fbpx
Sunnudagur 15.september 2019  |
Eyjan

Getur Trump keypt Grænland?

Egill Helgason
Föstudaginn 16. ágúst 2019 02:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hún hljómar eiginlega brjálæðislega sú hugmynd að Bandaríkin geti einfaldlega keypt Grænland? Af hverjum ættu þeir að kaupa – Dönum? Grænlendingar hafa sjálfstjórn. Og svona hegða ríki sér ekki lengur á alþjóðavettvangi? Fyrir löngu keyptu Bandaríkin Alaska af Rússum og Louisiana af Frökkum, það var á 19. öld. Danir seldu líka Bandaríkjunum eyjar sem þeir réðu yfir í Vestur-Indíum eins og það hét þá. Það var 1917 og á móti viðurkenndu Bandaríkin full yfirráð Dana yfir Grænlandi.

En það voru ekki allir sáttir við að Danir eignuðu sér Grænland, en það var 1755 að þetta víðfema land var lýst dönsk nýlenda. Danir sendu þangað trúboða, landnema og hermenn – líkt og lýst er í hinum frábæru bókum Kims Leine. Norðmenn gerðu tilkall til Grænlands en töpuðu málinu fyrir alþjóðadómstóli 1931. Hér á Íslandi voru líka menn sem héldu því fram og færðu fyrir því ýmisleg rök að Íslendingar ættu tilkall til Grænlands. Fremstur þar í flokki var Jón Dúason en þetta barst líka inn í sali Alþingis þar sem skaut upp nýlendudraumum. Til dæmis sagði þingmaðurinn Pétur Ottesen úr Sjálfstæðisflokki í þingræðu að á Grænlandi væru „framtíðar skilyrði fyrir hrausta og harðfenga menn“.

Samkvæmt nútímalegum stjórnarháttum væri varla neima ein leið til að Bandaríkin gætu eignast Grænland – sem þeir telja mikilvægt vegna hernaðarstöðu og vegna málma sem þar er að finna í jörðu. Það er ef Grænlendingum væri einfaldlega boðið að ganga í Bandaríkin – gerast eitt af ríkjum þeirra. Það væri kannski hægt með því að bjóða Grænlendingum gull og græna skóga, þótt líklegt sé að slíkar fyrirætlanir myndu vekja upp harðar deilur. Og þá er spurningin er Grænlendingum betur borgið með Dönum eða Bandaríkjunum – eða ættu þeir kannski að verða fullkomlega sjálfstæð þjóð?

En þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkin ágirnast Grænland. Þeir fengu reyndar leyfi til að opna þar miklar herstöðvar í kalda stríðinu en þeir vildu meira. Harry Truman forseti reyndi að falast eftir Grænlandi af Dönum árið 1947 fyrir 100 milljónir dollara. Því boði var ekki tekið. Og svo er hægt að fara enn lengra aftur í söguna, allt aftur til 1867. Þá voru Bandaríkin að reyna að kaupa eyjarnar í Karíbahafi af Dönum og um leið kviknaði sú hugmynd að kaupa líka Grænland – og Ísland.

Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur segir svo frá á bloggi sínu að William H. Seward utanríkisráðherra hafi falið Strand- og sjómælingastofnun Bandaríkjanna að gera úttekt á hlunnindum Grænlands og Íslands. Ungur maður, Benjamin Peirce, var fenginn til að skrifa skýrsluna sem var gefin út í bókarformi eins og má sjá hérna. Haraldur Sigurðsson skrifaði á bloggsíðu sína:

„Bókin heitir A Report on the Resource of Iceland and Greenland. Bókin er 72 síður, myndskreytt og gefur fróðlega mynd af Íslandi á þeim tíma, en ekkert bendir til að Ben Peirce hafi sótt heim Ísland eða Grænland við undirbúning bókarinnar.  Ekki er mér kunnugt um gang málsins milli yfirvalda Dana og Bandaríkjamanna  á þessum tíma, en svo virðist sem bandaríska þingið hafi ekki fylgt málinu eftir frekar að sinni.  Svo gerist það árið 1946 að Bandaríkin gera formlegt tilboð í Grænland uppá eitt hundrað miljón dali, eins og komið hefur fram í leyniskjölum sem voru birt nýlega.  Ekkert varð úr þeim kaupum heldur, en Bandaríkjamenn náðu auðvitað fótfestu í báðum löndum ókeypis með því að beita aðstöðu sinni í Norðuratlantshafsbandalaginu eða NATO.  Hvernig liti Ísland út í dag, ef af kaupunum hefði orðið?“

Danir hafa víst ekki svarað Trump neinu varðandi kaup á Grænlandi. Hann er hins vegar væntanlegur í opinbera heimsókn til Danmerkur í næsta mánuði, þar mun hann líka hitta leiðtoga Grænlendinga og Færeyinga. Hermt er að Trump hafi miklu meiri áhuga á Grænlandi en Danmörku.

Trump hefur jú áhuga á stórum hlutum. Bandaríkin eru 9.8 milljónir ferkílómetra, Grænland er 2.2 milljónir ferkílómetra, svo það yrði dálaleg viðbót ef þau bættust við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar: „Það vita ekki allir að til er enn merkilegri staða innan flokksins“

Brynjar: „Það vita ekki allir að til er enn merkilegri staða innan flokksins“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Mikil andstaða við uppbyggingu á hernaðaraðstöðu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli

Mikil andstaða við uppbyggingu á hernaðaraðstöðu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur svarar gagnrýninni: „Heimurinn er ekki að farast“

Sigmundur svarar gagnrýninni: „Heimurinn er ekki að farast“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjóri WMO segir viðtal við sig rangtúlkað – „Þetta eru tröllauknar áskoranir“

Framkvæmdastjóri WMO segir viðtal við sig rangtúlkað – „Þetta eru tröllauknar áskoranir“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dásamlegt gestaboð á Nýja-Íslandi – örlítil minning um Einar Vigfússon

Dásamlegt gestaboð á Nýja-Íslandi – örlítil minning um Einar Vigfússon
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dagur hjólar í SI: „Væri kostur ef gögnin væru birt jafn ítarlega og gert var fyrir nokkrum árum“

Dagur hjólar í SI: „Væri kostur ef gögnin væru birt jafn ítarlega og gert var fyrir nokkrum árum“