fbpx
Fimmtudagur 09.júlí 2020
Eyjan

Vill leggja niður nýskipaða fjölmiðlanefnd – „Uppfyllir ekki lög um fjölmiðla“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 23. október 2019 09:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nýja fjölmiðlanefnd á dögunum til fjögurra ára. Samanstendur hún af fjórum einstaklingum, en enginn nefndarmanna er sagður hafa reynslu eða sérþekkingu á fjölmiðlastörfum. Þrír eru lögfræðingar og einn er prófessor í heimsspeki.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar leiðara Fréttablaðsins þessu sinni og fer yfir helstu ástæður þess að leggja eigi nefndina niður. Hún fer hörðum orðum um nefndina, segir að ríkið eigi ekki að hafa húsbóndavald yfir fjölmiðlum og nefnir sem er að fjölmiðlanefnd hin fyrri hafi verið óstarfhæf þar sem Blaðamannafélag Íslands hafi dregið fulltrúa sinn úr henni sökum vanhæfis og að hún eigi sér lítinn tilverurétt, enda skjóti það skökku við að opinber nefnd hafi það hlutverk að leggja stein í götu fjölmiðla. Aðrar starfsstéttir búi ekki við slíkt:

„Það er þess vegna vandséð hvort tilgangur nefndarinnar, sem á að vera efling fjölmiðlalæsis og fjölbreytni, hafi skilað árangri, eða hvort hún hafi aðeins vegið að ritstjórnarfrelsi í landinu.“

Uppfyllir ekki lög um sjálfa sig

Sunna bendir á að sjálf nefndarskipanin uppfylli ekki lög um fjölmiðlanefndina, þar sem aðeins séu fjórir nefndarmenn tiltækir og það sé kjörin útgönguleið fyrir Lilju til að leggja nefndina niður:

„Fyrrnefndur ráðherra fjölmiðlamála lofaði bót og betrun eftir gagnrýni félagsins, (BÍ)  en umbæturnar urðu þó ekki meiri en svo að ráðherra hélt óþörfu starfi nefndarinnar til streitu og skipaði fjóra fjölmiðlanefndarmenn í stað fimm, þar sem engin tilnefning barst frá Blaðamannafélagi Íslands.“/

„Ráðherra þarf að átta sig á því að ríkið hefur ekki og má ekki hafa húsbóndavald yfir blaðamönnum. Þeir sem telja á sér brotið geta leitað til siðanefndar BÍ eða dómstóla og það fyrirkomulag hefur gengið prýðilega undanfarna áratugi. Ráðherra þarf að standa við yfirlýsingar sínar um endurskoðun fjölmiðlalaga og á sama tíma treysta því að blaðamennska sé unnin af heilum hug. Gott fyrsta skref væri að leggja nefndina niður og þannig spara skattgreiðendum aurinn. Útgönguleiðin gæti verið sú að nefndin uppfyllir ekki lög um fjölmiðla sem kveða á um fimm nefndarmenn.“

Kveðið á um fjölda og sérþekkingu

Í 8.grein laga um fjölmiðla er fjallar um skipan fjölmiðlanefndar segir að nefndin skuli samansett af fimm einstaklingum og að nefndarmenn skuli hafa sérþekkingu á fjölmiðlamálum, en vandséð er hvernig núskipuð fjölmiðlanefnd uppfyllir þær kröfur meðan Blaðamannafélagið hyggst ekki tilnefna nefndarmann, en með alla sína lögfræðiþekkingu er ekki loku fyrir það skotið að nefndin finni einhverja glufu á þeim:

„[Ráðherra] 1) skipar fimm manns í fjölmiðlanefnd til fjögurra ára í senn. Tveir fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands en þann fimmta skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann nefndarinnar og skal hann uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Varaformann skal skipa úr hópi fastra nefndarmanna. Aðrir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu hafa sérþekkingu á fjölmiðlamálum, reynslu eða menntun sem nýtist á þessu sviði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar

Skera verður niður óþarfa kostnað vegna Covid-19 kreppunnar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Steingrímur J. um þingslitin, Covid-19 og framhald sitt í pólitík

Steingrímur J. um þingslitin, Covid-19 og framhald sitt í pólitík
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Dagur sagður haldinn andúð og hatri á þörfustu þjónustufyrirtækjunum

Dagur sagður haldinn andúð og hatri á þörfustu þjónustufyrirtækjunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“

Ragnar vill svör – „Á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin“