fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Frábær grein um mikilvægi fjölmiðla og hina hörðu lífsbaráttu þeirra

Egill Helgason
Föstudaginn 6. desember 2019 13:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórlindur Kjartansson skrifar í Fréttablaðið pistil sem ætti að vera skyldulesning, ja, fyrir alla. Ekki síst stjórnmálamenn. Pistillinn fjallar um fjölmiðla og er einstaklega mikilvægur á tíma þegar blaðamenn eiga í kjarabaráttu og fjölmiðlar eiga mjög undir högg að sækja – þegar dagblöð geispa golunni víða um veröld, fréttastofur loka og netmiðlar standa mjög ótraustum fótum.

Þórlindur áréttar mikilvægi fjölmiðla fyrir lýðræðissamfélag – og gerir það afskaplega vel. Hann skoðar líka þá staðreynd að það er engin kreppa í stétt fjömiðlafulltrúa eða á þeim vettvangi sem nefnast almannatengsl. Þangað leita svo blaða- og fréttamenn, margir mjög hæfir og með mikla þekkingu, þegar þeir hafa gefist upp á fjölmiðlaharkinu.

Grípum niður í grein Þórlindar – það er rétt sem hann segir um afleit laun blaðamanna.

„Metnaður blaðafólks fyrir starfinu sínu er þó ekki mjög rökréttur í augum þeirra sem lært hafa hagfræði. Raunar þarf ekki að kunna mikið meira en að slá inn launatölu og deila í vinnustundir til þess að sjá hversu galin fjárhagsleg ákvörðun það er að starfa af metnaði sem blaðamaður. Það er líka þannig að stór hluti bestu blaðamannanna endar á því að flytja sig úr fjölmiðlunum og yfir til stórfyrirtækja eða opinberra stofnana þar sem hægt er að fá margfalt betri laun og þægilegri lífskjör fyrir að snikka til orðsendingar, fréttatilkynningar og hjálpa forstjórum við að fara ekki á taugum í blaðaviðtölum.“

Þegar góður blaðamaður kveður fjölmiðil til þess að taka við stöðu fjölmiðlafulltrúa sitja aðrir á ritstjórninni eftir eins og einhver hafi dáið, eða eitthvað í einhverjum hafi dáið. Betra að vera barinn þræll en feitur þjónn, er þá hugsað. En öðru hverju gýs eflaust upp í flestum góðum blaðamönnum óskin um að eitthvað stórfyrirtækið bjargi þeim úr harkinu: „Er pláss fyrir mig í björgunarbátnum? Ég lofa að hætta að leita að sannleikanum bara ef ég fæ notalegt pláss og get kannski farið stundum í frí til útlanda með börnunum,“ hugsa þeir þá.“

Og hann áréttar – án góðra fjölmiðla er lýðræðið óhugsandi:

„Það er nefnilega furðuleg staðfesting á mikilvægi fjölmiðla að „markaðurinn“ er tilbúinn að borga fólki miklu meira fyrir að reyna að hafa áhrif á fréttir heldur en fyrir að skrifa þær. Og í þessari staðreynd felst líka augljós hætta.

Þótt það geti verið þreytandi að hlusta á fjölmiðlafólk tala um hversu mikilvægt það er í samfélaginu þá verður ekki framhjá því litið að fjölmiðlafólkið hefur rétt fyrir sér. Góðir og frjálsir fjölmiðlar eru jafnnauðsynlegir í lýðræðissamfélagi eins og reglulegar kosningar. Með öðrum orðum—án góðra fjölmiðla er lýðræðið óhugsandi.“

Annað mikilvægt atriði nefnir hann – mikilvægi þess að efast.

„Þar sem valdhafar hafa að jafnaði ríka tilhneigingu til þess að ljúga og ýkja þegar það hentar þá er mikilvægasta hlutverk fjölmiðla að efast. Þetta er þreytandi fyrir valdafólk og meðal þess virðist oft sáralítill skilningur á nauðsyn óþolandi fjölmiðla. Þar virðist útbreiddur sá misskilningur að góð blaðamennska felist í að raða saman á snyrtilegan hátt fréttatilkynningum sem berast frá fjölmiðlafulltrúum fyrirtækja og stofnana. Þetta er kolrangt.“

Loks – blaðamaðurinn er mikilvægari en fjölmiðlafulltrúinn:

„Blaðamenn fóru í verkfall í gær en áður voru margir góðir fyrir löngu búnir að gefast upp. Þegar launakjör í blaðamennsku eru með þeim hætti að reynslumikið og þroskað fólk getur varla leyft sér þann munað að starfa á þeim vettvangi þá eru miklu stærri og mikilvægari verðmæti í húfi heldur en fjárhagsleg afkoma einstaka fjölmiðla. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er nefnilega starf blaðamannsins mikilvægara í samfélaginu en starf fjölmiðlafulltrúans.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus