fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Jóhann G. Jóhannsson sigraði með „Landið mitt“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 28. ágúst 2018 20:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í mars auglýsti afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, eftir tillögum um nýtt kórlag í tilefni aldarafmælis fullveldis. Kallað var eftir frumsömdu og óbirtu ljóði og lagi fyrir blandaðan kór og skyldi lagið hæfa tilefninu og henta vel til söngs.

Í dag var niðurstaða samkeppninnar kynnt að viðstöddum höfundi sigurlags og gestum. Einnig var fjórum kórlögum sem þóttu skara fram úr með einu eða öðru móti veitt sérstök viðurkenning og voru fulltrúar þeirra einnig á staðnum.

Sigurlagið, Landið mitt, fellur einkar vel að þeim skilyrðum sem komu fram í auglýstum reglum samkeppninnar: það hæfir tilefninu og hentar vel til söngs. Lagið er í fremur hefðbundnum stíl og kallast þannig á við hefð ættjarðarlaga, er bjart og einlægt, en með áhugaverðri úrvinnslu í dekkri millikafla. Ljóðið er lofsöngur til Íslands og fangar vel sérstöðu landsins í öllum sínum fjölbreytileika og andstæðum, en um leið er horft til framtíðar og í lokahendingunni rennur skáldið eða ljóðmælandinn saman við landið sjálft.

Höfundur lags og ljóðs er Jóhann G. Jóhannsson.

Jóhann (f. 1955) hóf ungur píanónám hjá Carl Billich, en stundaði síðan tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Brandeis-háskólann í Boston og Uppsalaháskóla. Hann starfaði sem tónlistarstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur í áratug og síðan um langt árabil sem tónlistarstjóri Þjóðleikhússins. Hann hefur samið sönglög, kórverk og kammertónlist, en auk þess leikhústónlist af ýmsu tagi og er e.t.v. þekktastur fyrir tónlist sína við ævintýrasöngleikinn Skilaboðaskjóðuna.

Fjögur önnur lög þóttu einnig skara fram úr með einu eða öðru móti og þótti ástæða til að veita þeim sérstaka viðurkenningu.

Bjargvættir. Höfundur lags Hjálmar H. Ragnarsson, höfundur ljóðs Fríða Ísberg. Bjargvættir er metnaðarfull tónsmíð sem byggir á íslenskum tónlistararfi við ljóð þar sem útverðir landsins eru ákallaðir – björgin sem standa vörð um landið.

Sumarnótt. Höfundur lags Stefán Þorleifsson, höfundur ljóðs Magga S. Brynjólfsdóttir. Sumarnótt sver sig meira í ætt við dægurlög, með grípandi laglínu og kvæðið er hrífandi lýsing á töfrum íslenskrar sumarnætur.

Vakna þú fold. Höfundur lags Michael Jón Clarke, höfundur ljóðs Sigurður Ingólfsson. Vakna þú fold er kraftmikil tónsmíð við texta sem er hvatning til þjóðarinnar um að halda vöku sinni í síbreytilegu umhverfi.

Þjóðvísa. Höfundur lags Sigurður Flosason, höfundur ljóðs Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Þjóðvísa er sérlega hrífandi í látleysi sínu og einfaldleika, óður til lands, þjóðar og tungu.

Öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni eru færðar þakkir fyrir innsendar tillögur.

Frestur til að skila inn tillögum var 20. júlí og bárust nefndinni 60 tillögur. Dómnefnd skipa Árni Heimir Ingólfsson, formaður dómnefndar, fulltrúi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Magnús Ragnarsson, fulltrúi Tónskáldafélags Íslands, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, fulltrúi Rithöfundasambands Íslands, Björgvin Halldórsson, fulltrúi Félags tónskálda og textahöfunda, Hlín Pétursdóttir Behrens, fulltrúi Félags íslenskra hljómlistarmanna, og Bergljót Haraldsdóttir, fulltrúi Ríkisútvarpsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast