Sunnudagur 08.desember 2019
Eyjan

Nýtt Nýja bíó?

Egill Helgason
Mánudaginn 2. desember 2019 01:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi teikning er af salnum í Nýja bíói eins og hann leit út í upphafi. Nýja bíó stóð á horni Austurstrætis og Lækjargötu og var tekið í notkun 1920. Var starfrækt fram yfir 1980. Salurinn var eins og sjá má með eindæmum glæsilegur. Við sjáum allt flúrið, svalirnar, ljósakróununa, dyraumbúnaðin – það var ekki sparað í skreytingum. Stíllin minnti helst á art deco.

Anddyrið var ekki síður glæsilegt, þar voru stórir útflúraðir speglar og stigagangur sem lá upp á svalirnar, gyllt handrið – hann átti ekki sinn líka á Íslandi.

Jú, það verður að segjast eins og er að sætin voru ekkert sérlega þægileg, stóðust ekki nútímakröfur um sætaþægindi í kvikmyndahúsum. En bíó þessara tíma voru eins og draumahallir, fagurlega innréttuð – nú eru bíósalirnir meira og minna svartir að innan, eins og maður sé að fara inn í einhvers konar hólf eða hylki, þeir nötra undan hljóðunum í myndunum, en lyktin af poppi er yfirþyrmandi.

Í Nýja bíói sá maður alls konar myndir. Apaplánetuna, Bangla Desh- konsert Georges Harrison, The French Connection, Star Wars, Alien, The Hallstrom Chronicle – einkennilega heimildarmynd sem farið var með skólabörn á og fjallaði um það hvernig skordýr myndu að lokum taka yfir veröldina. Svo laumaðist ég þarna einhvern tíma í bíó eftir að hafa stungið af úr barnasamkomu í KFUM og sá Borgarættina, þögla mynd gerða eftir sögu Gunnars Gunnarssonar. Mér fannst hún mjög áhrifamikil.

Nýja bíó hætti starfsemi og um tíma rak Árni Samúelsson þarna kvikmyndahús undir heitinu Bíóhúsið. Ég man eftir að hafa séð Blue Velvet eftir David Lynch þar. Svo var þessu öllu breytt í skemmtistað. Innréttingar voru rifnar út og allt málað svart – líka yfir fallegu listana og speglana. Það þótti eftirsóknarvert að hafa staðinn dimman og drungalegan. En auðvitað var þetta ekki annað en viðurstyggð eyðileggingarinnar. Húsið varð niðurníðslu að bráð og brann 1998. Í staðinn var reist þarna hið forljóta Iðuhús en síðar var hluti bíósins endurbyggður þar á bak við, hýsir nú veitingahúsið Grillmarkaðinn.

En það er allt óttalega dauflegt miðað við þar sem áður var þegar maður stöðvaði í sundinu sem lá frá Austurstræti inn að Nýja bíói til að skoða í útstillingarglugganum hvaða myndir voru til sýninga. Þar fyrir innan var sjoppa sem var ein sú fyrsta á landinu til að selja popp úr vél og að auki sykurflos. Þóttu miklar lystisemdir.

 

Bíó Paradís stendur vel fyrir sínu sem listabíó, er frábær menningarstofnun. En samt finnst manni skrítið að ekki sé hægt að reka kvikmyndahús í Miðborginni, þá með nýjum meginstraumsmyndum. Hafnartorg hefði til dæmis verið tilvalið til þess, það hefði aukið mannaferðir á þessum frekar dauflega reit. Stærstu bíóin eru í jöðrunum, í Egilshöll og Smáralind, þar eru líka veglegustu salirnir, flottasti bíósalur landsins, stóri salurinn í Háskólabíói er vart í notkun lengur.

Þetta er mikil breyting frá því þegar bíóin voru niðri í bæ – Nýja bíó, Gamla bíó, Stjörnubíó, Austurbæjarbíó, Hafnarbíó, Regnboginn. Sá tími kemur ekki aftur og kröfurnar til bíóhúsanna eru aðrar – en samt, það hlýtur að fara að koma tími á bíó í Miðbænum.

Það gæti heitað Nýja bíó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hólmfríður finnur spillingarfnyk: „Skammist ykkar fyrir að fela ykkur á bak við þessa ljótu ohf-druslu“

Hólmfríður finnur spillingarfnyk: „Skammist ykkar fyrir að fela ykkur á bak við þessa ljótu ohf-druslu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ragnar Þór – „Þetta er bara angi af þessari djúpu spillingu“

Ragnar Þór – „Þetta er bara angi af þessari djúpu spillingu“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hlemmur fær upplyftingu – Lækjartorg í niðurníðslu

Hlemmur fær upplyftingu – Lækjartorg í niðurníðslu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsir andláti Halldórs Ásgrímssonar: „Hringdum strax á neyðarlínuna“

Lýsir andláti Halldórs Ásgrímssonar: „Hringdum strax á neyðarlínuna“