fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Eyjan

Gamla frystihúsið á Kirkjusandi, falið bak við álklæðningu, en verður brátt rifið

Egill Helgason
Fimmtudaginn 24. október 2019 17:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikið fár út af Íslandsbanka í dag – það er slíkt upphlaup út af nýkunngjörðri auglýsingastefnu bankans að bæði Sigmundur Davíð og Bjarni Ben hafa lýst áhyggjum í þingsal. Ég ætla að leyfa mér að beina augunum annaði því í dag birtist líka frétt þess efnis að Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, vilji láta rífa það sem voru til skamms tíma höfuðstöðvar bankans á Kirkjusandi. Engin starfsemi er lengur í húsinu og það er síst til prýði – endurgerð þess með viðamikilli álklæðningu hefði aldrei getað fengið nein fegurðarverðlaun. Það er mygla í húsinu og sagt að starfsmenn sem þarna voru hafi fundið til lasleika vegna hennar.

Það verður heilmikið verk að rífa svona stórt hús og fjarlægja það, það er 6900 fermetrar, en hugmyndin er að reisa þarna íbúðabyggð – sem er hið besta mál. Laugarneshverfið er eitt hið skemmtilegasta í Reykjavík og vonandi heldur það áfram að vaxa og dafna.

En sagan þarna á bak við er merkileg. Íslandsbankahúsið er í raun endurbygging gamals frystihúss var eitt sinn hið stærsta á Íslandi. Margir unnu í lengri eða skemmri tíma í frystihúsinu – unglingar sem ég þekkti voru þarna í sumarvinnu. Frystihúsið var reist af athafnamanninum Tryggva Ófeigssyni í kringum 1950, hann rak þá fyrirtæki sem kallaðist Júpíter og Mars og gerði líka út togara. Húsið þótti hið glæsilegasta og eins og sjá má á þessari mynd stóð það alveg úti við sjávarkambinn. Þar hefur aldeilis orðið breyting, því nú er húsið alllangt frá sjónum – þannig má greina hversu miklar landfyllingar eru meðfram norðurströnd borgarinnar.

Ísfélagið í Vestmannaeyjum átti frystihúsið á Kirkjusandi um tíma, en síðar eignaðist Samband íslenskra samvinnufélaga það. Það var á tíma Sambandsins sem hafist var handa við að endurnýja húsið og breyta því í skrifstofuhúsnæði sem átti að verða nýjar höfuðstöðvar Sambandsins. En svo fór SÍS á hausinn, Íslandsbanki tók við húsinu og var þar fram til 2017.

En fiskvinnsla á þessum stað á sér miklu lengri sögu. Athafnamaðurinn Th. Thorsteinsson hóf saltfiskverkun á Kirkjusandi 1899, þá voru ennþá á svæðinu kennileiti sem eru horfin undir götur og malbik, Fúlatjörn, Fúlutjarnarlækur og hinn eiginlegi Laugalækur – sbr. samnefnda götu. Þarna var lengi stærsti fiskreiturinn í Reykjavík og þarna starfaði fjöldi verkafólks.

Í kjölfarið fylgdi svo Jes Ziemsen og setti upp tvö fiskverkunarhús. Ýmis fleiri mannvirki risu í tengslum við fiskvinnsluna en þau eru öll horfin. Síðasta húsið sem stóð eftir var flutt burt og stendur nú við Ægisgarð 2, hýsir þar veitingahúsið Caruso.

Á þessum tíma byggist svo Laugarnesið upp og má segja að það sé fyrsta úthverfi Reykjavíkur.

Framkvæmdasemin var svo mikil að lagðir voru um fimm hundruð metrar af bautarteinum frá Fúlutjörn að húsunum á Ytri-Kirkjusandi og þaðan norður að húsunum á Innri-Kirkjusandi.  Auk þess lágu teinarnir á búkkum yfir Fúlutjörn á tímabili.

Fúlatjörn var við sjávarborðið, eilítið vestan við Kirkjusand, þar mætast nú Borgartún og Kringlumýrarbraut. Þegar veitingahúsið Klúbburinn var hvað vinsælastur, frægur fyrir drykkju og drabb, var haft að orði að ekki væri von á góðu, enda hefði hann verið reistur ofan á Fúlutjörn.

En var Fúlatjörn svo fúl? Sjálfsagt hefur hún ekki alltaf lyktað vel, en hjá Árna Óla birtist sú kenning að nafnið sé afbökun, tjörnin hafi upphaflega heitið Fuglatjörn en í hinni hálfdönsku Reykjavík hafi þetta afbakast úr danska orðinu „fugl“, borið fram „fúl“.

Hér á þessari loftmynd má sjá það sem eftir er af Fúlutjörn árið 1954. Myndin kemur af vef Borgarsögusafns. Fúlutjarnarlækur var settur í stökk 1957 og tjörnin var alveg horfin 1960.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn