fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

„Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er staðinn að ósannindum, rangfærslum og útúrsnúningum má skrifa viðbrögðin eftir litlu forriti“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. desember 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, er einn fjölmargra sem gagnrýnir viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formann Miðflokksins, í Klaustursmálinu.

Viðbrögð Sigmundar hafa verið milli tannanna á fólki, alveg síðan fyrstu fréttir bárust af því. Fyrst birti Sigmundur færslu á Facebook, þar sem hann sagði ýmislegt ranghermt, og fréttir af samtölum „látnar hljóma“ eins og pólitískt plott og gerði hann lítið úr ummælunum. Þá sagði hann að ekki væri um annað að ræða en að brotist hefði verið inn í síma sexmenninganna og þeir hleraðir. Sú var auðvitað ekki raunin.

Síðar skrifaði Sigmundur um Kastljósviðtalið sem Lilja Alfreðsdóttir fór í hvar hún kallaði sexmenninganna ofbeldismenn sem hefðu ekkert dagskrárvald. Þar byrjaði hann á að mæra Lilju og vék að eigin klaufaskap í samskiptum og viðurkenndi að hann væri aðeins mannlegur. Við lesturinn héldu eflaust einhverjir að einlæg afsökunarbeiðni væri á leiðinni, en þá vék Sigmundur að því að hann hefði aldrei verið særður eins mikið og þegar Lilja kallaði hann ofbeldismann. Þá sagði hann Lilju segja ósatt um að hann hefði ekki haft samband við hana eftir Klaustursmálið. Einnig útskýrði hann að Klaustursamtalið um Lilju hefði verið klippt úr samhengi, ekki hefði komið fram þegar hann hefði talað vel um Lilju í leyniupptökunum.

Að lokum birti Sigmundur grein um nýliðna helgi, þar sem Klaustursmálinu er snúið yfir á vinstri flokkana, Samfylkingu og Vinstri græna og spurt hvort viðbrögðin í samfélaginu hefðu verið þau sömu ef um sex þingmenn frá þeim flokkum hefði verið að ræða.

Karl Th. Birgisson þykist hafa fundið eins konar mynstur í hegðun Sigmundar þegar í harðbakkann slær gagnvart sannleikanum. Hann segir viðbrögðin svo keimlík hverju sinni, að um forrit gæti verið að ræða:

„Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er staðinn að ósannindum, rangfærslum og útúrsnúningum má skrifa viðbrögðin eftir litlu forriti.“

Karl tekur síðan að sér að skilgreina hvernig slíkt forrit gæti virkað, eða öllu heldur hvernig hann telur Sigmund komast að niðurstöðu í ákvörðunartöku:

– Nei, þetta er ekki rétt. [Spinna svo upp á staðnum fyrstu lygarnar sem honum koma í hug. Hæ, Wintris.]

– Jafnvel þótt þetta væri með einhverju lagi hugsanlega rétt, þá er þetta fram komið að undirlagi óvina minna. Þeir eru víða, sérstaklega á fjölmiðlum. Ekki síður alþjóðlegum fjölmiðlum. En með því er ég alls ekki að segja að þetta sé rétt. Í flestum meginatriðum.

– Nú þegar í ljós hefur komið að óvinum mínum hefur tekizt að setja mig í óþægilegt ljós, vegna ummæla sem sett voru fram í flýti, ógáti eða jafnvel vegna ólöglegrar upptöku, þá hlýt ég að benda á að fjölmargir aðrir hafa sagt ótalmargt verra. Mér líður samt mjög illa og biðst afsökunar ef einhverjum öðrum líður illa líka.

– Nú þegar í ljós hefur komið að við flokksbræður höfum talað fjálglega um að r**a Lilju Alfreðsdóttur, gert grín að Freyju Haraldsdóttur með sela-, stóla- eða reiðhjólahljóðum og ráðgert hvernig loka megi sendiherradíl fyrir Gunnar Braga, þá skammast ég mín auðvitað. En fólk hefur líka gert mjög ljótt grín að mér. Hvernig upplifun haldiði að það sé? Vitið þið hvað það er sárt?

– Nú þegar fyrrverandi samstarfskona mín og núverandi vinur minn hefur kallað mig ofbeldismann og ekki í húsum hæfan innan um eðlilegt fólk, þá er ég eiginlega niðurbrotinn maður. Ég veit ekki um neinn sem hefur þurft að þola slíka meðferð.

– Ég er viss um, blátt áfram alveg handviss um, að ef einhver annar en ég hefði hagað sér svona, þá hefði enginn sagt neitt. Eða í mesta lagi umlað eitthvað. Þannig eru nú íslenzkir fjölmiðlar. Og náttúrlega alþjóðlegir líka. Við þekkjum það. Mjög víða.

– Í ljósi þess sem að ofan er rakið íhuga ég nú alvarlega að leita réttar míns vegna miska sem ég hef orðið fyrir vegna ólöglegs athæfis. Það getur hver og einn sett sig í mín spor. Enginn vill verða fyrir svo tilefnislausri og fordæmalausri árás á einkalíf sitt. Er ekki nóg komið? Við höfum öll þurft að þola alltof mikið. Hvers konar samfélag viljum við eiginlega vera?

– [Í næsta viðtali:] Hvers lags spurning er nú þetta? Þetta er fyrir löngu útrætt mál. Ég hef gert grein fyrir öllu því sem snertir þetta mál, rakið það í smáatriðum, beðizt afsökunar á tímabundnu dómgreindarleysi, en líka bent á að við, sem fjölmiðlar vilja af einhverjum ástæðum alltaf hafa til umfjöllunar, höfum sætt miklum mun verri meðferð en allir hinir, sem hafa gert hið sama. Hvers vegna er það ekki umfjöllunarefni? Hvað gengur fjölmiðlum til? Er það ekki rannsóknarefni?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega