Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur er ósáttur við svar meirihlutans í borginni, sem samanstendur af Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð, vegna svars sem flokkurinn fékk í umhverfis- og skipulagsráði síðastliðinn miðvikudag. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fyrirspurn í desember í fyrra um hvernig meirihlutinn hygðist takast á við vandamál sem er vaxandi í umferðarmálum borgarinnar. Svarið sem fékkst var eitt A4 blað þar sem teknar voru saman allar þær áætlanir sem unnið er eftir, þetta fannst Sjálfstæðismönnum heldur þunnt:
Þetta svar kom mér á óvart og það óþægilega. Mér finnst það lýsa hroka meirihlutans gagnvart upplýsingabeiðni okkar í minnihlutanum,
segir Halldór. Í svarinu er greint frá svæðisskipulagi Reykjavíkur, Samgönguáætlun og aðalskipulagi sem og samkomulag við Vegagerðina um áætluninna um Borgarlínu, þróun hjólreiðasamgangna og almenningssamgangna. Sjálfstæðisflokkurinn segir þetta ekki svara neinu:
Svar meirihlutans svarar engu efnislega um það sem spurt er um. Spurningin er um hvernig meirihlutinn hyggst takast á við vandamál sem er vaxandi í umferðarmálum borgarinnar. Bent er á samkomulag við önnur sveitarfélög, Vegagerð o.s.frv. Ábyrgðinni er vísað annað eins og í fleiri málum hjá meirihlutanum í borgarstjórn.