fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Grímulaus á Alþingi – Þegar blaðamaður skellti sér á þingsetningu

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 1. október 2020 21:00

Þingmenn prúðbúnir á þingsetningunni í dag Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþingi var sett fyrir komandi vetur í dag. Hafði þingsetningu seinkað nokkuð vegna vinnu við fjárlögin sem töfðust sökum kórónuveirufaraldursins. Blaðamaður DV ákvað að skella sér á þingsetninguna við Alþingishúsið og sjá hvernig hún fer fram.

Friðsöm mótmæli

Hátíðleg dagskráin byrjar í dómkirkjunni. Blaðamaður taldi sig muna vel hvernig slíkar kirkjuathafnir fara fram síðan hann var í fermingarfræðslunni forðum svo hann lét sér nægja að slást í för með þingmönnum þegar þeir héldu yfir í Alþingishúsið til að hlýða á hátíðarræðu Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Nokkur viðbúnaður lögreglu var fyrir utan Alþingishúsið og leiðin frá dómkirkjunni að Alþingishúsinu var afgirt og vöktuð af vökulum augu kappklæddra lögregluþjóna.

Lítill hópur mótmælenda hafði hópað sig saman á Austurvelli. Allir greinilega meðvitaðir um kórónuveiruna og til fyrirmyndar. Mótmælin voru skipulögð af samtökunum Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt. Yfir grímur margra var búið að líma svart X með límbandi. Að öllum líkindum til að tákna aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum þeirra.

Blaðamaður gekk með fram girðingunni og reyndi að finna leið inn í Alþingishúsið, hann var jú með passa.

Passinn góði úr endurvinnanlegum pappa

Loks tókst blaðamanni að fanga athygli lögregluþjóns sem hleypti blaðamanni fram hjá stálgrindunum og leiðbeindi honum að viðeigandi gönguleið að Alþingishúsinu, svo hann færi nú ekki að flækjast fyrir þingmönnunum sem voru einmitt að þramma hin fáu skref frá dómkirkjunni.

Þá bjóst blaðamaður við að mótmælendur létu heyra í sér. Þessi í stað hófu þeir að syngja þjóðsöng Íslands. Úr varð nokkuð falleg stund. Blaðamaður upplifði sig einmitt sem eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, enda smá vindur úti sem ætíð grætir blaðamann lítillega.

Stilltir mótmælendur
Mynd/Anton Brink
Þingmenn þramma yfir á sinn heimavöll Mynd/Anton Brink

Afsakaði yfirsjónina

Ekki mátti blaðamaður þó ganga inn um aðalinngang þinghússins með prúðbúnum þingmönnunum heldur notaði hann hliðarinngang þar sem hann var tafarlaus stoppaður af árvökulum starfsmönnum Alþingis og ávítaður fyrir grímuleysið. Baðst blaðamaður afsökunar á yfirsjóninni og þáði feginshendi grímu sem honum var þar rétt.

Viðbyggingin við Alþingishúsið er töluvert nýrri af nálinni heldur en hið gamla rótgróna þinghús. Það er því nokkuð sérstæð upplifun að ganga milli bygginganna tveggja, úr nýju yfir í gamalt. Starfsmenn Alþingis voru kurteisir og vísuðu blaðamanni á áhorfendapall þar sem hann gat fylgst með. Gólfið í Alþingishúsinu er gamalt og þó starfsmenn hvísli leiðbeiningar til blaðamanns þá heyrist áberandi bank á gólfinu þegar starfsmaður vísar blaðamanni leiðina á háum hælum.

Þegar blaðamaður fékk sér sæti varð honum nokkuð ljóst að svalirnar á áhorfendapöllunum voru líklega ekki smíðaðir með konur í huga. Ef blaðamaður hallaði sér aftur á bak gat hann rétt séð í skallann á Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis. En það gerði ekki að sök. Blaðamaður fékk þá kærkomið tækifæri til að rétta betur úr bakinu og reyna máttleysislega að yfirvinna þá hoknu stöðu sem hann hefur tileinkað sér í löngum setum að skrifum við tölvuskjá.

Strengjasveit spilaði lag og þá var kominn tími á forsetann sjálfan að fara með tölu. Sökum kórónuveirufaraldursins er aðeins setið í öðru hverju sæti í þingsal til að tryggja 1-2 tveggja metra reglu. Sökum þessa hafa hliðarsalir Alþingis verið teknir í notkun og þurfa einhverjir þingmenn að gera sér að góðu að sitja þar. Í hliðarsalnum hægra megin sat dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og gat blaðamaður ekki annað séð en að hún væri hæstánægð með fyrirkomulagið, enda gat hún þá vaktað símann sinn af miklum móð án þess að mikið bæri á því. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, nýtti einnig færið, þó blaðamaður hafi ekki náð því á mynd.

Áslaug í símanum

Grímulausir þingmenn

Blaðamaður gat ekki betur séð en að aðeins þingmaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, bæri grímu. Aðrir voru grímulausir. Hins vegar voru allir starfsmenn Alþingis sem blaðamaður sá til með grímu. Áhugaverð mótsögn.

Guðni Th. er ágætis ræðumaður og fór með langa ræðu þar sem hann bauð þingmenn velkomna og fór yfir stöðu mála í samfélaginu. Hann leyfði sagnfræðingnum í sér að fá smá útrás og fór yfir sögu stjórnarskrárbreytinga og hvatti þingmenn til að taka nýja stjórnarskrá til skoðunar, annað væri fráleitt. Svo vitnar hann í aðal Íslendinginn. Helga fokking Björns.

„Við skulum því bera okkur vel, þó úti séu stormur og él.“ Blaðamaður taldi þó lengi vel að Helgi Björns væri að syngja „Það bera sig allir vel, Siggi séra Stormur og ég“. Það breytir svolítið merkingu lagsins þegar maður lærir réttan texta.

Þegar forseti lýkur máli sínu standa allir upp úr sætum sínum, minnast ættjarðar og hrópa húrra fyrir Íslandi og forseta. Blaðamaður var ekki viss hvort hann ætti að taka þátt, en taldi hollara að standa upp og sýna virðingu.

Strengjasveitin spilar annað lag. Ég vil lofa eina þá. Fallegt lag og fallega spilað.

Forseti stendur upp og allir aðrir með honum. Aftur ríkur blaðamaður á fætur og bölvar því í hljóði að þekkja illa til hefða. Forseti gengur svo út og allir setjast.

Forsetinn hress og kátur að vanda Mynd/Anton Brink

Lítill salur, stór bjalla

Alþingissalurinn er mun minni en menn gætu haldið. Þó er hátt til lofts. Miklar rósettur og krúsídúllur prýða loftið sem er hið snotrasta og fær engan veginn að njóta sín á Alþingisrásinni. Hins vegar er Alþingisbjallan stærri en blaðamaður hafði haldið. Ætli hún sé nokkuð orðin slitin síðan Steingrímur tók við sem forseti?

Eitthvað virðist stóllinn eða bakið vera að trufla fjármálaráðherra sem byltir sér í sæti og virðist ekki ná að koma sér vel fyrir.

Steingrímur afsakar seinkun á þingsetningu og segist sakna þeirra heiðursgesta sem að venju er boðið til þessa fundar. En kórónuveiran kom í veg fyrir gesti. Enda væri lítið pláss fyrir þá.

Við og við undir ræðu Steingríms má heyra í sprittbrúsum opnast og lokast.

Eftir ræðu Steingríms er blásið til hlés og boðið til veitinga. Blaðamaður fer af svölunum og fylgist með þingmönnum ganga út úr þingsal. Það kætir blaðamann nokkuð þegar þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, gengur úr sal. Hann er bæði skólaus og í ósamstæðum sokkum. Sýnist blaðamanni annar sokkurinn skreyttur kiwi ávöxtum.

Björn á sokkaleistunum

Ekki er blaðamanni þó boðið með í veitingasal. En það gerir ekki að sök. Á leiðinni út spyr blaðamaður starfsmann hvort það sé ekki ósanngjarnt að starfsmenn þurfi að vera með grímu en þingmenn ekki. Starfsmaður segir að grímurnar séu valfrjálsar.

Þannig fór um þingför þá. Meðal fyrstu mála Alþingis verða fjárlögin sem voru kynnt í morgun og ljóst að skiptar skoðanir muni verða á því frumvarpi, enda viðsjárverðir tímar. Blaðamaður stökk sína leið út í daginn, spenntur að fylgjast með nýsettu þingi að störfum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega