Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, fór fram á í bókun á fundi borgarráðs í morgun, að Stefán Eiríksson, borgarritari og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, bæðu hana afsökunar vegna aðdróttana þeirra í kjölfar „eineltismálsins“ svokallaða sem mikið hefur verið fjallað um:
„Fulltrúi Miðflokksins í borgarstjórn, Vigdís Hauksdóttir, fer fram á að borgarritari og skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstóra og borgarritara biðji hana opinberlega afsökunar á aðdróttunum og röngum alvarlegum ásökunum sem birtust í fjölmiðlum í kjölfars héraðsdóms sem féll í máli fjármálastjóra ráðhússins gegn skrifstofustjóranum.“
Þá lét Vigdís einnig bóka að hún krefðist þess að farið yrði í kerfisbundin niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og annarri stjórnsýslu á vegum borgarinnar og að tafarlaust ráðningarstopp verði tekið upp, en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum hlíft:
„Enn á ný hefur meirihlutinn í borgarstjórn ekki kjark til að ræða tillögur fulltrúa Miðflokksins um niðurskurð og hagræðingu hjá Reykjavíkurborg. Þeim er nú frestað í þriðja sinn þrátt fyrir gefin loforð um annað á síðasta fundi borgarráðs hinn 23. ágúst s.l. en þær hljóða svo:
1. Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu.
2. Farið verði tafarlaust í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar.
3. Tekið verði tafarlaust upp ráðningarstopp í stjórnsýslu Reykjavíkur en lögbundinni þjónustu og grunnstoðum verði hlíft.
4. Dregið verði úr utanferðum kjörinna fulltrúa og embættismanna borgarinnar og skilagreingerð fyrir hvers vegna ferð var farin.
5. Farið verði í bestun í öllum innkaupum borgarinnar og að a.m.k. 10% hagræðingu verði náð.
6. Allar þessar aðgerðir komi til með að liggja til grundvallar fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2019.“