fbpx
Miðvikudagur 18.september 2019  |
Eyjan

Sögufrægt fley í Reykjavíkurhöfn: Skipið sem sigldi á Andrea Doria

Egill Helgason
Föstudaginn 23. ágúst 2019 12:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég horfði á þetta fremur smáa skemmtiferðaskip sigla úr höfninni í Reykjavík í fyrrakvöld og það vakti forvitni mína. Skipið virtist nokkuð gamalt. Það nefnist Astoria og siglir undir portúgölskum fána.

Ég fletti því upp á netinu og komst að því að Astoria á merkilega og undarlega sögu. Þetta mun vera eitt elsta skemmtiferðaskip sem er í notkun í heiminum. Því var hleypt af stokkunum í Svíþjóð 1946 og hlaut þá nafnið Stockholm. Skipið hefur þvælst víða síðan þá og reyndar heitið ýmsum nöfnum eins og Völkerfreundschaft ,Volker, Fridtjof Nansen, Italia 1, Italia Prima, Valitur Prima, Caribe og Athina.

Skipið hefur verið endurbyggt nokkrum sinnum, það var eitt sinn í eigu Austur-Þjóðverja og hét þá Völkerfreundschaft (vinátta milli þjóða), undir nafni Friþjófs Nansen notuðu Norðmenn það sem dvalarstað fyrir flóttamenn, það lenti í sjóræningjaárás í Adenflóa sem var hrundið með vatnsdælum. Nú er það rekið af bresku félagi, Cruise & Maritime Voyages, var á leið frá Reykjavík til Belfast þegar ég horfði á það sigla út úr höfninni.

En frægast er skipið fyrir að eiga hlut að einu frægasta sjóslysi sögunnar. Það var að kvöldi 25. júlí 1956 að skipið, sem þá hét Stockholm, rakst á ítalska skipið Andrea Doria í mikilli þoku. Þetta gerðist undan strönd Nantucket í Bandaríkjunum. Fimm skipverjar á Stockholm létust við áreksturinn, en það hélst á floti. Hins vegar sökk Andrea Doria sem var miklu stærra og glæsilegra skip – átti ekki að geta sokkið líkt og Titanic.

Andrea Doria hélst á þó á floti í ellefu tíma. Það kom í ljós að helmingur af björgunarbátum skipsins voru ónothæfir, en skip dreif að og tókst að bjarga flestum farþegum – margir komust líka um borð í Stockholm. Að endingu fór betur en á horfði. 1660 farþegar og áhafnarmeðlimir björguðust, 46 fórust.

Þessir atburðir vöktu heimsathygli og var mikið um það deilt hvort skipið hefði valdið slysinu. Úr því hefur aldrei verið almennilega skorið, fyrst beindist grunur fremur að ítalska skipinu en síðari rannsóknir hafa leitt í ljós að skýringin kann að vera mislestur á radar af hálfu sænsku skipverjanna.

Það hefur verið mjög vinsælt að kafa niður að Andrea Doria, enda var þetta glæsilegt skip, fullt af dýrgripum. Það sökk heldur ekki á nema 50 metra dýpi. En það er hættulegt að kafa þarna vegna mikilla strauma og vegna þess hvað vatnið er kalt. Alls er talið að 22 kafarar hafi látið lífið við að kafa niður að Andrea Doria.

En það var merkilegt að sjá þetta skip sigla út úr höfninni í Reykjavík. Astoria, sem eitt sinn hét Stockholm, er miklu minna en risastóru skemmtiferðaskipin sem hingað koma en það á sér miklu stærri sögu.

Efri myndin sýnir Astoria sigla út úr höfninni í Reykjavík, neðri myndin sýnir skipið eftir áreksturinn við Andrea Doria.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 21 klukkutímum

Dómsmálaráðherra vill breytingar hjá lögreglunni – Aukin hagkvæmni og minni yfirstjórn

Dómsmálaráðherra vill breytingar hjá lögreglunni – Aukin hagkvæmni og minni yfirstjórn
Eyjan
Í gær

Fossinn Dynjandi millifærður í ríkisbókhaldinu – „Hver gefur hverjum hvað? Eigum við ekki Rarik? Þjóðin?“

Fossinn Dynjandi millifærður í ríkisbókhaldinu – „Hver gefur hverjum hvað? Eigum við ekki Rarik? Þjóðin?“
Eyjan
Í gær

Segir útreikning fæðingarorlofshækkunar ganga gegn kynjajafnrétti: „Segjum bara 870 þús­und slétt“

Segir útreikning fæðingarorlofshækkunar ganga gegn kynjajafnrétti: „Segjum bara 870 þús­und slétt“
Eyjan
Í gær

Svona vill Gunnar leysa umferðarhnútinn í Reykjavík: „Ættum að geta lifað við þetta“

Svona vill Gunnar leysa umferðarhnútinn í Reykjavík: „Ættum að geta lifað við þetta“
Eyjan
Í gær

Eyþór Arnalds: „ Fuck you, I won´t do what you tell me“

Eyþór Arnalds: „ Fuck you, I won´t do what you tell me“
Eyjan
Í gær

Eftirlitsstofnanir ríkisins þenjast út – Vaxandi útgjöld ár eftir ár

Eftirlitsstofnanir ríkisins þenjast út – Vaxandi útgjöld ár eftir ár