Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tekur undir orð höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins um helgina, þar sem lítið gagn er sagt í svörum forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur og Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, þegar kemur að framtíð íslensku flugfélaganna og fyrirætlanir stjórnavalda í þeirra garð.
„Hvur fjandinn, ég er sammála DO. Ég botna heldur ekki upp né niður í þessu sem KJ er að segja þarna. Hvort eru stjórnvöld að fara að gera eitthvað í þessu eða er þetta bara fyrirtæki á einkamarkaði?“
segir Björn Leví á samfélagsmiðlum.
Davíð segir í Reykjavíkurbréfi að erfitt sé að skilja fyriráætlanir ríkisstjórnarinnar þegar kemur að stöðu flugfélaganna:
„Það er langt teygt að segja að opinber samtöl við forsætisráðherra og samgönguráðherra um stöðu félaga í flugrekstri hafi verið hjálpleg. Betra hefði verið að samtöl á efstu rim stjórnkerfisins hefðu farið hljótt aðeins lengur. Kannski var ekki kostur á því og því fór sem fór.“
„Þeir sem voru í vafa um veika stöðu flugrekstrar voru vafalausir eftir þau samtöl. Þeir sem fylgjast betur með sannfærðust eftir þetta um að sennilega væri styttra út á ystu nöf en gott er.“
„Samtölin voru óþægilega löng og óþægilega óljós, og einkum þó samtalið við samgönguráðherrann. Gamla reglan var sú, að hafi menn ekkert gagnlegt fram að færa komi til greina að þegja.“
Davíð segir forsætisráðherra fara í hringi í svörum sínum:
„Í samtölum við forsætisráðherrann okkar, þar sem hann var gripinn á förnum vegi, kom fram að æðstu valdamenn landsins fylgdust nú mjög vel með fjármálum flugfélaganna og hefðu gert um nokkra hríð. Svo hófust vangaveltur um að flugfélögin væru fyrirtæki á einkamarkaði og ítrekað að ríkisvaldið væri ekki að undirbúa að hjálpa flugrekstrinum.
En svo slegið til baka og sagt „það er ekki ríkisábyrgð á flugfélögum hér á landi, svo að það sé sagt. Það sem við erum að gera, er að við erum að fylgjast vel með stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja, því það getur auðvitað haft áhrif á stöðu efnahagsmála hér fram undan. Það er auðvitað mikilvægt að fylgjast vel með…“
Og svo aftur í hina áttina: „…en eins og ég sagði hér áðan þá eru þetta einkafyrirtæki á markaði.“
Og loks 180 gráður á ný: „Þau skipta hins vegar máli fyrir þjóðarbúið þannig að það er það sem að okkur snýr,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.“