Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sat 23. ráðstefnu sjávarútvegsáðherra Norður-Atlantshafsins í Þórshöfn í Færeyjum 27.-28. ágúst. Þau ríki sem funda eru Ísland, Færeyjar, Kanada, Noregur, Rússland, Grænland og Evrópusambandið fyrir hönd aðildarríkja þess. Hafa þessar ráðstefnur í gegnum árin nýst vel sem umræðuvettvangur fyrir ráðherrana um fiskveiði og fiskveiðistjórnun. Þema ráðstefnunar að þessu sinni var „Sjálfbær stjórnun auðlinda hafsins.“
Í ræðu sinni á fundinum lagði Kristján Þór sérstaka áherslu á sjálfbæra nýtingu og vernd hafsvæða og mikilvægi þess að þjóðir við Norður-Atlantshaf komi sér saman um hvernig megi nýta deilistofna með sjálfbærum hætti. Þá lagði hann jafnframt áherslu á mikilvægi hafrannsókna og að efling þeirra væri í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands.
Kristján Þór átti á þriðjudag tvíhliða fund með m.a. Karmenu Vella, framkvæmdastjóra umhverfis- og sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu. Á fundinum var m.a. rætt um hvernig þjóðir heimsins geti komið sér saman um sjálfbæra nýtingu hafsvæða og hvernig koma megi á samningum um nýtingu deilistofna í Norður-Atlantshafi. Jafnframt var rætt um samning um nýtingu fiskistofna í Norður-Íshafi sem verður staðfestur af ráðherrum ríkjanna í Ilullisat í Grænlandi í byrjun október. Loks var rætt um tvíhliða fiskveiðisamning Íslands og ESB og framtíð hans.
Undir lok ráðstefnunnar var tilkynnt að næsta ráðstefna sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins muni fara fram á Íslandi á næsta ári.