fbpx
Sunnudagur 20.október 2019  |
Eyjan

Steinunn Ólína tætir Katrínu Jakobs í sig – „Vinstri grænir eru ósvífnasti popúlistaflokkur landsins“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 6. ágúst 2019 22:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona gagnrýnir Vinstri græn harðlega í pistli sínum sem birtist á Fréttablaðinu. Hún segir flokkinn vera ósvífnasta popúlistaflokk landsins um þessar stundir. 

„Þegar stjórnmálaflokkar vilja ná góðri kosningu freista þeir þess að höfða til margra. Innan samfélags leynast margir ólíkir og oft fámennir hópar sem finnast hugsjónir þeirra og heimsáhyggjur sniðgengnar og fótum troðnar af forrréttindafólki. Að reyna að ná hylli þessa fólks án þess að hafa í hyggju að efna gefin loforð er svokallaður popúlismi. Vinstri grænir eru nú um stundir ósvífnasti popúlistaflokkur landsins.“

Steinunn segir Vinstri græn iðka það að sinna áhyggjum margra mismunandi hópa. Hún segir flokkinn hamra á áherslum sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mikið fyrir.

„Enda er sá flokkur stjórnmálaafl auðvaldsstétta á Íslandi og fer ekki í launkofa með það. Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur alltaf verið grímulaus í sérhagsmunagæslu sinni.“

„Undir þessum formerkjum eru Vinstri grænir í ríkisstjórn í dag.“

Steinunn segir Vinstri græn notast við óvægnar og popúlískar aðferðir til að veiða til sín atkvæði vinstri manna.

„Vinstri grænir hafa alla tið sótt atkvæði sín til vinstri manna í samfélaginu og með aggressívum popúlískum aðferðum hafa þeir einnig gert út á að veiða til sín þá sem kalla sig friðarsinna, umhverfissinna og femínista. Undir þessum formerkjum eru Vinstri grænir í ríkisstjórn í dag.“

Steinunn gagnrýnir flokkinn fyrir að andmæla ekki fyrirhugaðri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.

„Þegar Vinstri grænir andmæla ekki fyrirhugaðri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli þá svíkja þeir á einu bretti alla sína kjósendur og sýna í verki að ekkert er þeim fjarlægara en að standa vörð um umhverfið, heimsfriðinn, mannréttindi, velferð almennings eða femínisk gildi.“

Steinunn segir Vinstri græn gera fátt annað en að skreyta sig með hugmyndavinnu og framlagi annarra þegar kemur að umhverfisvernd. 

„Vatnajökull á heimsminjaskrá er dæmi um það sem Vinstri grænir stæra sig af en var unnið alfarið og eingöngu af Vinum Vatnajökuls – hollvinasamtökum Vatnajökulsþjóðgarðs sem hafa haft þetta að markmiði sínu síðan 2009 og unnu umsóknina frá upphafi til enda. Svona vinna popúlistar, skreyta sig með stolnum fjöðrum.“

Steinunn segir Katrínu Jakobsdóttur vera að ljúga þegar hún segir að sökum smæðar 

„Þetta er lygi og við vitum það. Ef smæðin skapar tækifæri til umhverfisverndar þá er Katrín ekki að nýta þau. Um það vitnar til dæmis viðnámsleysi Vinstri grænna gagnvart rammaáætlun um eyðileggingu ósnortinna víðerna í Árnesshreppi vegna Hvalárvirkjunar.“

Hún segir Katrínu og félaga hennar kasta þykjustuhugsjónum sínum í súpu Sjálfstæðisflokksins.

„Vinstri grænir skipa umhverfisráðherra sem höfðar til samfélagsmeðvitundar þeirra sem telja sig meðvitaða, ábyrga og fordómalausa. Umhverfisráðherra er afar viðkunnalegur samkynhneigður karlmaður á besta aldri sem er heitur umhverfissinni ef dæma á framgöngu hans áður en á ráðherrastól settist. Hann tikkar í öll vinsældaboxin og Katrín Jakobsdóttir þreyttist ekki á að skreyta sig með honum við skipan hans. Nú hefur hún hinsvegar eins og allir góðir popúlistaleiðtogar hrundið honum frá sér eins og gömlum kærasta og lætur hann sitja í súpunni, súpu þeirri sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mallað alla tíð. Í þá súpu hafa Katrín og co. kastað þykjustuhugsjónum sínum fullkomlega auðsveip við súpugerðarmanninn því sæti við hans borð virðist eina hugsjón Vinstri grænna.“

„Heimurinn umgengst hann eins og frekan krakka“

Steinunn segir Vinstri græn ekki geta skýlt sér á bak við þau víðtæku áhrif sem uppbygging á Keflavíkurflugvelli mun hafa á allan heiminn.

„Það kann að vera að Donald Trump sé það sem af er hans stjórnartíð friðsælasti forseti Bandaríkjanna um langa hríð. Hann hefur ekki slátrað þjóðum enn sem komið er. Heimurinn umgengst hann eins og frekan krakka en enginn veit hvenær hótanir hans um styrjaldir verða að veruleika. Við hans hlið sitja hernaðarsjúkir menn sem eru til alls líklegir. Bandaríkin eru alræðisríki sem hundsa lög annarra landa þegar það hentar þeim. Vinstri grænir geta ekki skýlt sér á bak við að uppbygging á Keflavíkurflugvelli hafi ekki víðtæk áhrif á heiminn allan. Án þess að lýsa yfir andstöðu við bandaríska herinn nú, styðja Vinstri grænir hernað í hverri þeirri mynd sem við getum teiknað upp fyrir hugskossjónum okkar. Allt annað sem þeir hafa áður sagt um andstöðu við hernað er tilgerð ein. Gleymum heldur ekki því að Bandaríkjastjórn er á öðru máli en allt hugsandi fólk þegar loftlagsvá er annars vegar og forseti þeirra Donald Trump trúir bara ekki á hlýnun jarðar.“

Steinunn veltir því fyrir sér hvar Vinstri græn standa þegar um er að ræða mannréttindi.

„Aldrei hefur fleira land– og veglaust fólk villst um á þessari jörð. Það særða og smáða mannhaf er afsprengi styrjalda sem Bandaríkjastjórn ber mikla og í mörgum tilfellum alla ábyrgð á. Mannfjandsamleg stefna Íslands í innflytjendamálum er undir verndarvæng sitjandi ríkisstjórnar sem VG leiðir. Allt sem Vinstri grænir hafa gefið sig út fyrir hvað mannréttindamál snertir verður að salti þegar hluti fjármagns sem eyrnamerkt er þróunaraðstoð fer til hernaðaruppbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Ekki setja Vinstri grænir sig heldur upp á móti því að þróunarpeningar fari í að búa til störf fyrir afdankaðar stjórnmálakonur. Notaleg er sú tilhugsun að fá stöðu á erlendri grundu þegar maður er búinn að spila rassinn úr buxunum hér heima. Það vita Katrín og vinir hennar í Vinstri grænum.“

Hún segir Vinstri græn ekki sýna neina mótstöðu gegn Bjarna sem heldur um budduna.

„Aldrei hefur fleira fólk verið svikið um sjálfsögð mannréttindi á Íslandi sem eru í grundvallaratriðum þau að eiga í sig og á og geta fengið viðunandi félags- og heilbrigðisþjónustu ef lífið bindur svo um hnútana. Samlíðunin með þeim minnstu er engin þegar á hólminn er komið því enga mótstöðu sýna Vinstri grænir Bjarna sem heldur um budduna sem rúmar enga félagsvitund. Allt í plati, rassagati.“

„Popúlistaorðabók Vinstri grænna er svo sannarlega litrík“

„Jafnlaunavottun, konur til valda, líkamsvirðing, kynfrelsi, ofbeldispopúlismi sem miðast við kynbundið ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og heimilsiofbeldi, kynjafræðsla, sterkar stelpur, plastpokafár, ruslflokkun, hjólamenning. Popúlistaorðabók Vinstri grænna er svo sannarlega litrík.“

Steinunn segir að allt þetta eigi að sjálfsögðu rétt á sér en að núna séu önnur verkefni mikilvægari. 

„Þau verkefni snúast um um það sem er okkur mikilvægast. Sjálfstæði þjóðarinnar. Að við getum búið hér, lifað mannsæmandi lífi og skilað landinu og auðlindum þess heilum til afkomenda okkar. Að einblína á annað er aðeins leið til afvegaleiða þjóð frá því að geta staðið vörð um sitt allra heilagasta.“

Hún talar um feminísk gildi flokksins og segir þau liggja í því að Katrín sé kona og forsætisráðherra.

„Feminísk gildi Vinstri grænna liggja líka í því að hana má ekki gagnrýni af því að hún er kona. Konur má ekki gagnrýna því konur eru fórnarlömb karlaveldis sem er vont við konur. Vonda stjórnendur EF þeir eru konur má ekki gagnrýna af því að þeir eru konur. Konur eru alltaf góðar og karlar mjög oft vondir í popúlistahandbók Vinstri grænna.“

Steinunn segir fátækar, veikar og aldraðar konur á Íslandi ekki eiga sér neinn málsvara hjá Vinstri grænum. Hún segir að stjórnmálakonur flokksins vilji bara valdastóla eins og karlmenn, þá séu þær að vinna að feminískum gildum. 

Hún segir Vinstri græn hafa gert sér mat úr kynbundnu ofbeldi til að afla sér frekari vinsælda.

„Vinstri grænir nýttu byltingar eins og Metoo sér til framdráttar. Völdu að mála skærum litum áherslur sínar til að uppræta ofbeldi gegn konum. Gerðu sér sumsé beinlínis mat úr kynbundnu ofbeldi í vinsældasmölun en athugið aðeins ofbeldi gagnvart konum. Og afraksturinn er­ gjá og sár milli karla og kvenna í landinu.“

Steinunn segir það aldrei hafa verið nauðsynlegra að fólk af öllum kynjum standi saman. Að fólk vinni saman gegn stjórnvöldum sem aðeins vilji gefa íslensku þjóðinni sýndarhagvöxt til þess eins að halda völdum.

„Staða kvenna og jaðarhópa á Íslandi er ekki fullkomin en við stöndum harla vel á öllum sviðum þegar við miðum við önnur lönd nálægt okkur. Samstaða fólks er forsenda þess að við getum knúið fram breytingar og það gerist ekki meðan við getum ekki unnið saman sem heild. Þetta vita Vinstri grænir. Sárin sem kynjastríð kosta skapa sjálfhverfan glundroða sem sundrar allri samstöðu og þar sem meginmarkmið allra sem vilja lifa af í brennandi heimi hætta að heyrast.“

Hún segir konur reyna iðulega að koma í veg fyrir stríð þar sem þær verða undantekningarlaust verst úti ásamt börnunum þegar karlpeningurinn hefur verið myrtur, jörðin sviðin og landið ónýtt.

„Enginn femínisti með réttu ráði styður hernað en það gera Vinstri grænir nær möglunarlaust þrátt fyrir að hafa gert frið og andhernað að sínu meginmáli í orði. Katrín krafsar í bakkann og kallar eftir umræðu almennings um það sem er löngu frágengið í fyrri ríkistjórnum þessa lands. Hvernig getur hún kallað sig femínista og gengið inn í slíkt stjórnarsamstarf? Stjórnarsamstarf sem virðir umhverfis-, mannúðar-, velferðar-, friðar- og réttindi barna og mæðra að vettugi?

Katrín getur það af því að hún er popúlisti og einn sá versti sem landið hefur alið.“

„Um æruna er þeim augljóslega sama“

Steinunn segir Miðflokkinn vera heiðarleg í óheiðarleika sínum þegar kemur að ásökunum um popúlisma. Hún segir þá nota grútmygluð meðul til að afla vinsælda en þeir skammist sín ekkert fyrir það og viðurkenna það möglunarlaust.

Hún segir Vinstri græn hins vegar ekki gangast við svikum sínum líkt og Miðflokkurinn gerir.

„Katrín og flokkssystkini hennar geta ekki verið heiðarleg við almenning í landinu. Þau geta ekki viðurkennt valdaleysi sitt í stjórnarsamstarfinu og þægðina sem þau auðmjúk sýna Sjálfstæðisflokkinum og NATÓ fyrir sýndarvöld sem er það eina sem þeim er annt um. Að eiga stól og bera titil.“

Steinunn botnar pistilinn með því að segja orð Vinstri grænna vera ómerk í ljósi þess að þau snérust einungis um það að safna atkvæðum.

„Um æruna er þeim augljóslega sama því allt snérist þetta um að koma hernaðarbröltandi þykjustufemínista á stól forsetisráðherra Íslands svo hún geti gert sig breiða á alþjóðavettvangi og fengið verðlaun og viðurkenningar fyrir óunnin störf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Fleiri vilja léttvín og bjór í matvörubúðir – Píratar ákafastir en kjósendur Miðflokksins mest á móti

Fleiri vilja léttvín og bjór í matvörubúðir – Píratar ákafastir en kjósendur Miðflokksins mest á móti
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hermann gagnrýnir Davíð harðlega og sakar hann um svik við Sjálfstæðisflokkinn – Morgunblaðið líti í eigin barm

Hermann gagnrýnir Davíð harðlega og sakar hann um svik við Sjálfstæðisflokkinn – Morgunblaðið líti í eigin barm
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vill að Reykjavíkurborg reki nytjamarkað – „Að það skuli finnast fátækt í svo gjöfulli borg er slakri stjórnun að kenna“

Vill að Reykjavíkurborg reki nytjamarkað – „Að það skuli finnast fátækt í svo gjöfulli borg er slakri stjórnun að kenna“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu hvernig Miklabraut í stokk og Borgarlínan gæti litið út – Borgarstjóri deilir myndbandi

Sjáðu hvernig Miklabraut í stokk og Borgarlínan gæti litið út – Borgarstjóri deilir myndbandi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Femínistar fordæma grein Áslaugar um þolendur kynferðisbrota – „Afar sérstakt“ segir dómsmálaráðherra

Femínistar fordæma grein Áslaugar um þolendur kynferðisbrota – „Afar sérstakt“ segir dómsmálaráðherra
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðmundur í Brimi eignast meirihlutann í Brimi

Guðmundur í Brimi eignast meirihlutann í Brimi