fbpx
Fimmtudagur 06.ágúst 2020
Eyjan

Við Höfða í dag: Pence veifaði til mín, leyniskytta skoðaði mig í kíki, en regnbogafánar blöktu

Egill Helgason
Miðvikudaginn 4. september 2019 20:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég gekk Borgartúnið í dag og Mike Pence veifaði til mín.

Það var ekki svo að ég hefði gert mér sérstaka ferð til að sjá hann. Ég geng nokkrum sinnum í viku inn í Laugarnes þar sem konan mín starfar.

En í þetta sinn voru margar götur lokaðar fyrir bílaumferð en gangandi vegfarendur komust að mestu leiðar sinnar. Það var ekki fyrr en ég kom í Borgartúnið að ég áttaði mig á að Pence myndi vera væntanlegur.

Langt er í frá að þarna hafi verið margmenni. Á svæðinu voru aðallega lögreglumennn og svo starfsfólk úr nálægum fyrirtækjum sem var að forvitnast. Margir voru með dálítið vantrúarbros á vör, þetta virkaði eitthvað svo mikið fyrir lítinn mann.

Ég sá ekki ungu mennina sem brenndu ameríska fánann, en það er eitthvað mjög viðeigandi við að annar þeirra heiti Jón Múli. Ef mér skjátlast ekki var afi hans handtekinn á Austurvelli 1949 við að mótmæla inngöngunni í Nató.

Hins vegar sá ég leyniskyttur uppi á þökum. Ég var með símann á lofti að taka myndir – vakti greinilega athygli einnar leyniskyttunnar. Sá að hann beindi sjónauka sínum að mér og horfði nokkra stund.

Ég þurfti ekki að bíða lengi, því bílalest Pence birtist stuttu síðar. Hún var ógnarlöng. Ég náði ekki að telja bílana, en þarna innanum voru stórir svartir og gráir jeppar eins og bandarískir löggæslumenn virðast svo hrifnir af ef marka má kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Innan í einum bílnum sá ég grilla í mann með hvítt hár. Hönd fór á loft – hann var að veifa, að mér sýndist til mín og tveggja annara vegfarenda sem stóðum bak við girðinguna. Þetta gerðist svo snöggt að ég náði ekki einu sinni að íhuga hvort ég átti að veifa á móti.

Svo staðnæmdist bílalestin og ég sá hvíthærða manninn úr fjarska fara inn um hliðardyr á Hofdi House, eins og það er kallað.

Fyrir framan tölvufyrirtækið Advania blöktu regnbogafánar. Flestir Íslendingarnir sem voru á staðnum virtust fagna því. Ein besta hliðin á þjóðinni okkar er skilningsleysi hennar gagnvart hermennskutilburðum, vopnaskaki og einkennisbúningum. Sú trú að þeir sem standa í slíku eigi helst að fá aðeins á baukinn.

Mér varð hugsað til smásögunnar Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík eftir Halldór Laxness. Hana er hægt að lesa í þessu hefti Rauðra pennna frá 1938. Sagan fjallar um ítalska flugsveit sem kemur til Reykjavíkur undir forystu herforingjans Pittigrilli og vikadrenginn Stebba sem þykist ekki minni maður en hann.

Regnbogafánarnir blöktu fagurlega og gátu ekki farið framhjá neinum sem átti leið um svæðið. Mér varð hugsað til þess að það væri þó gott að yfirvöldin hefðu ekki reynt að taka þá niður. Þetta er dálítið annað en þegar Jiang Zemin, aðalritari kínvarska kommúnistaflokksins, kom hingað um árið og fánar voru teknir af Falun Gong liðum.

Þegar ég kom heim sá ég að borgarstjórinn hafði komið á hjóli en forsetinn íslenski hefði verðið með regnbogalitað armband.

Svo hafði kunningi minn Jón Þór Sturluson, sem vinnur í Borgartúninu og var með útsýni yfir herlegheitin, sett þessa limru á netið:

Hringinn um Höfða er fens,
því hingað er kominn hann Pence.
Um viðskipti þrefum,
en umframallt gefum
fjölbreytileikanum séns.

Nú snemma kvölds hitti Katrín Jakobsdóttir svo Pence á Keflavíkurflugvelli. Þetta er mynd tekin af skjá sjónvarps. Hvað segja þessi svipbrigði forsætisráðherrans okkar?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðni hjólar í Dag – „Ég hef aldrei á langri ævi horft á ann­an eins skrípaleik“

Guðni hjólar í Dag – „Ég hef aldrei á langri ævi horft á ann­an eins skrípaleik“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes skýtur á opinbera starfsmenn

Hannes skýtur á opinbera starfsmenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skrif Harðar vekja hörð viðbrögð: Hver er að beita skuggastjórnun?

Skrif Harðar vekja hörð viðbrögð: Hver er að beita skuggastjórnun?