fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Ríkisstjórn ekki staðið sterkar þegar líður á kjörtímabil í langan tíma

Egill Helgason
Laugardaginn 2. nóvember 2019 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þess hefur verið minnst undanfarið að kjörtímabil ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er hálfnað. Flest bendir til þess að stjórnin muni ná að sitja heilt kjörtímabil. Hún er ekki að fást við nein stórkostleg vandræðamál, það er reyndar áberandi hversu allt er með kyrrum kjörum og tíðindalítið í stjórnmálunum þessa dagana. Maður kemur ekki auga á neitt sem gæti ógnað ríkisstjórninni, hvorki innanfrá né utanfrá. Við það bætist að stjórnarandstaðan er fjarska ósamstæð – Miðflokkurinn og Samfylkingin eiga ekki margt sameiginlegt.

Vissulega hefur fylgi stjórnarinnar minnkað í skoðanakönnunum og sömuleiðis flokkanna sem að henni standa, en þess er að gæta að ekki er alltaf mikið að marka skoðanakannanir á miðju kjörtímabili. En það má reyndar benda á að engin ríkisstjórn á Íslandi hefur haft meira fylgi um mitt kjörtímabil í nokkuð langan tíma.

Ragnar Auðun Árnason hefur tekið þetta saman í grein á Facebook í svari við svohljóðandi orð Ágústs Ólafs Ágústssonar: „Fáar ef nokkur ríkisstjórn í sögunni hefur fallið jafnhratt og jafnmikið á meðal þjóðarinnar.“

Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin hefur vissulega misst fylgi, hún naut mikils fylgis í upphafi, en hún stendur þó ansi sterkt miðað við ríkisstjórnir síðasta rúma áratugs. Ragnar Auðun skrifar:

„Ef við skoðum fylgi síðustu þriggja ríkisstjórna í fylgiskönnunum MMR og berum saman við þessa þá eru niðurstöðurnar áhugaverðar.

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG 2009-2013:

Í upphafi naut ríkisstjórnin 56.1% stuðnings skv. MMR.

Eftir tvö ár naut ríkisstjórnin 29,2% stuðnings skv. MMR.

Þarna missir ríkisstjórnin 26.9%.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks 2013-2016:

Í upphafi naut ríkisstjórnin 59.9% stuðnings skv. MMR.

Eftir tvö ár naut ríkisstjórnin 29,4% stuðnings skv. MMR.

Þarna missir hún 30.5%.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar 2017-2017:

Í upphafi naut ríkisstjórnin 35% stuðnings skv. MMR.

Í lokin naut ríkisstjórnin 25.7% stuðnings skv. MMR.

Þarna missir ríkisstjórnin 9.3% á hálfu ári.

Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 2017- :

Í upphafi naut ríkisstjórnin 66.7% stuðnings skv. MMR.

Eftir tvö ár naut ríkisstjórnin 42.2% stuðnings skv. MMR.

Þarna missir ríkisstjórnin 24.5%.

Það er því ljóst að skv. MMR hafa tvær af þeim þremur ríkisstjórnum sem komu á undan þessari misst meiri stuðning á tveimur árum en þessi hefur gert. Ég hins vegar ákvað að skoða hvernig útkoman væri ef skoðaðar væru samskonar kannanir Gallup.

Þá skulum við taka síðustu fjórar ríkisstjórnir á undan þessari, á vef MMR er ekki hægt að sjá ríkisstjórn Geirs Haarde nema að litlu leyti. Ég a.m.k. fann ekki hvernig ég gæti séð það.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar 2007-2009:

Í upphafi naut sú ríkisstjórn 83% stuðnings skv. Gallup.

Eftir 1,5 ár (eða þegar hún sprakk) naut hún 26% stuðnings skv. Gallup.

Þarna missir ríkisstjórnin 57% fylgi.

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG 2009-2013:

Í upphafi naut ríkisstjórnin 65% stuðnings skv. Gallup.

Eftir 1,5 ár 37% og það sama eftir 2 ár skv. Gallup.

Þarna missir ríkisstjórnin 28% stuðnings.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks 2013-2016:

Í upphafi naut ríkisstjórnin 62.4% stuðnings skv. Gallup.

Eftir 1,5 ár 36.6% og missir 25.8% skv. Gallup.

Eftir 2 ár 30.9% og missir 31.5% skv. Gallup.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og BF 2017-2017:

Í upphafi naut hún 43.6% stuðnings skv. Gallup

Eftir hálft ár 30.9% og hafði því missti 12.7% skv. Gallup

Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 2017- :

Í upphafi naut ríkisstjórnin 74.1% stuðnings

Eftir 1.5 ár 50.7% og hafði því misst 23.4%

Eftir 2 ár 50.5% (í okt, rétt rúmlega 50% skv. nýjustu könnun) hafði því misst 23.6%

Það eru skiptar skoðanir á núverandi ríkisstjórn, mér t.a.m. þykir hún hafa staðið sig ágætlega. Fyrir mér hins vegar skiptir mestu máli hver stuðningurinn við ríkisstjórnina er frekar en hverju hún hefur tapað. Núverandi ríkisstjórn nýtur 42.2% stuðnings almennings skv. MMR en 50.5% skv. Gallup. Þetta er mesti stuðningur við ríkisstjórn eftir tveggja ára valda tíma í meira en 10 ár.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn