fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Óli kemur Brynjari til varnar – „Fær það óþvegið á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og tölvupóstum“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 14. október 2020 14:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kemur flokksbræðrum sínum, Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Brynjari Níelssyni, þingmanni, til varna í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Telur hann að orðræða gegn kollegum hans síðustu daga sé dæmi um dómhörku og þverrandi umburðarlyndi.

Kristján Þór vakti athygli í síðustu viku fyrir það sem hefur verið kallað óheppilegt orðalag þegar hann talaði um að það að vera bóndi væri lífsstíll fremur en spurning um afkomu. Í kjölfarið var Kristján harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli meðal annars frá þingmanni framsóknarflokks Silju Dögg Gunnarsdóttur, en Framsókn er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og Vinstri Grænum.

Óli Björn segir að Kristján hafi hreinlega komist óheppilega að orði og það sé nýtt ti að gera pólitíska aðför að ráðherranum.

„Þegar ráðherra kemst klaufalega að orði nýta samverkamenn í öðrum ríkisstjórnarflokki tækifærið og ráðast á hann með ósvífni þess sem óttast dapurt gengi þegar innan við eitt ár er í kosningar,“ skrifar Óli Björn. „Útúrsnúningur og orðhengilsháttur yfirtekur drengskap og lítið er gefið fyrir samvinnu og traust ólíkra flokka sem standa að ríkisstjórn á erfiðum tímum

Brynjar Níelsson var einnig harðlega gagnrýndur þegar hann velti upp þeirri spurningu hvort ástæða væri til að fara rólega í sóttvarnaraðgerðir sem hafi lamandi áhrif á allt samfélagið. Meðal gagnrýnenda var umsjónarlæknir COVID-19 göngudeildar, Ragnar Freyr Ingvarsson.

Óli Björn segir gagnrýnina ómaklega.

„Þingmaður sem leyfir sér að efast opinberlega um hertar aðgerðir þar sem gengið er freklega á borgaraleg réttindi í alvarlegri baráttu við kórónuveiruna fær það óþvegið á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og tölvupóstum,“ skrifar Óli Björn.

„Innan heilbrigðiskerfisins spila sumir undir. Þingmanninum eru gerðar upp skoðanir og hann sakaður um mannfyrirlitningu og skort á samkennd. Þó gerði hann ekki annað en að spyrja spurninga og benda á að hertar aðgerðir, þar sem viðskiptalífið er að stórum hluta lamað, hafi afleiðingar sem nauðsynlegt sé að ræða. Afleiðingar fyrir almenna heilsu þjóðarinnar en ekki síður fyrir velferðarkerfið allt geit orðið alvarlegar, þar sem hægt og bítandi er dregið úr sameiginlegum þrótti okkar (ríkissjóði) til að standa undir öflugu heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingum“

Óli Björn segir að óþolinmæði og fordómar sundri samfélögum, eitri samskipti fólks og grafi undan lýðræði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt