Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem hann óttast að á Íslandi sé að verða til tvöfalt heilbrigðiskerfi:
„Tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem hinir efnameiri geta keypt betri og skjótari þjónustu hefur verið eitur í beinum okkar. Ég hef í ræðu og riti haldið því fram að yfirgnæfandi meirihluti okkar Íslendinga líti svo á að í gildi sé sáttmáli – sáttmáli þjóðar sem ekki megi brjóta: Við höfum sammælst um að fjármagna sameiginlega öflugt heilbrigðiskerfi þar sem allir geta notið nauðsynlegrar þjónustu og aðstoðar án tillits til efnahags eða búsetu. Ég óttast að það sé að molna hratt undan sáttmálanum. Hægt en örugglega er tvöfalt heilbrigðiskerfi að verða til á Íslandi.“
Óli nefnir síðan dæmi um biðlista hjá Landspítalanum og að heilbrigðisyfirvöld hafi komið í veg fyrir að Sjúkratryggingar Íslands gerðu samning við Klíníkina, með þeim afleiðingum að sjúklingar þurfi sjálfir að greiða fyrir þjónustuna. Þeir sem ekki hafi efni á því þurfi að bíða svo mánuðum skipti eftir bót meina sinna. Því sé það öfugsnúið að meðan biðlistar séu í liðskiptiaðgerðir hér á landi, neiti yfirvöld sjúklingum um að nýta þjónustu einkaaðila og sendi þá þess í stað úr landi, fyrir mun hærri kostnað.
Að lokum segir Óli Björn:
„Hugsjónin sem liggur að baki íslenska heilbrigðiskerfinu um aðgengi allra að góðri og nauðsynlegri þjónustu verður merkingarlaus þegar almenningur situr fastur á biðlistum ríkisins og horfir á þá efnameiri kaupa þjónustu einkaaðila. Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar allrar heilbrigðisþjónustu er tvöfalt kerfi. Gegn því mun ég berjast.“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að Óli Björn geti litið sér nær, þar sem búið sé að vara við þessari þróun í mörg ár og Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi farið með heilbrigðisráðuneytið. Hann gefur einnig í skyn að hið tvöfalda kerfi, þar sem hinir efnameiri geti keypt sér betri og skjótari þjónustu, sé samkvæmt skipulagi:
„Er Óli Björn Kárason eitthvað að grínast?
Það er búið að vara við þessu í mörg ár á meðan sjallar hafa nokkurn vegin alltaf verið í stjórn.
„Hægt en örugglega er tvöfalt heilbrigðiskerfi að verða til á Íslandi“ … „Tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem hinir efnameiri geta keypt betri og skjótari þjónustu …“
Örugglega … eins og það sé skipulagt. Ertu fyrst að fatta það núna Óli?“