Sigurjón Þórðarson, fyrrum alþingismaður, segir í pistli á Eyjublogginu að innheimta í Hvalfjarðargöngin sé ólögmæt, þar sem samningar hafi runnið út í júlí. Þá segir hann bókhald Spalar í „ólagi“:
„Í fyrsta lagi þá hafa veggjöld þegar greitt vel ríflega upp stofnkostnað við gerð ganganna og því hefði samkvæmt upphaflegum áætlunum, átt að vera hætt gjaldtöku fyrir löngu í Hvalfjarðargöngum. Í öðru lagi þá virðist vera eitthvert ólag á bókhaldi Spalar ehf., en í svari við fyrirspurn Bjarna Jónssonar á Alþingi, kom fram að fyrirtækið gæti með engu móti greint kostnað við innheimtu veggjalda frá öðrum rekstrarkostnaði ganganna! Í þriðja lagi, þá rann samningur Spalar við ríkið út í júlí sl. og er því forsenda fyrir áframhaldandi gjaldtöku algerlega brostin og gjaldtakan vafalítið ólögmæt.“
Í svari þáverandi samgönguráðherra, Jóns Gunnarssonar, við fyrirspurn Bjarna árið 2016, segir:
„Ekki liggur fyrir nákvæm sundurgreining á innheimtukostnaði, enda skiptast ýmsir kostnaðarliðir á fleiri rekstrarþætti. Líta verður á rekstur ganganna, kostnað vegna verktaka og skrifstofu- og stjórnunarkostnað saman þar sem ýmsir kostnaðarliðir tengjast og eru óskiptir í bókhaldi.“
Sigurjón segir núverandi samgönguráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, horfa framhjá vafasamri gjaldtöku:
„Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að ráðherra samgöngumála horfi fram hjá vafasamri gjaldtöku á almenningi, vegna þröngra sérhagsmuna aðila sem tengjast fjáruppsprettunni Speli ehf. Árlegar tekjur félagsins nema um einum og hálfum milljarði króna. Líkt og í kvótakerfinu í sjávarútvegi hafa sjónarmið almennings og byggða, verið látin víkja í málinu fyrir annarlegum sérhagsmunum.
Málið er afar slæmt fyrir þá sem aðhyllast aukna gjaldtöku í samgöngukerfinu. Þokukennt bókhald Spalar ehf og ógagnsæi, er ekki beinlínis trausvekjandi. Ekki bætir úr skák þegar gjaldtöku er haldið áfram þrátt fyrir að samningar og forsendur þeirra segja að henni skuli hætt.“
Spölur hf. er eigandi Hvalfjarðarganganna, en hefur enn ekki gefið út hvenær hætt verði að rukka í göngin. Í júni var greint frá því að hætt yrði að rukka í göngin í september og þá myndi dagsetningin liggja fyrir í ágúst.
Spölur hyggst afhenda ríkinu göngin í þessum mánuði, en ekki er vitað um endanlega útfærslu.
„Það verður hætt að rukka síðla í september, nema eitthvað sérstakt komi upp á sem við erum í sjálfu sér ekki að reikna með. Í rauninni höfum við bara heimild til að innheimta veggjald fyrir ákveðnum kostnaði samkvæmt samningi frá árinu 1995. Að því gefnu að það sé enginn ófyrirséður annar kostnaður þá sýnist okkur að þetta standi áfram, það er að hætta gjaldtöku síðla í september. Það snýr að okkur að negla niður daginn og það styttist í að það verði hægt að negla niður akkúrat klukkan hvað gjaldtökunni verður hætt“
sagði Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar, við Vísi.