Kristján Þórður Snæbjarnason, formaður Rafiðnaðarsambandsins, útilokar ekki að hann bjóði sig fram til forseta ASÍ í október. Hann segir við Morgunblaðið að margir hafi komið að máli við hann:
„Það hafa ýmsir rætt við mig, já. En ég hef ekki tekið neina ákvörðun um að fara fram. Maður lokar þó ekkert á það. Við skulum sjá hvernig þetta þróast.“
Kristján er meðal yngri manna í verkalýðshreyfingunni, sem ætti að teljast honum til tekna, ef marka má orð Aðalsteins Á. Baldurssonar, formanns Framsýnar á Húsavík, eftir fund með sínu fólki:
„Á þessum fundi kom það sterkt fram að krafa er um ákveðin kynslóðaskipti á landsvísu. Það er ríkur vilji til að fá ungt fólk í forystuna.“
Sterk undiralda er í verkalýðshreyfingunni um að fá ungt og kraftmikið fólk til forystu. Aðeins tveir hafa staðfest framboð til þessa, Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdarstjóri AFLs og Drífa Snædal, framkvæmdarstjóri Starfsgreinasambandsins, en ekki virðist ríkja einhugur um þá frambjóðendur innan verkalýðshreyfingarinnar samkvæmt frétt Morgunblaðsins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir erfitt að gera öllum til geðs:
„Draumurinn er að við komum fram saman sem ein heild en það er ekki líklegt að það takist. Það verður alltaf einhver óánægja. Mikilvægast er að forsetinn endurspegli áherslu og vilja grasrótarinnar,“
segir Ragnar Þór, sem segist ekki ætla að lýsa yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, heldur muni hann móta skoðun sína eftir afstöðu frambjóðenda til lykilmála VR.