fbpx
Föstudagur 05.júní 2020
Eyjan

Miðborgarar boða til íbúafundar – Ósáttir við að þurfa að keyra í önnur hverfi eftir brýnustu nauðsynjum

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. nóvember 2019 16:30

Benóný Ægisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur boða til hugflæðifundar um bætta  verslun og þjónustu við íbúana í miðbænum laugardaginn 9. nóvember kl. 13-15 í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar, samkvæmt tilkynningu frá Benóný Ægissyni, formanni samtakanna.

„Það er tilfinning margra sem búa í miðbænum að þjónusta hafi versnað og verslun orðið fábreyttari á undanförnum árum að minnsta kosti hvað íbúana varðar. Því vill stjórn Íbúasamtakanna að íbúarnir setjist niður og ræði um og kortleggi hvað þeir hafa, hvað þá vantar og hvernig þeir geti fengið það sem þá vantar. Rekstraraðilar og aðrir sem eru að leita að viðskiptatækifærum í miðbænum eru hjartanlega velkomnir að borðinu,“

segir í tilkynningunni.

Margt horfið úr miðbænum

Einnig er nefnt að margir þeirra sem búi í miðbænum hafi sest þar að vegna þess að það er stutt í alla þjónustu og hægt er að fara flestra sinna ferða fótgangandi:

„Þeir eru því ekki sáttir við að þurfa að setjast uppí bíl og aka í önnur hverfi eftir brýnustu nauðsynjum. Því verður vart á móti mælt að mikið af verslun og þjónustu sem áður fyrirfannst í miðbænum er nú horfin eða hefur dregist verulega saman. Þar má m.a. nefna matvöruverslanir, banka, pósthús, ýmis viðgerðafyrirtæki og verslanir sem selja efni og hina ýmsu varahluti og síðast en ekki síst opinbera þjónustu sem áður var að mestu í miðbænum en er nú flutt í úthverfin. Það skýtur því nokkuð skökku við ef það er markmiðið að þétta byggð og að sem flestir geti stundað bíllausan lífsstíl að það sé verið að færa þjónustuna fjær fólki en ekki nær.“

Íbúabyggð mikilvæg

„Íbúar miðborgarinnar gera sér grein fyrir því að allt er breytingum háð því það er hvergi jafn augljóst og í miðborginnni, hún breytist stöðugt, nú síðast fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar. Íbúunum er hinsvegar mikið í mun að breytingar verði til batnaðar fyrir þá því það er mikilvægt að í miðbænum búi fólk ekki síst vegna ferðamannanna sem hafa lítinn áhuga á að vera í mannlausu túristagettói.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af