Kínverski rafbílaframleiðandinn Yutong Eurobus, sem Reykjavíkurborg samdi við um kaup á 14 rafstrætisvögnum, hefur þurft að greiða Reykjavíkurborg um 20 milljónir í dagsektir síðan í fyrra, þegar fyrsta afhending átti að fara fram, en stóðst ekki. Alls níu vagnar hafa þegar verið afhentir en Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir við Morgunblaðið í dag að hann búist við fimm vögnum um mánaðarmótin október-nóvember. Hann segir ekki liggja fyrir í hvaða upphæð dagsektirnar endi:
„Ég er bjartsýnn á að Kínverjarnir geti staðið við þann afhendingartíma. Það munu væntanlega fara fram viðræður áður en síðustu vagnarnir verða afhentir, um það hversu háar dagsektirnar verða að lokum. Það er ekki komið í ljós ennþá hversu há endanleg upphæð verður.“
Þá sagði hann einnig að ef ekki næðist samkomulag um upphæðir, væri eina úrræðið að skjóta málinu til dómsstóla.