Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, deilir myndbandi af ræðu sem haldin var á Hlemmi fyrir nokkru, nánar tiltekið uppi á stól inni í Mathöllinni á Hlemmi.
Maðurinn sem hélt ræðuna heitir Georg Jónasson. Í ræðu sinni vekur hann athygli á þeirri breytingu sem hafi orðið á Hlemmi eftir að strætóbiðstöðinni var breytt í Mathöll. Nú sé fátæku fólki ekki hleypt þar inn, nema það ætli sér að kaupa eitthvað. Því sé ekki einu sinni leyft að nota klósettið:
„Ágætu gestir, á Hlemmi er gott að vera eins og við öll vitum. Nú efur orðið breyting á fyrir fátækt fólk. Fólk sem notar strætó er ekki velkomið hér inn, á Hlemminum okkar, nema við kaupum eitthvað. Og við fátæka fólkið höfum ekki efni á því hér, við bíðum því úti í kuldanum eftir strætó. En ekki nóg með það, heldur megum við ekki nota salernið hérna inni, þannig að okkur er boðið upp á kamarinn hérna úti,“
sagði Georg.
Hann vék síðan að stöðu fátækra á Íslandi og greindi frá því að hann sjálfur ætti ekki séns, þar sem hann væri með geðsjúkdóm og glímdi við fátækt:
„Að lokum vil ég segja þetta. Á íslandi eru rúmlega 10.000 börn sem búa við fátækt, þar af 6000 í Reykjavík sem búa við raunverulega fátækt. Fyrir þremur dögum var mér sagt að fara út, af ísmanninum hérna. Ég bað um að fá prufu af ísnum sem er reyndar góður. Hann sagði mér að fara út vegna þess að ég fékk mér afganga. Ég er núna að fara í Samhjálp og fá mér að borða. Ég á ekki fyrir mat. Ég á 3 börn á skólaaldri, ég hef ekki getað keypt föt á þau í 3 ár. Öll fötin mín, nema naríurnar og sokkarnir, hef ég fengið gefins. Ég á ekki séns, ég á ekki séns, ég má ekki vinna. Ég er með sjúkdóm, ég er með geðsjúkdóm, ég má ekki vinna. Ég vil bara vekja athygli á þessu góðir gestir. Hugsum um þetta,“
sagði Georg.
Uppskar hann lófaklapp fyrir.