fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

3. september 1919: „Menn á flugi í loftinu“

Egill Helgason
Þriðjudaginn 3. september 2019 11:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag eru liðin hundrað ár frá því flugvél hóf sig fyrst á loft á Íslandi. Það var í Vatnsmýrinni, 3. september 1919, að  tvíþekja af gerðinni  Avro 504K í eigu Flugvélags Íslands flaug yfir Reykjavík. Vélin flaug í sextán daga undir stjórn danska flugmannsins Cecil Torben Faber sem var aðeins tvítugur að aldri og fór 146 ferðir þessa haustdaga. Fyrsta fluginu var lýst með þessum hætti í Morgunblaðinu:

„Vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennisléttum vegi, sneri sér í krappar beygjur og tyllti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn….. Þegar hún losnaði við jörðina, dundi við lófaklapp allra og köll margra. Fjöldinn allur hafði aldrei séð flugvél lyfta sér til flugs áður og það hefir einkennileg áhrif á jarðbundnar verur. Ekki aðeins mennina. Hestarnir á næsta túni við flugvöllinn gláptu á þetta furðuverk og voru steinhissa. Og einn hundur ætlaði að tryllast. Flugvélin smáhækkaði í lofti og vatt sér í hringum upp í 500 metra hæð og leið þar áfram. Öðru hvoru stöðvaði flugmaðurinn mótorinn, steypti vélinni beint niður á nokkra tugi metra og rétti við aftur. Var þá mörgum nóg boðið og nokkrir krakkar fóru að skæla.“

Það er eiginlega furðulegt að ekki sé lengra síðan en þetta. Síðustu kynslóðir manna hafa lifað tíma ótrúlegra tækniframfara, hraðari en er í raun hægt að meðtaka með góðu móti.

Við höfum aðra samtímaheimild, sjónarhorn sem er býsna áhugaverð. Það eru dagbækur Elku Björnsdóttur, verkakonu sem skráði líf sitt í Reykjavík á árunum 1915 til 1923. Þessi skrif komu út fyrir nokkrum árum í bókaflokknum Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.

Frumritið að dagbókum Elku Björnsdóttur er varðveitt á Landsbókasafninu og í tilefni hundrað ára afmælis flugsins birtir Handritadeild safnsins dagbókarfærslu Elku frá því fyrir nákvæmlega hundrað árum. Þar lýsir hún því þegar hún sér flugvélina fljúga yfir bæinn og gerir meira að segja litla teikningu af henni, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan. Eins og Elka segir var hægt að skoða flugvélina fyrir 50 aura en það kostaði 50 krónur að fljúga í fimm mínútur og ekki á færi þeirra sem „varla hafa ofan í sig að borða né spjör utan á sig, að lyfta sér svona líkamlega upp frá jarðarrykinu“.

3. september 1919
Áðan sá ég út um gluggann minn, það, sem aldrei hefir sézt á Íslandi fyr, og fyrir 20-25 árum og enda seinna kom fáum til hugar að nokkurn tíma mundi ske hjá mannkyninu og sízt hérna: það voru menn á flugi í loftinu. Ég sá reyndar engan manninn, en aðeins vængina eða vélina sjálfa sem bar þá áfram, og það svo fimlega með alskonar sveiflum mjúklegum byltingum, eins og þegar vel fleygur fugl leikur sér í loftinu. Auðmennirnir hérna lögðu saman fé og pöntuðu flugvél og flugmenn frá Englandi og kom hún í vikunni sem leið með Villemoes. Hún er höfð hérna í nýsmíðuðu skýli á túni syðst og vestast í Vatnsmýrinni. Þetta er nú fyrsta skiftið sem hún fer af stað. Hún hringsólaði dálitla stund þarna yfir Vatnsmýrinni kl. að ganga 9, rétt eftir sólarlagið. Það kvað eiga að kosta fyrir farþega: 50 kr. fyrir 5 mínútna flug, 100 kr. 10 mín o.sv.frv. Það verður ekki fyrir þá, sem varla hafa ofan í sig að borða né spjör utan á sig, að lyfta sér svona líkamlega upp frá jarðarrykinu. Mér sýndist hún til að sjá eitthvað líkust þessu [teikning] og þegar hún kom næst sýndist mér ég greina fremst í henni eitthvað er snerist með feiknahraða; það er víst „skrúfan“. Hljóðið í henni er rólegt mótorhljóð, líkt mjög og í bifreið.“

8. september segir svo Elka aðeins meira frá ferðum flugvélarinnar:

„Nú er flogið á hverjum degi seinni partinn og sækjast margir eftir dýrðinni. Egill V. flaug á laugardaginn og var allur á lofti af gleði þegar hann kom aftur til Helgu sinnar úr himnaförinni, flaug yfir bæinn og höfnina ca. 90 km. á 5-7 mín. og 650 m. hátt. Honum fannst hann mundi geta stýrt sjálfur. Ekki sá hann fólkið úr þeirri hæð; tjörnin sýndist eins og ofurlítill, grænn depill og fótboltaæfingasvæðið á Melunum eins og hálft stofuborðið. Það kostaði 25 kr. þetta 5 mínútna flug, en svo trygði hann sig (á 500 sterl.pd.) og það kostaði 20 kr. svo það var 45 kr. ferðin. Gnýr mikill er í mótornum og vélinni svo að ekki er hægt að tala saman upp í loftinu.“

Árið eftir var vélin dregin út úr skýli og henni var flogið á nýjan leik. Þá var flugmaðurinn Vestur-Íslendingurinn Frank Frederickson. Frank var maður sem átti ævintýralega ævi og er ennþá minnst meðal afkomenda Íslendinga vestanhafs. Hann var flugmaður í kandadíska flughernum í fyrri heimsstyrjöldinni, en 1920, sama ár og hann kom hingað, var hann fyrirliði „Fálkanna“, kanadíska liðsins sem vann gull í íshokkí á Ólympíuleikunum í Amsterdam 1920.

Hér er myndband sem gert var í minningarskyni um „Fálkana“ fyrir nokkrum árum. Þar segir að þeir fari í leikinn fyrir „strákana á Sargent Avenue“, en þar var einmitt hjarta íslenska hverfisins í Winnipeg.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt