fbpx
Sunnudagur 22.september 2019  |
Eyjan

En ef Íslendingar þurfa að gerast flóttamenn?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 6. desember 2018 13:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég fjallaði aðeins um það í pistli í fyrradag hvernig Jón Þór Þorvaldsson, varaþingmaður Miðflokksins, hefði talað um nýjan flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna – beint upp úr skrifum  Valdimars Jóhannessonar.

Að ýmsu er að hyggja í þessum málum. En það er ljóst að samúð okkar sem búum hinum ríka hluta veraldarinnar er afar valkvæð. Við lifum til dæmis í þeirri trú að vondir hlutir komi fyrir annað fólk, fólk sem býr á allt öðrum stöðum í heiminum og er líklega öðruvísi á litinn – en við sjálf séum óhult.

Ég var að lesa skáldsöguna Lifandi lífslækur eftir Bergsvein Birgisson. Feikigott skáldverk. Þar er meðal annars fjallað um hugmyndir um að flytja Íslendinga burt af landinu á tíma móðuharðindanna.

Landið var á þeim tíma nánast óbyggilegt. Fólkið veslaðist upp og svalt, skepnur féllu, gróður visnaði, það var reykjarmökkur yfir landinu – móða eins og það var kallað.

Nú er rætt um að stórar eldstöðvar á Íslandi gætu farið að gjósa – þær eru komnar á tíma. Sumum myndu fylgja ógurlegar hamfarir. Samgöngur gætu lamast, raforkuver gætu verið í hættu, vatnsból gætu spillst,  landbúnaður gæti lagst af á stórum svæðum, jafnvel í einhver ár. Nútímalífshættir okkar, með allri sinni tækni, eru mjög viðkvæmir gagnvart hamförum eins og miklu öskufalli.

Við skulum ekki tala af léttúð um flóttafólk. Fæst velur það hlutskipti sitt. Og það er heldur enginn glæpur að fara af stað til að leita að betra lífi. Við Íslendingar búum í landi þar sem náttúran getur leikið okkur grátt. Það hefur gerst í sögu Íslandsbyggðar – og á örugglega eftir að gerast aftur.

Nú er farið að tala um loftslagsflóttamenn – og það er vandi sem á eftir að aukast á næstu áratugum. Kannski stefnum við í heim þar sem þeir sem eru óhultir fyrir loftslagsvánni og þeir sem hafa efni á að leysa vandamálin, fari að verja stöðu sína með öllum tiltækum ráðum? Þá breytast hlutar af hinum ríka heimi í nokkurs konar virki. Við erum reyndar sumpart komin á þann stað. Fortress Europe eða Festung Europa er það kallað.

Hugsanlega gætum við Íslendingar sloppið skár út úr loftslagbreytingum en margar aðrar þjóðir. En þetta er auðvitað hnattrænt vandamál sem hefur áhrif um alla veröld, bæði á lífsskilyrð og efnahag. En náttúruváin vofir alltaf yfir okkur. Að því leyti er Ísland hættulegra en hin Norðurlöndin. Við getum alls ekki útilokað að hér verði náttúruhamfarir sem leiða til þess að einhver hluti þjóðarinnar þarf eða vill flýja land.

Við gætum staðið frammi fyrir atburðum sem verða þess valdandi að eigur okkar verða verðlausar og lífsskylirðin óbærileg fyrir nútímafólk. Það þarf ekki einu sinni mikið hugmyndaflug til að ímynda sér hvernig það gæti orðið. Myndum við þrauka lengi nútímafólk í ólofti eins og var hér á tíma móðuharðindanna?

Og hver myndi þá taka við okkur – flóttafólki af Íslandi?

(Myndin hér að ofan nefnist Skaftáreldar og er eftir Ásgrím Jónsson.)

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Logi skilinn

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Lífskjör eldri borgara á Íslandi þau bestu í heimi

Lífskjör eldri borgara á Íslandi þau bestu í heimi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu hvað fjármagnseigendur „græða“ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu -„Ofboðslega óréttlátt – ríkisstjórn ríka fólksins“

Sjáðu hvað fjármagnseigendur „græða“ samkvæmt fjárlagafrumvarpinu -„Ofboðslega óréttlátt – ríkisstjórn ríka fólksins“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Steinar greinir siðblindu

Jón Steinar greinir siðblindu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Framsókn leggur til leyfisskyldu á jarðakaupum – Forsenda fyrir eignarhaldi verði skilgreind tengsl við Ísland

Framsókn leggur til leyfisskyldu á jarðakaupum – Forsenda fyrir eignarhaldi verði skilgreind tengsl við Ísland
Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Hvaða gagn gerir siðanefnd Alþingis ef þingmenn taka ekki nokkurt mark á henni?“

„Hvaða gagn gerir siðanefnd Alþingis ef þingmenn taka ekki nokkurt mark á henni?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Peningaþvætti í spilakössum á Íslandi að stórum hluta á ábyrgð ríkisins – Yfirvöld grípa í taumana

Peningaþvætti í spilakössum á Íslandi að stórum hluta á ábyrgð ríkisins – Yfirvöld grípa í taumana
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu línuritið um Ísland sem rataði ekki í kynningargögnin um OECD skýrsluna: „Hreint djöfullegt – Hvílík skömm!“

Sjáðu línuritið um Ísland sem rataði ekki í kynningargögnin um OECD skýrsluna: „Hreint djöfullegt – Hvílík skömm!“