„Seðlabanki Íslands telur nú forsendur til að veita tilteknar undanþágur frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, gegn umsókn þar að lútandi vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna. Breyting þessi á framkvæmd markar áfanga í átt að fullri losun fjármagnshafta. Nánar tiltekið er um að ræða undanþágur sem geta dregið úr gjaldeyrisáhættu tengdri beinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis og erlendra aðila hér á landi.“
Þessari tilkynningu deilir Sigmundur Davíð á Facebook-síðu sinni en þar segir einnig að með þessu sé fyrirtækjum gert kleift að leiðrétta gjaldeyrisójöfnuð á efnahagsreikningi sínum og undirbúa losun fjármagnshafta. Sigmundur segir á Facebook ekki vera viss um að fólk nenni að lesa alla tilkynningu Seðlabankans, frá upphafi til enda. Sigmundur segir:
„en mér sýnist að í stuttu máli þýði þetta að búið sé að opna á að vogunarsjóðirnir selji sjálfum sér Arion banka. Hef ekki orðið var við umfjöllun um málið nema hjá Herði Ægissyni á Markaðnum sem skúbbaði því að þetta gæti gerst.“
Þá hnýtir Sigmundur í starfsmenn Kastljós og segir þá hafa tekið þátt í „tilræði Sorosar við íslensk stjórnvöld. George Soros er einn þekktasti fjárfestir allra tíma og sagði DV frá því árið 2015 keypti hann meðal annars kröfur í Glitni fyrir tugi milljarða og var þannig í hóp stærstu kröfuhafa slitabúsins. Soros, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa hagnast ævintýralega þegar hann felldi breska pundið árið 1992. Þá fjallaði Egill Helgason um Soros á síðasta ári. Egill sagði:
Upplýsingar sem eru komnar úr Panamaskjölunum sýna gríðarlega spillingu í kringum Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Þar má sjá að nokkrir vildarvinir forsetans eiga 2 milljarða dollara í aflandsfélögum. Það er þó sjálfsagt bara toppurinn á ísjakanum. Viðbrögð sveitarinnar í kringum Pútín hefur verið að segja að þessar upplýsingar séu partur af samsæri Bandaríkjastjórnar og hins alþjóðlega fjárfestis George Soros. Soros er einkennilegur maður, hann hefur rekið risastóra vogunarsjóði, tekið stórar stöður gegn gjaldmiðlum, en á sama tíma staðið í alþjóðlegu starfi til að efla mannúð, mannréttindi og lýðræði.
„Rannsóknarblaðamennska“
Morgunblaðið gerði þessum samsæriskenningum skil og í Reykjavíkurbréfi blaðsins var hjólað í blaðamenn sem fjölluðu um Panamaskjölin og gert lítið úr blaðamönnum með því að setja gæsalappir utan um orðið rannsóknarblaðamenn.
„Því er haldið fram víða að auðjöfurinn Soros standi á bak við þessar uppljóstranir og „rannsóknarblaðamennirnir“ séu aðeins leikbrúður í höndum starfsmanna hans. Blaðamennirnir komust ekki yfir upplýsingarnar. Þeir eru mataðir af liði Soros, samkvæmt þessum kenningum. Þeim voru skömmtuð skjöl sem sneru að einstaklingum í þeirra landi. Það er nú öll „rannsóknarblaðamennskan.“
Sigmundur Davíð segir að starfsmenn ríkisútvarpsins virðist ekki gera sér grein fyrir fréttagildi tilkynningarinnar frá Seðlabankanum. Þeir séu uppteknari við að benda á að þeim hafi ekki hlotnast nægileg viðurkenning þegar tilkynnt var um tilnefningar til blaðamannaverðlauna Íslands. Jóhannes Kr. Kristjánsson fær tilnefningu en ekki Aðalsteinn Kjartansson og fleiri sem störfuðu með honum við úrvinnslu gagna. Hafa nokkrir starfsmenn RÚV fundið að þessu. Sigmundur Davíð segir:
Í Efstaleiti virðast sumir uppteknari af því að skammast yfir að kollegar þeirra veiti þeim ekki nógu mikla viðurkenningu fyrir að taka þátt í tilræði Sorosar og Co. við íslensk stjórnvöld.