Föstudagur 28.febrúar 2020
Eyjan

Nettröll og baunatalning á Alþingi: „Ég hef ekki fyrirgefið viðkomandi þingmanni þetta ennþá, langt í frá“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 1. desember 2019 10:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur í störfum sínum ekki verið óspar á stóru orðin og ekki hikað við að gagnrýna störf þingsins. Hann settist niður með blaðamanni DV og ræddi um daginn, veginn og spillingasögurnar sem hann er að safna saman til að vekja athygli á birtingarmynd spillingar í íslensku samfélagi.

Þetta er brot úr helgarviðtali sem birtist í nýjasta helgarblaði DV

Alþingi kom á óvart

Þegar Björn tók fyrst sæti á Alþingi árið 2014, þá sem varaþingmaður, var ýmislegt sem kom honum á óvart,  bæði hvað varðar aðstöðuna, samstarfsfólkið og hvernig vinnan á bak við tjöldin fer fram.

„Ég kom þarna inn og upplifði súrrealismann af því að vera þarna. Allt var miklu minna en það hafði sýnst í sjónvarpi og í fjölmiðlum. Ég er ekkert lítill maður svo ég var rekandi hnén í úti um allt. Þingið er ofan í einhverri gryfju þarna og er mun þrengra en það lítur út fyrir að vera.“

Samstarfsmenn hans á þinginu komu einnig á óvart. „Svo er fólkið sem situr þarna með manni bara ósköp venjulegt fólk. Og þegar maður sat þarna og fylgdist með fólki spjalla, með nánari og óformlegri hætti en það gerir í fréttum og sjónvarpi, þá kom á óvart hvað umræðan á Alþingi er í rauninni nákvæmlega eins og hún er hjá virkum í athugasemdum á internetinu.“

Björn fann því fyrir auknu sjálfstrausti þegar hann sá að þingmenn væri í raun bara nettröll, en hann hafði löngum glímt við slík á internetinu. „Þetta eru bara mannleg samskipti þegar allt kemur til alls. Að kunna að glíma við nettröll er hæfileiki sem velflest okkar, að minnsta kosti í Pírötum, búa yfir. Þannig að við vorum eiginlega á heimavelli að glíma við nettröllin á Alþingi sem snúa út úr öllu, bókstaflega öllu. Það var þetta sem kom mér helst á óvart, hversu mikill tröllismi er þarna. Þetta er bara ákveðin keppni, morfískeppni. Þannig hafa stjórnmálin verið, og því þarf að breyta.“

Skiptir máli hvaðan tillögur koma

„Stjórnmálamenn bera ábyrgð á því að hafa umræðuna málefnalega. Það er allt í lagi að gantast af og til, en ef pólitíkin er í sífelldri útúrsnúningarökræðu þá er aldrei verið að ræða kjarna málsins,“ segir Björn og bendir á að á Alþingi skipti miklu máli hvaðan hugmyndir og tillögur komi. Jafnvel þó svo meirihluta þingmanna finnist viss tillaga góð þá getur hún verið felld einfaldlega vegna þess að hún stafaði ekki frá réttum aðila.

„Við höfum alveg séð það, að það hefur komið hugmynd, til dæmis í fjárlögunum, breytingatillaga frá minnihluta sem er hafnað en síðan er sama breytingatillagan lögð aftur fram af meirihlutanum og er þá samþykkt. Þetta er kerfi þar sem þú vilt ekki gefa andstæðingum þínum plús í kladdann og eiga það á hættu að árangur annarra komi niður á þér.“

Þetta gildi ekki aðeins um minnihluta gegnt meirihluta Alþingis.

„Það var eitt mál, margir nefndarstarfsmenn að baki því, um rafrænar þinglýsingar. Málið var komið á lokaúttökudag, síðasti nefndarfundurinn, og það átti að klára þetta mál úr nefnd. Þá kemur einn svokallaður samstarfsmaður úr minnihlutanum og stöðvar málið. Segir bara „nei, það þarf að skoða þetta betur“. Þá reyndist flokkur þessa manns ekki vera með fleiri mál til að koma í gegn, þarna þarf nefnilega að vera visst jafnvægi líka. Ef Píratar fengju þrjú mál í gegn þyrftu allir hinir úr minnihlutanum líka að fá þrjú mál í gegn, alveg óháð því hversu góð málin væru.

Meirihlutinn vill að við fáum eins fá mál út og við getum. Svo þeir stjórna í rauninni heildarfjöldanum, en svo er líka innri barátta innan stjórnarandstöðunnar um að enginn fái meira en hinir. Það er náttúrlega sorglegt, en svona virkar kerfið, baunatalningin. Ég hef ekki fyrirgefið viðkomandi þingmanni þetta ennþá, langt í frá.“

 

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjsta helgarblaði DV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum

Katrín tekur tillit til blóðugrar valdabaráttu Bjarna um haustkosningar – Sökuð um sýndarsamráð

Katrín tekur tillit til blóðugrar valdabaráttu Bjarna um haustkosningar – Sökuð um sýndarsamráð
Eyjan
Í gær

Vill koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leigu með nýju frumvarpi

Vill koma í veg fyrir óeðlilegar hækkanir á leigu með nýju frumvarpi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ástráður íhugar aðra málsókn gegn íslenska ríkinu – Fimm sinnum verið hafnað af hinu opinbera

Ástráður íhugar aðra málsókn gegn íslenska ríkinu – Fimm sinnum verið hafnað af hinu opinbera
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þórdís leggur Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður og 81 missir starfið – „Mikilvægt að endurskoða hlutverk opinberra stofnana reglulega“

Þórdís leggur Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður og 81 missir starfið – „Mikilvægt að endurskoða hlutverk opinberra stofnana reglulega“