fbpx
Miðvikudagur 18.september 2019  |
Eyjan

Kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu: „Sorglegt að almenningur fái ekki réttláta úrlausn sinna mála fyrir íslenskum dómstólum“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 7. janúar 2019 14:40

Forseti á fundi með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna, Vilhjálmi Bjarnasyni formanni og Sigurði Sigurbjörnssyni varaformanni árið 2016. Mynd-forseti.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hagsmunasamtök heimilanna leita nú réttlætisins á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu. Kæra hefur verið verið send til dómstólsins vegna úrlausnar mála er varða gengistryggð lán af hálfu íslenskra stjórnvalda og dómstóla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Með því að víkja sérstökum lögum um neytendalán til hliðar í trássi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES samningnum og leggja margfalt hærri vexti en um var samið á lán sem voru með ólöglegri gengistryggingu, hafa íslenskir neytendur verið sviptir mikilvægum grundvallarréttindum sínum. Kæran byggist á því að með þeim hætti hafi verið brotið gegn þeirri friðhelgi sem eignarréttur skal njóta samkvæmt 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 72 gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem ekki hafi verið gætt jafnræðis við úrlausn slíkra mála.“

Þá segir einnig að áður en hægt sé að skjóta máli til Mannréttindadómstóls Evrópu þurfi að vera búið að láta reyna á öll möguleg úrræði innan lands:

„Margoft hefur verið látið reyna á sérstök réttindi neytenda í málum sem þessum fyrir íslenskum dómstólum, en að mati samtakanna var það fullreynt með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 636/2017. Þar sem það hafði verið metið sem ákjósanlegt fordæmismál var ákveðið að skjóta málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og var kæran send skömmu fyrir jól. Með því að koma slíku máli fyrir erlendan fjölþjóðlegan dómstól, hafa samtökin náð mikilvægum áfanga í baráttu sinni fyrir réttindum íslenskra neytenda á fjármálamarkaði.

Fyrsta skrefið í málsmeðferð dómstólsins er að kanna hvort málið uppfylli nauðsynleg skilyrði til að hljóta efnislega úrlausn. Erfitt er að segja til um hvenær ákvörðun um það muni liggja fyrir, en vonast er til að það skýrist nánar snemma á nýju ári 2019. Nánari upplýsingar munu Hagsmunasamtök heimilanna veita á heimasíðu samtakanna www.heimilin.is eftir því sem framvinda málsins gefur tilefni til.“

Hagsmunasamtökin benda á að sá fjöldi mála frá Íslandi sem liggi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, hljóti að vera ótvírætt merki þess að eitthvað stórkostlegt sé að í íslensku réttarkerfi:

„Það er í besta falli sorglegt að almenningur fái ekki réttláta úrlausn sinna mála fyrir íslenskum dómstólum og sjái sér ekki annað fært en að leita til Evrópu eftir réttlæti. Staðreyndin er sú að þegar réttarstaða almennings höfð að engu frammi fyrir dómstólum eru lög- og stjórnarskrárvarin mannréttindi ekki lengur virt og þá er „réttarríkið“ í raun liðið undir lok.

Þessi staða er ekki aðeins sorgleg, heldur skelfilegur raunveruleiki allt of margra sem hafa látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum en eiga sér ekki viðreisnar von gegn ofurvaldi banka og fjármálafyrirtækja sem alltaf hafa töglin og hagldirnar í formi fjármagns og tengsla.

Allar líkur eru á því að fjöldi þeirra sem leitar réttlætis frammi fyrir Mannréttindadómstólnum sé einungis toppurinn á ísjakanum, því sú leið er erfið og ekki öllum fær. Það þarf að skoða stöðuna eins og hún er og snúa þessari þróun við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Björn Leví: „Reynt er að fara fögrum orðum um sama gamla draslið“

Björn Leví: „Reynt er að fara fögrum orðum um sama gamla draslið“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Haraldur hittir Áslaugu

Haraldur hittir Áslaugu