Mánudagur 24.febrúar 2020
Eyjan

Greiða 28 milljarða í fasteignaskatta á þessu ári – Helmingur rennur í borgarsjóð

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 28. janúar 2020 12:43

Mynd af vef Reykjavíkurborgar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirtæki landsins greiði rúmlega 28 milljarða króna í fasteignaskatta á árinu 2020 eða nær 1% af landsframleiðslu sem er hærra hlutfall en gerist í nágrannaríkjum og með því hærra í Evrópu.

Skattarnir hafa hækkað um 20% að raunvirði frá árinu 2018 þegar niðursveiflan í íslensku efnahagslífi hófst og gangrýna samtökin sveitarfélögin fyrir hækkun á tímum niðursveiflu:

„Aðeins 10 af 72 sveitarfélögum áforma að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta milli áranna 2019 og 2020 samkvæmt framlögðum gjaldskrám. Á sama tíma er mikill meirihluti skattstofnsins skattlagður með lögbundnu hámarki álagningar eða 1,65%. Munar þar mestu um Reykjavíkurborg sem hefur ekki hnikað frá lögbundnu hámarki álagningar í meira en áratug. Nú er svo komið að helmingur fasteignaskatta á fyrirtæki landsins rennur í borgarsjóð.“

Í greiningunni segir að mikilvægt sé að sveitarfélög landsins axli ábyrgð og sinni hagstjórnarhlutverki sínu með því að lækka fasteignaskatta á fyrirtæki. Þannig auðvelda þau fyrirtækjum og heimilum að takast á við niðursveifluna í efnahagslífinu.

Meðal punkta í samantektinni eru:

  • Mun hærri hér en á Norðurlöndum: Skattbyrði íslenskra fyrirtækja vegna fasteignaskatta var mun hærri en á Norðurlöndum á árinu 2018 eða 0,8% samanborið við 0,25% í Noregi svo dæmi sé tekið.
  • Miklar hækkanir fram til 2020: Samkvæmt áætlun SI munu fyrirtæki greiða rúmlega 28 ma.kr. í fasteignaskatta árið 2020 eða nær 1% af VLF. Nemur raunhækkunin rúmlega 50% frá 2015 og 20% frá 2018 þegar niðursveiflan í efnahagslífinu hófst.
  • Hækka á tímum samdráttar: Fasteignaskattar á íslensk fyrirtæki eru nú að hækka á tímum samdráttar og taka sífellt stærri skerf af tekjum þeirra. Hækkuðu skattarnir um 35% frá 2015 til 2018 meðan tekjur viðskiptahagkerfisins jukust einungis um 17% og hagnaður fyrirtækjanna dróst saman um fjórðung skv. tölum Hagstofu. Áætla má að hagnaður fyrirtækja hafi enn dregist saman á tímabilinu 2018-2020 samhliða niðursveiflunni í hagkerfinu.
  • Meirihluti fyrirtækja greiðir lögbundið hámark: Fasteignaskattar verða 1,6% að meðaltali árið 2020. Helmingur eða 36 af 72 sveitarfélögum halda álagningunni fastri í lögbundnu hámarki (1,65%) milli ára en um 65% skattstofns fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er innan þessara 36 sveitarfélaga. Meirihluti fyrirtækja greiðir því lögbundið hámark fasteignaskatta í ár.
  • Minni sveitarfélög lækka fasteignaskatta: Aðeins 10 sveitarfélög lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á milli áranna 2019 og 2020 skv. framlögðum gjaldskrám og samþykktum sveitarfélaga. Dregur þetta aðeins úr hækkun skatta um 200 milljónir króna á landsvísu og verður skattbyrðin aðeins 0,7% lægri en ella enda tekur lækkunin til lítils hluta skattstofnsins.
  • Reykjavík eina sveitarfélagið af 10 stærstu sem hefur ekki hnikað hæstu mögulegu álagningu: Þegar horft er til skattstofns atvinnuhúsnæðis má sjá að Reykjavík er eina sveitarfélagið af 10 stærstu sem ekki hnikaði til álagningarprósentu fasteignaskatta á fyrirtæki á síðasta áratug. Stjórn sveitarfélagsins hefur haldið álagningunni stöðugri í lögbundnu hámarki skattsins, þ.e. 1,65% samhliða hratt hækkandi álagningarstofni. Nú er svo komið að önnur hver króna af fasteignasköttum fyrirtækja í landinu rennur í borgarsjóð
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af