fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Eyjan

Kommúnistaflokkur Kína – „með verstu úrhrökum sem veraldarsagan greinir“

Egill Helgason
Þriðjudaginn 1. október 2019 19:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á heimili afa míns og ömmu voru til ótal munir sem minntu á veru þeirra í Kína. Húsgögn, útskornir stólar og borð, sem þau höfðu flutt með sér alla leið til Íslands. Lökkuð tréstytta af vígamanni í sama stíl. Reykjarpípa úr málmi sem ég kann ekki að nefna. Lítil bronsstytta sem ég er með í fórum mínum – sömuleiðis af vígamanni. Vegabréf fjölskyldunnar á kínversku.

Svo voru allar myndirnar sem ég gat skoðað endalaust, ljósmyndir sem voru teknar lengst inni í Kína, af móður minni og systkinum hennar þegar þau voru lítil ljóshærð börn. Afi og amma í ljósum fötum. Kvikmyndir sem afi hafði tekið í Kína áður en hann fór heim. Bækur með myndum frá Kína sem ég fletti oft – en einna minnistæðust er mér litla fánastöngin í stofunni. Mér fannst hún reyndar ekkert svo lítil þá. Henni fylgdu ýmsir fánar, norski fáninn – af því amma var norsk  – (það voru líka myndir frá Noregi á heimilinu og af Hákoni kóngi og Ólafi prins) og svo var það kínverski fáninn. Ég lék mér stundum að því að draga þá að húni.

En kínverski fáninn var svona – þetta var fáni kínverska lýðveldisins sem upphófst með Sun Yat Sen en var lengst undir stjórn Chang Kai-shek, sem var leiðtogi lýðveldisins Kína sem leið undir lok þegar kommúnistar undir forystu Maó Tse tung sigruðu í borgarastríði, hröktu hann frá völdum og yfir til Taiwan.

Í bókum sem ég fletti hjá afa og ömmu voru myndir af þessum körlum og fólkinu sem fylgdi þeim að málum. Undarlegastur fannst mér manngrúinn sem safnaðist í kringum Maó, veifandi lítilli bók sem kallaðist Rauða kverið og þrammandi undir mergð af rauðum fánum. Þetta var eitthvað svo framandlegt, líkt og það gerðist á öðrum hnetti. Kína var þá algjörlega lokað land, afi og amma höfðu búið þar á árunum frá 1921 til 1938 – nú höfðu þau varla neinar spurnir af fólki sem þau höfðu kynnst, vinum, kunningjum, nemendum. Það var grunur um að margir hlytu að vera í bráðri lífshættu. Afi og amma voru ekki hrifin af Maó eða kommúnismanum.

Það var ekki að ástæðulausu. Fyrir 70 árum, 1. október 1949, lýsti Maó yfir stofnun kínverska alþýðulýðveldisins í Bejing. Síðan tók hann til óspilltra málanna – hægt er að leiða líkum að því að hann sé beint og óbeint afkastamesti manndrápari sögunnar. Chang var fantur og alræðissinnaður, en Maó var örugglega siðvillingur. Ekki einungis lét hann myrða fólk í stórum stíl, stundum skipulega, stundum af handaófi, heldur voru ýmsar stjórnvaldsaðgerðir hans til þess fallnar að skapa stórkostlega neyð í landinu. Milljónir á milljónir ofan létu lífið.

Það vildi svo til á þessum árum að ég hafði viss tengsl við Íslendinga sem höfðu dvalist í Kína, auðvitað afa og ömmu, Ólaf Ólafsson og Herborgu Ólafsson. Jóhann Hannesson, kristniboði og prófessor, skírði mig. Svo var það Skúli Magnússon, síðar jógakennari, sem var skyldur mér. Skúli fór til náms í Kína á tíma Maós, gekk algjörlega af trú á kommúnismann við dvölina eystra, og skrifaði bréf sem seinna komu fyrir almannasjónir þegar Heimdellingar komust yfir svokölluð SÍA-skjöl og birtu á bók. Skúli skrifaði meðal annars, við litla hrifningu kommúnista:

„Þegar ég hafði dvalizt nokkra mánuði í landi þessu upphófst mikill annatími. Hann var ekki falinn í þeim störfum, sem ég þekkti vestan af fjörðum: hrognkelsa- og silungsveiði, smölunum og réttum vor og haust, heyskap á sumrum né tóvinnu á vetrum. Hann var falinn í sjálfsmorðum. Sumir átu nagla, títuprjóna og glerbrot, aðrir stukku niður af þriðju og fjórðu hæð, enn aðrir köstuðu sér í vötn þau, sem hér eru í campusnum. Einn prófessor var t.d. dreginn upp úr vatninu og barinn af stúdentum sínum með þeirri yfirlýsingu, að hann hefði gjörla vitað, að vatnið væri of grunnt til að drekkja sér þar í og hann væri bara í þykjustuleik; og var téður prófessor hið snarasta sendur á geðveikrahæli (vinnubúðir). Einn stúdent kastaði sér niður af þriðju hæð og braut á sér báða fætur. „Framvarðalið verkalýðsins: Flokkurinn“ (með stórum staf eins og Guð) rak niður tvo þölla á staðnum og negldi þar kassafjöl á með slíkri áletran: „Hvaða óhreina plan gegn fólkinu hafði téður stúdent í huga þegar hann kastaði sér hér niður?“

Hér voru á ferðinni þeir menn sem orðið höfðu við áskorun Maós í ræðu hans 27. febrúar 1957 um blómin og skólana, svo sem frægt er orðið, að segja hug sinn allan. Ég get sagt þér, að svo mikið er traust alþýðu manna til „framvarðaliðs síns“, að menn héldu sem fastast kjafti í að minnsta kosti tvær vikur (held ég, ég er ekki alveg viss um tímann, enda skiptir hann ekki miklu máli) eða lengur, meðan flokkurinn lagði sem fastast að þeim að tala. Loks sprakk stíflan, en aðeins í tíu daga, þá var troðið upp í skarðið. Allir þeir, sem ég veit um, töluðu meira og minna ófúsir vegna hvatningarorða og loforða, og svo mun hafa verið um flesta. Flestir komu aðeins með blákaldar staðreyndir, nokkrir þó með „kennisetningar“. Það komust þeir lengst á villunnar braut að boða borgaralegt þingræði og tveggja flokka kerfi. Á þessum mönnum var síðan barið á þann hátt, að æstur var upp skríll, þeir settir í miðjuna í hring, sem skríllinn myndaði, (aðeins einn í hvert skipti að sjálfsögðu) og látnir hneigja höfuð, síðan öskrar skríllinn skammir og svívirðingar að þeim; og við útlendingar hér heyrðum óhljóðin þegar við fórum í hressingargöngu á síðkvöldum. Þeir, sem hættulegri þóttu, fengu enga hvíld, hvorki á degi né nóttu. Það var gert á þann hátt, að sendur var hópur manna til að atyrða þá, þegar sá hópur hafði dvalið um stund var annar sendur og svo koll af kolli, dag og nótt, sólarhringum saman. Ein stúlka, örvinluð af ölllu saman, svipti sig öllum klæðum, svo að karlmennirnir kynnu ekki við að dvelja lengur, þa voru stúlkurnar bara sendar í staðinn. Síðar frétti ég að stúlkuauminginn hefði sturlazt.

Skúli hélt áfram:

Hverju mannsbarni hlýtur að vera ljóst, að allir eru alltaf að njósna um alla. Margir stúdentar eiga engan trúnaðarvin meðal skólafélagaga sinna: þeir lifa ekki normölu andlegu lífi. Börnin fara hér á skrifstofur „framvarðasveita verkalýðsins“ og gefa reglulegar skýrslur um foreldra sína. Kona og maður og börn þeirra njósna hvort um annað; eðlilegt mannlegt samband milli fólks er rofið, en í stað þess liggja allir þræðir um lófa „Flokksins“.

Ég fæ ekki betur séð en, að Kommúnistaflokkur Kína sé með verstu úrhrökum, sem veraldarsagan greinir. Eignist kínverskur stúdent okkur að vinum og ef upp kemst, eru þeir oftast nær skammaðir og bannað að hafa við okkur samneyti. Fellum við ást á stúlkum, hverfa þær sporlaust.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir foreldrum mismunað eftir því hvenær í mánuðinum börn þeirra eru fædd

Segir foreldrum mismunað eftir því hvenær í mánuðinum börn þeirra eru fædd
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Fjölskyldur og íþróttamenn látin bíða í óvissu vikum saman – „Stjórnvöld telja málið ekki brýnna en svo“

Fjölskyldur og íþróttamenn látin bíða í óvissu vikum saman – „Stjórnvöld telja málið ekki brýnna en svo“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Samherji hafnar ásökunum um arðrán

Samherji hafnar ásökunum um arðrán
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Allir dagar eiga að vera Hinsegin dagar“

„Allir dagar eiga að vera Hinsegin dagar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Mynd dagsins – Sigmundur bjó til regnboga

Mynd dagsins – Sigmundur bjó til regnboga
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín ræðir Gunnar Smára – Segir marga líta á Viðreisn sem ógn

Þorgerður Katrín ræðir Gunnar Smára – Segir marga líta á Viðreisn sem ógn