fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Sigurhæðir Matthíasar til sölu: „Sjálfur skal ég þrælbinda Þorgeirsbola og Húsavíkurskottu, svo að þau geri þér ekkert mein“

Egill Helgason
Miðvikudaginn 2. október 2019 22:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Akureyri er fræg fyrir skáldahúsin sín, Nonnahús, Davíðshús og Sigurhæðir – þar sem Matthías Jochumsson bjó. Matthías flutti til Akureyrar 1886, mætti fyrst nokkrum kaldrana enda var hann af almúgafólki kominn, en vann sig upp í áliti, reisti hið glæsilega hús Sigurhæðir 1903, varð heiðursborgari Akureyrar – af honum er stytta í Lystigarðinum.

Reykvíkingar eiga ekkert sem jafnast við skáldahús Akureyrar, og hefur stundum verið um það rætt að þar mætti bæta úr. En auðvitað má benda á að skáld lifa fremur í verkum sínum en í húsum. Það er mikilvægara að sýna þeim sóma.

Og nú hefur verið tilkynnt að Akureyrarbær vilji selja Sigurhæðir. Bæði sé dýrt að halda húsinu og aðgengi að því sé lélegt. Kannski ætti maður að slá til og kaupa? Nógu stendur húsið fallega í brekkunni neðan við Akureyrarkirkju. En þrepin eru kannski fullmörg þegar maður fer að reskjast.

Matthías var stórbrotin persóna – og hann var líka stór maður. Til er frábær lýsing Davíðs Stefánssonar á því þegar þeir hittust í Sigurhæðum skáldin Matthías og Stephan G. Stephansson sem var í Íslandsheimsókn alla leið frá Albertafylki í Kanada þar sem hann bjó. Þessi kafli er úr ritgerð eftir Davíð sem nefnist einfaldlega Kynni mín af Séra Matthíasi:

„Þótt þessi tvö höfuðskáld hefðu bæði hlotið hinn innra eld í ríkulegum mæli, var útlit þeirra og framkoma næsta ólík, ekki síður en ljóð þeirra. Matthías var feitlaginn, þreklegur og höfðinglegur útlits. Stephan grannur og þreytulegur. Matthías síkvikur og sítalandi. Stephan hæglátur og fámáll. Og nú sátu þeir hvor í sínu horni dagstofunnar á Sigurhæðum og hofðust í augu ­ í síðasta sinn. Yfir Stephani hvíldi hljóðlát kyrrð, alvöruþungi. Matthías var orðhreifur og gamansamur. Ég fann, að þessar tvær gömlu hetjur undu vel samvistum. Enda þótt ljóð þeirra væru ólík að formi og ytra búnaði, áttu þeir sviplíkar hugsjónir, drauma um heill og framtíð þeirra, sem jörðina byggja. Þó að ljóð Stephans væru veðurbitin, en ljóð Matthíasar geislum mögnuð, höfðu bæði skáldin náð þeirri snilld, sem því aðeins næst, að mikill andi og heitt hjarta leggi saman alla krafta sína.

Það leyndi sér ekki, að þeim var þungt um andardráttinn. Samtalið var stutt og fábreytt, engin andagift, enginn eldur , aðeins hversdagsleg orð.

Loks reis Stephan úr sæti, Matthías líka. Nokkur andartök stóðu þeir andspænis hvor öðrum, hljóðir, orðlausir. Geti andlegar verur úr öðrum heimum nálgazt jörðina, þá er ég sannfærður um, að á þessari stund var stofa Matthíasar full af ósýnilegum, hvítum sálum. Og þarna stóðu þeir, tveir höfðingjar andans, sinn úr hvorri heimsálfu, en þó synir sömu þjóðar, báðir rammíslenzkir. Báðir höfðu þeir unnið stórvirki, báðir hlotið ást og lotningu Íslendinga. Hér átti íslenzk skáldlist, íslenzk hámenning aldarinnar, sína beztu fulltrúa, og guð má vita, hvenær tveir slíkir menn heilsast og kveðjast aftur. Á þessari stund var að gerast mikill atburður, einn hinna merkari í sameiginlegri sögu Íslendinga heima og erlendis.

Loks rétti Stephan G. fram æðabera, skjálfandi höndina. En þá breiddi Matthías út faðminn, vafði Stephan örmum og ­ kyssti hann. Matthías grét. Stephan grét ekki. Það var eins og andlit Stephans væri höggvið úr bergi, hrufótt, stirðnað, aðeins augun ljómuðu ­og sá ljómi var ósvikinn. En það vissi ég þá og seinna, að skilnaðurinn var honum mun þyngri og sárari en séra Matthíasi. Það var eins og Stephan G. hefði kvatt allt Ísland og alla íslenzku þjóðina hérna megin hafsins í síðasta sinn, með þessum eina kossi. Úr þessu var hann á heimleið ­ vestur . . .

Við gengum allir út úr stofunni. Matthías fylgdi Stephani út fyrir húshornið og kallaði á eftir honum: – blessi þig allir guðsenglar og allar góðar vættir. Stephan nam snöggvast staðar og leit um öxl. Sjálfur skal ég þrælbinda Þorgeirsbola og Húsavíkurskottu, svo að þau geri þér ekkert mein. Þetta voru síðustu orð Matthíasar við Stephan G. Stephansson. Stephan þagði – og gekk á brott. Matthías horfði á eftir honum út götuna.

Það er óvíst að Matthías hafi mælt síðustu orðin af gamansemi einni, eins og mörgum gæti virzt í fyrstu. Vel gæti verið, að Þorgeirsboli og Húsavíkurskotta hafi í svipinn verið honum táknrænar skuggamyndir, harkan og heimskan, eða eitthvert hinna illu afla þjóðlífsins, sem bæði skáldin höfðu orðið að berjast við – alla ævi. Vera má, að Matthías hafi með þessum orðum verið að fullvissa Stephan um, að uppfrá þessu mundi enginn Íslendingur reyna að varpa skugga á veg hans, nafn hans, verk eða orðstír.

Daginn eftir hitti ég Matthías að máli, og ræddi hann þá mikið um Stephan G. Kvað hann skáldskap Stephans stirfinn, en stórbrotinn, kaldhamraðan, en karlmannlegan, mörg kvæða hans væru eins og hrikalegur hraungrýtisfláki, sem að vísu hefði einu sinni verið glóandi eldur í sál skáldsins, en þegar þau birtust, væru þau köld og steinrunnin. Hann kvað Stephan yrkja of mikið með heilanum, en of lítið með hjartanu, þess vegna væri hann fremur spekingur en skáld. Að lokum mælti Matthías:

­ En Stebbi er bölvans góður. Og líklega er hann stórskáld, blessaður karlinn . . .“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn