Mynd dagsins er að öllum líkindum tekin í Skarðshlíð, nýju hverfi sem mun liggja utan við Vellina í Hafnarfirði. Á myndinni má sjá steyptar tröppur með aðgengi fyrir fatlaða og barnavagna, ef aðgengi skyldi kalla, því tröppurnar eru býsna brattar, svo ekki sé meira sagt.
Ekki skal þó hrapað að ályktunum, því mögulega er um að ræða þrautabraut fyrir afreksmenn í hjólastólum og/eða barnavagnafitness.
Alltént er ljóst að þeir sem eiga leið hjá í hjólastól þurfi að vera býsna handsterkir, eða rafmagnshjólastóll þeirra með öflugu fjórhjóladrifi, því leiðin verður seint sögð greiðfær.
Þá er ekki er víst að mæður, feður eða barnapíur/barnagæjar taki áhættuna á að fara upp eða niður tröppurnar með barnavagn, enda gæti illa farið skriki þeim fótur, eða missi gripið.
Má segja að um sannkallað verkfræðiundur sé að ræða.