Mánudagur 11.nóvember 2019
Eyjan

Ólöf segir toppana í borginni sýna skeytingarleysi: Hrina lokana fyrirtækja – „Reykjavík er margfalt fátækari fyrir vikið“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 14. ágúst 2019 09:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hrina lokana fyrirtækja í borginni hefur riðið yfir undanfarna daga. Undanfarnar örfáar vikur hafa fjögur veitingahús á Hverfisgötu hætt rekstri; Dill, Systir, Mikkeller & Friends og Essensia og í gær læsti hin rótgróna sælkeraverslun Ostabúðin á Skólavörðustíg dyrum sínum. Reykjavík er margfalt fátækari fyrir vikið.“

Svona hefst leiðari Ólafar Skaftadóttur, ritstjóra Fréttablaðsins, í dag en í honum birtist nokkuð hörð gagnrýni á meirihlutann í borginni. Ólöf gerir tíðar lokanir fyrirtækja og veitingastaða í miðborginni að umtalsefni og gagnrýnir borgina fyrir að gera ekki nóg til að létta undir með rekstraraðilum.

Ekki vinveitt atvinnurekstri

„Það verður seint sagt um borgina að hún sé vinveitt atvinnurekstri. Frekar er hún sér á báti borið saman við önnur sveitarfélög. Til að mynda með innheimtu fasteignaskatta. Tekjur borgarsjóðs af skattinum jukust um einn og hálfan milljarð frá 2018 til 2019. Borgin heldur áfram hæstu álagningu fasteignaskatts árið 2019, öfugt við mörg nágrannasveitarfélög.“

Ólöf segir að blómlegur rekstur verslana, fyrirtækja og veitingastaða í borginni sé ein forsenda þess að þar sé eftirsóknarvert að búa. En þessi skattbyrði vegi sífellt þyngra í rekstri bæði heimila og fyrirtækja. Óhjákvæmilega hafi þróunin leitt til hærra leiguverðs.

Svifasein og þung stjórnsýsla

„Vitaskuld er fasteignaskattur ekki eina ástæða þess að fyrirtæki eiga erfitt uppdráttar í Reykjavík. Að fullyrða slíkt er einföldun. Hlutverk borgarinnar hlýtur þó að snúast að minnsta kosti öðrum þræði um að búa þannig um hnútana að hér geti blómlegur rekstur þrifist,“ segir hún og bætir við að liður í því væri að lækka fasteignaskatta og hlusta eftir gagnrýni sem fyrirtækjaeigendur í borginni hafa uppi.

„Svifasein og þung stjórnsýsla er þar á meðal. Skemmst er að minnast þess þegar eigendur veitingastaðar í Vesturbænum biðu í 724 daga eftir vínveitingaleyfi. Forsendur rekstrarins voru brostnar þegar leyfið var loksins veitt og staðnum lokað.“

Skeytingarleysi stjórnenda borgarinnar

Ólöf nefnir svo dæmi um skeytingarleysi „efsta lags stjórnenda borgarinnar“ og bendir á svar Péturs Ólafssonar, aðstoðarmanns borgarstjóra, sem Fréttablaðið fjallaði um síðastliðinn föstudag. Pétur gerði lítið úr áhyggjum rekstraraðila í miðborginn, en áhyggjurnar sneru að áhrifum framkvæmda í miðborginni á rekstur fyrirtækja, til dæmis við Hverfisgötu.

„Gatan hefur verið uppgrafin og undirlögð af framkvæmdum síðan í vor. Borgin gefur lítið upp um áætluð verklok, hafði lítið samráð og skellti raunar framkvæmdum framan í kaupmenn og veitingahúsaeigendur sem fá enga ívilnun á móti. Eigendur fyrirtækja á svæðinu hafa kvartað yfir því að framkvæmdir gangi of hægt og hafi gríðarleg áhrif á aðgengi viðskiptavina að búðum og veitingahúsum á reitnum. Einn eigenda Dills lýsti uppgreftri Hverfisgötunnar sem „martröð“ í uppgjörsviðtali eftir lokun veitingastaðarins í síðustu viku,“ segir Ólöf sem vísar svo í orð Péturs.

„Aðstoðarmaður borgarstjóra gefur lítið fyrir þetta. „Það að Dill fari á hausinn hefur ekkert að gera með fram­kvæmdir á Hverfis­götu. Dill missti Michelin stjörnu, held að það hafi haft mun meira að segja en sundur­grafin gata á stað þar sem gengið er inn af Ingólfs­stræti,“ sagði aðstoðarmaðurinn á Facebook.“

Venjulegt fólk með allt sitt undir

Ólöf segir að vitaskuld þurfi að gera upp og lagfæra götur í miðborginni en það sé á ábyrgð borgarinnar að gefa nægjanlegan fyrirvara. Þannig gætu rekstraraðilar gert raunhæfar áætlanir og ráðstafanir.

„Fólk í fyrirtækjarekstri er í flestum tilfellum venjulegt fólk með allt sitt undir. Ef ummæli aðstoðarmannsins lýsa almennu viðhorfi borgaryfirvalda til atvinnurekenda er illt í efni,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Skiltin í bænum sögð ógna öryggi vegfarenda – „Þetta er hryllingur!“ – Stefnt að fjölgun

Skiltin í bænum sögð ógna öryggi vegfarenda – „Þetta er hryllingur!“ – Stefnt að fjölgun
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Seðlabankastjóri virkur í athugasemdum

Seðlabankastjóri virkur í athugasemdum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Dularfullt félag keypti jörð með veiðirétti í Laxá í Aðaldal

Dularfullt félag keypti jörð með veiðirétti í Laxá í Aðaldal
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leiðaraskrif mín í tvö dáin flokksblöð

Leiðaraskrif mín í tvö dáin flokksblöð