Í júlí 2018 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 50,5 milljarða króna og inn fyrir 63,5 milljarða króna fob (67,8 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í júlí, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 13 milljarða króna. Í júlí 2017 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 20,7 milljarða króna á gengi hvors árs.¹ Vöruviðskiptahallinn í júlí 2018 var því 7,7 milljörðum króna minni en á sama tíma árið áður. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn í mánuðinum 15,1 milljarði króna samanborið við 20,1 milljarð króna halla í júlí 2017.
Á tímabilinu janúar til júlí 2018 voru fluttar út vörur fyrir 337,5 milljarða króna en inn fyrir 433,9 milljarða (463,0 milljarða króna cif). Halli á vöruviðskiptum við útlönd nam því 96,4 milljörðum króna reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 105,8 milljarða á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn á tímabilinu janúar til júlí er því 9,3 milljörðum króna minni en á sama tíma fyrir ári. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 81,8 milljörðum króna, samanborið við 94,1 milljarð króna á sama tíma árið áður.
Útflutningur
Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruútflutnings 51,3 milljörðum króna hærra en á sama tímabili árið áður, eða 17,9% á gengi hvors árs.¹ Iðnaðarvörur voru 53,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 15,2% hærra en á sama tíma árið áður. Hækkunina á milli ára má fyrst og fremst rekja til útflutnings á áli. Sjávarafurðir voru 39,5% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 26,4% hærra en á sama tíma árið áður. Aukning var í nær öllum undirliðum sjávarafurða en aukninguna á milli ára má meðal annars rekja til sjómannaverkfalls í byrjun árs 2017.
Innflutningur
Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2018 var verðmæti vöruinnflutnings 42 milljörðum króna hærra en á sama tímabili árið áður, eða 10,7% á gengi hvors árs.¹ Mestu munaði um innflutning á eldsneyti og fjárfestingu í flugvélum.
Verðmæti útflutnings og innflutnings í janúar til júlí 2017 og 2018 | |||||
Millj. kr. á gengi hvors árs | Breytingar frá fyrra | ||||
Júlí | Janúar-Júlí | ári á gengi hvors árs, % | |||
2017 | 2018 | 2017 | 2018 | jan-júl | |
Útflutningur alls fob | 39.236,6 | 50.471,1 | 286.113,6 | 337.463,4 | 17,95 |
Sjávarafurðir | 12.735,2 | 18.090,4 | 105.540,9 | 133.382,9 | 26,38 |
Landbúnaðarvörur | 713,0 | 935,0 | 11.108,2 | 11.227,8 | 1,08 |
Iðnaðarvörur | 21.920,6 | 26.656,3 | 156.829,7 | 180.612,6 | 15,16 |
Aðrar vörur | 3.867,7 | 4.789,3 | 12.634,7 | 12.240,1 | – 3,12 |
Innflutningur alls fob | 59.997,6 | 63.515,0 | 391.853,2 | 433.870,4 | 10,72 |
Matvörur og drykkjarvörur | 5.577,1 | 5.568,7 | 32.456,8 | 34.853,9 | 7,39 |
Hrávörur og rekstrarvörur, ót.a. | 13.569,8 | 14.593,5 | 103.755,3 | 115.712,1 | 11,52 |
Eldsneyti og smurolíur | 8.070,8 | 11.570,6 | 40.749,3 | 60.302,1 | 47,98 |
Fjárfest.vörur (þó ekki flutn.tæki) | 11.805,6 | 12.423,4 | 84.052,0 | 91.882,4 | 9,32 |
Flutningatæki | 13.192,5 | 10.014,8 | 81.197,2 | 75.406,2 | – 7,13 |
Neysluvörur ót.a. | 7.771,9 | 8.056,3 | 49.481,1 | 52.850,9 | 6,81 |
Vörur ót.a (t.d. endursendar vörur) | 9,9 | 1.287,7 | 161,5 | 2.862,7 | 1.672,26 |
Vöruviðskiptajöfnuður | -20.761,0 | -13.044,0 | -105.739,6 | -96.407,0 | – 0,09 |
1) Hagstofa Íslands birtir ekki lengur tölur um vöruviðskipti á föstu gengi. Á vef Hagstofu Íslands er að finna töflu um hlutfall einstakra gjaldmiðla í vöruviðskiptum.
Mánaðarlegar tölur um vöruviðskipti líðandi árs eru endurskoðaðar allt árið og því geta tölur fyrri mánaða árs breyst með útgáfu nýrra mánaðartalna. Endanlegar tölur fyrir hvert ár eru gefnar út á vormánuðum næsta ár á eftir.
Samkvæmt bráðabirgðatölum var vöru- og þjónustujöfnuður á öðrum ársfjórðungi 2018, eins og hann birtist í þjóðhagsreikningum og greiðslujöfnuði, jákvæður um 5,2 milljarða króna en hann var jákvæður um 14,7 milljarða á sama tíma árið 2017, á gengi hvors árs. Umreiknaður vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 49,8 milljarða króna en þjónustujöfnuður var hagstæður um tæpa 55 milljarða.
Heildarútflutningstekjur á öðrum ársfjórðungi 2018 vegna vöru- og þjónustuviðskipta námu 328,3 milljörðum króna en heildarinnflutningur á vörum og þjónustu nam 323,1 milljörðum króna.
Þessar upplýsingar koma fram í brúartöflu á vef Hagstofunnar sem samræmir staðla vöruviðskipta og greiðslujafnaðar.