fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Borgin þarf að fylgjast miklu betur með framkvæmdum og gefa miklu meiri upplýsingar

Egill Helgason
Fimmtudaginn 15. ágúst 2019 14:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er margt sem veldur því að veitingastaðir eiga í basli. Það er alveg rétt sem sagt er um háa leigu, fasteignagjöld, launakostnað sem hefur hækkað – en svo er líka sú einfalda ástæða að veitingahúsum hefur fjölgað úr hófi fram. Það eru alltof margir að berjast um of fáa viðskiptavini – í bjartsýniskasti síðustu ára héldu menn að túristum myndi halda áfram að fjölga, en sú er ekki raunin.

Nú er líka rætt um hvernig borgin stendur að framkvæmdum. Auðvitað er nauðsynlegt að framkvæma – og sumt er varla hægt að gera nema á sumrin. En reynslan er hins vegar sú að upplýsingagjöf borgarinnar er í algjöru skötulíki. Þetta hefur komið fram í umræðunni undanfarið – og svona hefur þetta verið lengi.

Það vantar mikið upp á grenndarkynningar, rekstraraðilar fá að vita um raskið með fárra daga fyrirvara, svo er lítið eftirlit með því hvernig staðið er að framkvæmdunum, hávaðanum frá þeim og hvort þær dragast á langinn. Og einatt er litlar upplýsingar að hafa frá borginni – fátt um svör þegar hringt er eða sendur tölvupóstur.

Kona mín var um nokkurt skeið með verslun/veitingastað í Bergstaðastræti. Þá hófust miklar framkvæmdir á Laugavegi 4-6. Það var grafin djúp hola ofan í jörðina, framkvæmdirnar voru svo freklegar að gangstétt á Laugavegi var lokað um langt skeið, það af slysni grafið undir nálæg hús, þetta tók óralangan tíma og hávaðamengunin var gríðarleg. Allt nötraði og skalf í kring.

Kynning á þessu var nánast engin. Þegar svo var farið að leita upplýsinga var varla nein svör að fá. Margir í nálægum húsum kvörtuðu, sumir margoft, en viðbrögðin voru sama og engin – við komum meðal annars að því að kvartanir voru ekki skráðar niður. Það var semsagt eins og nágrannarnir væru alltaf á byrjunarreit.

Þessar framkvæmdir voru reyndar alveg fáránlegar. Það var gjörsamlega út í hött að grafa djúpan kjallara undir gömlu húsin þarna á Laugaveginum. Framkvæmdirnar við Hverfisgötuna eru hins vegar skiljanlegar – en það virðist álíka illa að þessu staðið að hálfu borgarinnar.

Og maður verður var við þetta víðar. Götum er lokað án þess að séu sett upp skilti eða það merkt nógsamlega. Þannig villist maður inn götur og kemur allt í einu að hliði eða vinnusvæði, án þess maður hafi nokkuð verið látinn vita af því. Verktakar komast upp með að hafa heilu göturnar eða götuhlutana lokaða ár út og ár inn í kringum byggingalóðir, þannig er til dæmis með vegarhluta í Lækjargötu, milli Skólabrúar og Vonarstrætis og einnig í Kirkjustrætinu. Hugsanlega er skýringin veikt og fáliðað stjórnkerfi sem ræður illa við hina miklu athafnasemi undanarinna ára. En stundum virkar það eins og skussaskapur eða jafnvel hroki. Eftir miklar kvartanir vegna Laugavegs 4-6 kom loks einn borgarfulltrúi á vettvang, frekar skömmustulegur, til að ræða við nágrannana.

Ég ber þetta saman við Bandaríkin þar sem ég hef dvalið talsvert upp á síðkastið. Ég bjó um tíma við götu í miðborg Boston þar sem voru miklar framkvæmdir. Þær voru tilkynntar með löngum fyrirvara. Þegar farið var í stór verk sem fylgdi hávaði eða mengun var það tilkynnt sérstaklega – miðar settir inn um póstlúgur eða festir á útidyrahurðir. Sama gilti um tafir – það var látið vita af þeim og kunngjört með rækilegum fyrirvara ef þurfti að taka af vatn eða rafmagn. Raunar sýndist mér að hvíldi meiri upplýsingaskylda á verktakanum er tíðkast hér á landi – hér yppa verktakar yfirleitt öxlum og vísa á borgina. Yfirleitt var svo lögregla aldrei langt undan til að fylgjast með því að allt gengi smurt fyrir sig og farið væri eftir settum reglum.

Við vonum svo að Hverfisgatan verði falleg og fín þegar þessu verki er lokið. Hún er að ganga í endurnýjun lífdaga, flest hefur sýnist manni tekist þar betur en í steinsteypuorgíunni niður á Hafnartorgi. Það hafa í raun verið alltof miklar framkvæmdir í miðborg Reykjavíkur á þenslutímanum undanfarin ár, líklega fer eitthvað að hægjast þar um – það er altént enginn skortur á rými fyrir veitingahús eða verslanir. Ofþenslan í veitingageiranum hefur verið slík að nú skilst mér að fjöldi staða sé til sölu – og gríðarlegt framboð sé af notuðum tækjum og tólum í veitingaeldhús.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt

Ólafur Þ. Harðarson: Kosningarnar nú minna mjög á kosningarnar 1980 – spurningin hvort kjósendur kjósa taktískt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma