Fimmtudagur 23.janúar 2020
Eyjan

Stríð Sigurðar og Kjarnans heldur áfram – Ritstjórinn kærði hann á meðan stjórnarformaðurinn bað um fund

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 9. ágúst 2019 14:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi fyrri ríkisstjórna, skrifar langa grein í tímaritið Þjóðmál þar sem hann rekur deilur sínar við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, og heldur þeim áfram.

Í apríl síðastliðnum ritaði Sigurður Már grein í sama tímarit þar sem hann gagnrýndi efnistök Kjarnans sem og eignarhald miðilsins. Uppnefndi hann miðilinn „Kranann“ og sagði hann siðlausan. Í umfjöllun Eyjunnar um þau skrif segir:

„Sigurður Már Jónsson, blaðamaður og fyrrverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, gagnrýnir eignarhald, ritstjórnarstefnu og rekstur vefritsins Kjarnans harðlega í nýjasta hefti Þjóðmálasem kom út í dag.

Spyr hann til dæmis hvers vegna sé verið að halda úti þessum miðli sem skili aðeins taprekstri en litlum lestri og uppnefnir miðilinn „Kranann“.

Þá spyr hann hver sé að „halda öndunarvélinni gangandi undir því yfirskyni að Kraninn sé laus við fjárfesta, hagsmunagæslu og rugl,“ og nefnir að einn helsti eigandi Kjarnans hafi verið viðriðinn Panamaskjölin og því sé það siðlaust að Kjarninn hafi gagnrýnt aðra, til dæmis Sigmund Davíð, fyrir aðkomu sína að þeim.“

Sigurður sagði meðal annars í þessari grein:

„Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru hástemmdar í byrjun. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni: „[V]ið eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl.“ Ekki leið þó á löngu uns útgáfufélag Kjarnans hafði gefið út nýtt hlutafé og fjárfestar hófu að birtast í bakgrunninum og höfðu fljótt eignast á milli 30% og 40% í miðlinum á móti stofnendum. Í hluthafahópinn bættust meðal annarra Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður flokksins. Þar með höfðu allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni fokið út í veður og vind. Miðillinn var ekki í eigu starfsmanna, með fjárfesta og augljós hagsmunatengsl.“

Kæru til siðanefndar blaðamanna vísað tvisvar frá

Þórður Snær brást hart við þessum skrifum Sigurðar og kærði hann í tvígang til siðanefndar blaðamanna en kærum var í bæði skiptin vísað frá, í fyrra sinnið þar sem um þjóðmálaumræðu væri að ræða en ekki blaðamennsku, og seinna á þeim forsendum að um væri að ræða gagnrýni sem ritstjóri þyrfti að þola.

Í nýrri grein sinni í Þjóðmálum segir Sigurður að einstaka blaðamenn hafi orðið undrandi á fyrri grein hans:

„Ég varð var við að einstaka fjölmiðlamenn urðu undrandi á skrifum mínum. Þar hafa birst tvenn sjónarmið: annars vegar að hugsanlega væri ekki hyggilegt að kalla yfir sig reiði ritstjóra Kjarnans og hins vegar að rangt væri að gagnrýna miðilinn á þennan hátt.“

Sigurður segir að viðbrögð Þórðar við skrifum hans hafi verið svo harkaleg að furðu sæti:

„Það fór eins og mig grunaði um að viðbrögðin reyndust harkaleg, reyndar svo að furðu sætir. Óhætt er að segja að umfjöllunin hafi strokið ritstjóranum öfugt og kallað á hörð viðbrögð úr Kjarnasamfélaginu. Málaferlum hefur verið hótað á hendur miðli sem vitnaði til fréttar minnar, skrifum mínum hefur verið svarað með mjög vanstilltum hætti, ég hef átt fund með stjórnarformanni Kjarnans og þá hefur verið reynt í tvígang að kæra skrif mín til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Siðanefndin vísaði málinu frá í bæði skiptin og taldi að ummæli mín væru innan marka þess tjáningarfrelsis sem blaðamenn hefðu og ætti ekki erindi til nefndarinnar. Kærurnar voru nánast samstofna og því í raun um að ræða sama málið í bæði skiptin og sýnir það að málið var sótt fremur af kappi en forsjá.“

Hótanir eigandans

Sigurður kemur víða við í þessari grein sinni og reiðir hátt til höggsins. Meðal annars rifjar hann upp hótanir eins stærsta hluthafa Kjarnans í garð Eyjunnar:

„Vefritið Viljinn gerði grein minni nokkur skil fljótlega eftir birtingu og vakti athygli á breyttu heimilisfangi Kjarnans en félagið er nú með sömu starfsstöð og Vilhjálmur Þorsteinsson, annar stærsti hluthafi félagsins. Hafa má í huga að Vilhjálmur hefur áður sýnt augljósa þöggunartilburði gagnvart umfjöllun um sig. Til að mynda hótaði Vilhjálmur ritstjóra og útgefanda Eyjunnar málsókn og háum skaðabótakröfum eftir að fjölmiðillinn sagði fyrstur frá því að félög hans væru í skattaskjólum og tengdust Panamaskjölunum. Sama hefur hann gert síðar gagnvart öðrum fjölmiðlum sem ekki hafa verið honum þóknanlegir.“

Sigurður segir þó að hörðustu viðbrögðin við grein hans hafi komið í svargrein Þórðar í Kjarnanum en Sigurður fullyrðir að þar hafi Þórður hvergi svarað gagnrýni hans á Kjarnans efnislega né hrakið nein gagnrýnisatriði.

Sigurður segir jafnframt frá því að á meðan Þórður var að kæra hann til siðanefndar blaðamanna hafi stjórnarformaður Kjarnans falast eftir fundi með honum og hafi þeir tveir rætt saman á kaffihúsi. Sá fundur hafi verið hinn kurteislegasti en hann greini ekki frá efni hans.

Efast um heiðarleika ritstjórans

Sigurður segist efast um heiðarleika Þórðar eftir að sá síðarnefndi hafi reynt að gera störf hann tortryggilegan í hlutverki upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Taldi Þórður á sínum tíma að skrif Sigurðar samræmdust ekki stöðu hans sem upplýsingafulltrúa. Um þetta skrifar Sigurður:

„Í vetrarhefti tímaritsins Þjóðmál 2016 skrifaði ég grein sem hét: „Bankahrun og byltingastjórnarskrá.“ Í greininni rakti ég vinnu við nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs og reyndi meðal annars að setja hana í alþjóðlegt samhengi, að hluta til með vísun í þá einstaklinga sem höfðu tengst vinnunni. Greininni skilaði ég frá mér til þáverandi ritstjóra Þjóðmála, Óla Björns Kárasonar, hinn 16. nóvember 2016. Á þeim tíma var ég upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar og deildi skrifstofu með aðstoðarmönnum hans, þeim Benedikt Sigurðssyni og Ágústi Bjarna Garðarssyni. Vetrarheftið kom út í byrjun desember en þá var Sigurður Ingi enn forsætisráðherra. Efni greinarinnar byggðist á eigin hugleiðingum en það stangaðist ekki á nokkurn hátt á við stefnu ríkisstjórnar Sigurðar Inga. Reyndar var það svo að við Sigurður Ingi ræddum talsvert stöðuna í stjórnarskrármálinu, enda gerði hann tilraun til þess á lokadögum ríkisstjórnar sinnar að þoka vinnu við hana áleiðis.“

Sakar Sigurður Þórð um að hafa sett af stað „fréttaleikrit“ um sig í Kjarnanum og á Stundinni þar sem skrif hans voru gerð tortryggileg að ósekju og látið að því liggja að þau samræmdust ekki hlutverki hans sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Grein Sigurðar er nokkuð löng og drepið á fleira í deilum hans við Kjarnans. Áhugasamir geta lesið greinina í nýjasta tölublaði Þjóðmála en hún er ekki komin á vef tímaritsins. Eldri grein Sigurðar um Kjarnann má hins vegar lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Vandi Landspítalans leystur? – „Til allrar lukku hins vegar hefur ný nefnd verið skipuð“

Vandi Landspítalans leystur? – „Til allrar lukku hins vegar hefur ný nefnd verið skipuð“
Eyjan
Í gær

Dagur svarar Eflingu: Hafnar boði um opinn samningafund í Iðnó

Dagur svarar Eflingu: Hafnar boði um opinn samningafund í Iðnó
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu hvað utanlandsferðir þingmanna og forseta Alþingis hafa kostað skattgreiðendur

Sjáðu hvað utanlandsferðir þingmanna og forseta Alþingis hafa kostað skattgreiðendur
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hæstaréttarlögmaður hjólar í vinstrimenn – „Hætt er við að skynseminni sé fórnað á kostnað tilfinninganna“

Hæstaréttarlögmaður hjólar í vinstrimenn – „Hætt er við að skynseminni sé fórnað á kostnað tilfinninganna“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna brjáluð út í borgarstjóra: „Við erum á leið í verkfall – Látum ekki kúga okkur“

Sólveig Anna brjáluð út í borgarstjóra: „Við erum á leið í verkfall – Látum ekki kúga okkur“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Nefnir sjö niðurdrepandi punkta um ríkisstjórnina á „mest niðurdrepandi“ degi ársins

Nefnir sjö niðurdrepandi punkta um ríkisstjórnina á „mest niðurdrepandi“ degi ársins