja niður löggæslu? Margir forsprakkar BLM hafa talað um lögreglu með hætti sem ég treysti mér ekki til að hafa eftir en orðið „hatursorðræða“ á sannarlega við.“

Lögregla geti ekki starfað vegna „fordóma“

Að lokum leggur Sigmundur til að tekið verði á „hatursorðræðu“ í garð lögreglu, í stað þess taka á „hatursorðræðu“ hennar sjálfrar. Hann segir pólitíkusa gefa í skyn að lögreglufólk séu kynþáttahatarar og virðist afar ósáttur með orðræðu einhverra pólitíkusa.

Hann segir að víða um heim hafi lögregla ekki geta sinnt starfi sínu vegna „fordóma“ og vonast til þess að það verði ekki raunin hér á landi.

„Mál eins og það sem hefur verið til umræðu undanfarna daga bitnar á einstaklingum og fjölskyldum þeirra. En það bitnar líka á samfélaginu. Það færir hina fínu bláu línu. Til þess er leikurinn líka gerður. Pólitíkusar koma fram og flytja æfða frasa úr handbók stjórnmálamannsins. Talað er um að það þurfi að mennta lögreglumenn svo að þeir séu ekki kynþáttahatarar. „Haturstákn og hatursorðræða verða ekki liðin“ er aðalfrasinn og þannig gefið til kynna að lögreglan hafi stundað slíkt. En hvað með hatursorðræðu í garð lögreglunnar. Er ekki tímabært að taka á henni?

Í lýðræðisríki er mikilvægt að fólk geti gagnrýnt lögregluna. Hún fer með mikið vald og þarf að fara vel með það. Þegar verður misbrestur á því er mikilvægt að bregðast við. En það að að byggja gagnrýni á fordómum í garð stéttarinnar er óheiðarlegt og til þess fallið að gera lögreglunni erfiðara að tryggja öryggi samfélagsins. Víða hefur lögregla verið sett í þá stöðu að geta ekki unnið vinnuna sína af ótta við ásakanir um fordóma.

Látum það ekki henda á Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hjartnæm minningarstund á Alþingi: „Glaðlyndur að eðlisfari, hnyttinn í orðum og spaugsamur“

Hjartnæm minningarstund á Alþingi: „Glaðlyndur að eðlisfari, hnyttinn í orðum og spaugsamur“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Willum segir aðhaldskröfuna á Landspítalann vera 400 milljónir en ekki 4,3 milljarða

Willum segir aðhaldskröfuna á Landspítalann vera 400 milljónir en ekki 4,3 milljarða
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Smátt og smátt hverfur öll kímnigáfa og depurð og kvíði yfirtekur allt“

„Smátt og smátt hverfur öll kímnigáfa og depurð og kvíði yfirtekur allt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásakanir um hreinsanir hjá Upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar – „Nótt hinna löngu hnífa“

Ásakanir um hreinsanir hjá Upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar – „Nótt hinna löngu hnífa“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Steingrímur J. kveður brátt – Vinstri græn standa á krossgötum

Steingrímur J. kveður brátt – Vinstri græn standa á krossgötum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir meirihlutann fórna almannahagsmunum fyrir stundargróða

Segir meirihlutann fórna almannahagsmunum fyrir stundargróða