fbpx
Föstudagur 16.apríl 2021
Eyjan

Vill vera í Sjálfstæðisflokknum þvert á reglur – Hótar varanlegum klofningi í bréfi

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 21. apríl 2018 11:57

Íris Róbertsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og fram hefur komið þá stefnir Íris Róbertsdóttir á að leiða stjórnmálaaflið „Fyrir Heimaey” fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor í Vestmannaeyjum. Áður hafði henni verið boðið 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Eyjum.

Nýja framboðið stendur fyrir „ýmis grunngildi sem snúa að lýðræðislegum vinnubrögðum og bættu samfélagi”, svo vitnað sé orðrétt í Írisi sjálfa.

Íris hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. verið varaþingmaður og setið í miðstjórn flokksins. Nú hyggst hún leiða stjórnmálaafl sem býður fram gegn Sjálfstæðisflokknum, en ætlar hinsvegar að vera áfram í flokknum, þvert á reglur hans, samkvæmt bréfi sem hún sendi miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og Eyjan hefur undir höndum.

Skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins eru hinsvegar alveg skýrar hvað varðar framboð flokksbundinna Sjálfstæðismanna fyrir önnur framboð, en í 4. gr. segir að:

Flokksbundnum Sjálfstæðismönnum er með öllu óheimilt að sitja á framboðslistum annarra framboða sem bjóða fram gegn framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Sitji flokksbundinn einstaklingur á öðrum framboðslista skal hann fjarlægður úr flokksskrá.“

Í bréfinu segir Íris að ákvörðunin sé afar þungbær, en hún sé ekki að fara í framboð fyrir annan stjórnmálaflokk, heldur bæjarmálafélag. Hún segist vera Sjálfstæðismaður og muni halda því áfram. Þá segist hún áfram ætla að berjast fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu.

Íris segist ætla að segja sig frá trúnaðarstörfum innan flokksins, hljóti hún kosningu, en hún situr í miðstjórn, stjórn og framkvæmdarstjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna og í fulltrúarráðinu í Vestmannaeyjum.

Hún segist hinsvegar ekki ætla að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum.

Í niðurlagi bréfsins segist hún treysta því að það „hvarfli ekki að nokkrum manni að reka fólk úr flokknum fyrir þátttöku í þessu bæjarmálafélagi eða framboði þess.“

Hún segir að „slíkir brottrekstrar“ og „líklegar fjöldaúrsagnir“ í kjölfarið kynnu að skapa svo „varanlegan klofning í flokknum hér í Eyjum að ekki yrði úr bætt um fyrirsjáanlega framtíð.“

Erfitt er að skilja orð Írisar öðruvísi en hótun, um að fái hún ekki þá sérmeðferð að vera áfram í flokknum þrátt fyrir hliðarskref sitt, muni það leiða til enn frekari  vandræða Sjálfstæðisflokksins í Eyjum.

 

Bréf Írisar til miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins:

Kæru vinir og samherjar í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins

 Fyrstum af öllum vildi ég tilkynna ykkur þá ákvörðun mína að gefa kost á mér til að leiða nýjan framboðslista í Vestmannaeyjum í sveitarstjórnarkosningunum í næsta mánuði. Ég mun þannig taka þeirri áskorun sem 195 Eyjamenn beindu til mín fyrr í vikunni. Ég leyfi mér að fullyrða að í þessum hópi var yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins; flestir flokksbundnir og margir í fulltrúaráði flokksins hér í Eyjum.

Ég ætla ekki að fjölyrða hér um atburðarásina sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Ég vona að hún sé flestum ykkar kunn, en ágreiningurinn snerist m.a. um hvaða aðferðum var beitt til að koma í veg fyrir að fylgt yrði þeirri meginreglu flokksins að efnt yrði til prófkjörs fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Prófkjör hefur ekki verið haldið á vegum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum í 28 ár.

Fyrir mig persónulega er þessi ákvörðun mjög erfið. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn þegar ég var 16 ára og hef fylgt honum að málum allar götur síðan – og aldrei kosið annan flokk. Í 30 ár hef ég barist fyrir flokkinn í öllum kosningum – bæði til Alþingis og bæjarstjórnar hér í Eyjum. Ég hef gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn; m.a. verið formaður Sjálfstæðisfélagsins í Eyjum, formaður í fulltrúaráðinu, setið í stjórn kjördæmisráðsins og setið sem varaþingmaður eitt kjörtímabil eftir að hafa unnið 4. sætið í prófkjöri í Suðurkjördæmi.

Þessi ákvörðun er mér því afar þungbær en ég met hana sem óhjákvæmilega. Ég er ekki að fara í framboð fyrir annan stjórnmálaflokk heldur bæjarmálafélag sem stofnað er til að svara tilteknum og vonandi tímabundnum aðstæðum. Ég er og hef alltaf verið Sjálfstæðismaður og mun halda því áfram. Ég mun að sjálfsögðu einnig halda áfram að berjast fyrir flokkinn á landsvísu þótt fyrrgreind staða sé komin upp í bæjarmálunum hér í Eyjum.

Komi til þess að ég taki að mér það hlutverk sem ég nú gef kost á mér í mun ég segja mig frá þeim trúnaðarstörfum fyrir flokkinn sem ég gegni nú, þ.e. setu í miðstjórn, stjórn og framkvæmdastjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna og fulltrúaráðinu í Eyjum. Ég mun hins vegar ekki segja mig úr Sjálfstæðisflokknum.

Ég treysti því að það hvarfli ekki að nokkrum manni að reka fólk úr flokknum fyrir þátttöku í þessu bæjarmálafélagi eða framboði þess. Slíkir brottrekstrar og líklegar fjöldaúrsagnir í kjölfarið kynnu að skapa svo varanlegan klofning í flokknum hér í Eyjum að ekki yrði úr bætt um fyrirsjánlega framtíð.

Með kærri kveðju til ykkar allra,

Íris Róbertsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásakanir um kynferðisofbeldi valda titringi innan Sjálfstæðisflokksins – „Ástæðan fyrir því að fólk tekur ekki þátt í pólitík!“

Ásakanir um kynferðisofbeldi valda titringi innan Sjálfstæðisflokksins – „Ástæðan fyrir því að fólk tekur ekki þátt í pólitík!“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Silfrið: Brostin samstaða um sóttvarnir og feluleikir Svandísar og Þórólfs – „Hann vildi bara ekkert fá þetta í Landsrétt“

Silfrið: Brostin samstaða um sóttvarnir og feluleikir Svandísar og Þórólfs – „Hann vildi bara ekkert fá þetta í Landsrétt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum
Farsóttarfangelsið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Brynjar svarar skotum Kára – Segir ferðina ekki hafa verið að óþörfu – „Hluti af óstjórnlegu frekjukasti“

Brynjar svarar skotum Kára – Segir ferðina ekki hafa verið að óþörfu – „Hluti af óstjórnlegu frekjukasti“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Birtir opið bréf til Kára vegna Kastljóssviðtalsins – „Hvet þig til að íhuga orð mín“

Birtir opið bréf til Kára vegna Kastljóssviðtalsins – „Hvet þig til að íhuga orð mín“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Lögleiðum ölvunarakstur“ segir Karen – „Þessi áróður um ölvunarakstur minnir mig á umræðuna um hryðjuverk“

„Lögleiðum ölvunarakstur“ segir Karen – „Þessi áróður um ölvunarakstur minnir mig á umræðuna um hryðjuverk“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Andrés segir Pál hafa skilið Sjálfstæðisflokkinn eftir úti í kuldanum – Hvað mun gerast í Suðurkjördæmi?

Andrés segir Pál hafa skilið Sjálfstæðisflokkinn eftir úti í kuldanum – Hvað mun gerast í Suðurkjördæmi?