Skipunartími rannsóknarnefndar samgönguslysa rann út þann 31. maí síðastliðinn. Hefur nefndin því ekki verið starfandi síðan, þar sem ný nefnd hefur ekki verið skipuð. Morgunblaðið greinir frá og segist hafa heimildir fyrir því að til hafi staðið að sá hluti nefndarinnar sem annast rannsóknir sjóslysa hafi ætlað að funda síðastliðinn föstudag, líkt og kveður á í starfsáætlun, enda mörg mál á dagsskrá. Hinsvegar hafi ekki verið hægt að funda þar sem umboð nefndarinnar var runnið út.
Nefndin heyrir undir Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sem skipar nefndina, en hún starfar samkvæmt lögum um rannsókn samgönguslysa frá 2013, þar sem rannsóknarnefndir flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa voru sameinaðar.
Ekki er þó ástæða til að örvænta, því samkvæmt upplýsingum frá Samgönguráðuneytinu er unnið að því að ganga frá skipunarbréfum og ný nefnd verði því skipuð á allra næstu dögum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, skýtur létt á Sigurð Inga vegna þessa stjórnsýsluklúðurs í frétt sem hefur yfirskriftina „Sigurður Ingi svaf yfir sig“:
„Það fer svo sem ekki mikið fyrir formanni Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, nema rétt á meðan hann boðar vegaskatta. Annars fer lítið fyrir honum. Í Mogganum í dag er frétt um sinnuleysi ráðherrans. (…) Þetta er kostulegt. Það er ekki einsog nefndin sú skipti ekki máli.“