Föstudagur 21.febrúar 2020
Eyjan

Óréttlátur og óhagkvæmur húsnæðismarkaður

Egill Helgason
Sunnudaginn 19. janúar 2020 15:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úr nokkuð óvæntri átt, í tímaritinu The Economist – sem er ekki laust við að aðhyllist kapítalisma – kemur umfjöllun um húsnæðismarkaðinn á Vesturlöndum þar sem segir að hann sé í raun ein stór mistök, stærstu mistökin í hagkerfinu. Húsnæðismarkaðurinn sé dragbítur á hagvöxt, hann sé óréttlátur og eyðileggi tiltrúna á kapítalisma.

Í þessari athyglisverðu forystugrein blaðsins er meðal annars fjallað um hversu  erfitt er fyrir ungt fólk og vinnandi fólk, sem þarf að komast inn í borgir til starfa, að eignast húsnæði á viðunnandi stað. Um endalaust brask með húsnæði, óeðlilegar verðhækkanir, drápsklyfjar húsnæðislána, og svo eldra fólk sem hefur eignast húsnæði á góðum tíma, haft af því óeðlilegan ábata þegar húsnæðisverð hækkar (windfall) en ástundar harðan NIMBY-isma gegn því að byggt sé fyrir útsýni þess. Þannig standa þeir sem hafa komið sér vel fyrir á húsnæðismarkaðnum í vegi hinna sem ná ekki fótfestu þar – og það sé ekki byggt nóg af húsnæði.

Í greininni er Þýskaland nefnt sem dæmi þar sem leigumarkaður er mjög virkur og þróaður og þar sem hækkanir á húsnæðisverði hafa ekki verið jafn miklar og víða annars staðar. Það er tæpt á því að inngrip ríkisvaldsins í húsnæðismarkaðinn, skattaafslættir og ívilnanir, geti haft þau áhrif að húsnæðisverð hækki einfaldlega enn meira.

Það er margt umhugsunarvert í þessu fyrir okkur hér á Fróni. Til dæmis má nefna Hafnartorg og íbúðir víða sem eru auglýstar sem lúxus og ætlunin er að selja á háu verði. Sú tilfinning ágerist að hugmyndin bak við þetta sé sú að kaupendurnir yrðu mestanpart erlent fólk sem vill festa fé sitt í húsnæði – fremur en til dæmis verðbréfum. Þetta er eitt einkenni hins braskvædda húsnæðismarkaðar, en virðist hugsanlega hafa verið skot langt yfir markið hér í Reykjavík.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af