Jón Ásgeir Jóhannesson skilur eftir sig sviðna jörð á Íslandi.
Eða eigum við að kalla það mestu skuldasúpu allra tíma.
Og ef það er eitt sem honum dettur ekki í hug að gera hér heima þá er það að borga skuldir sínar.
Því réttast væri líklega að hann kæmi heim í þegnskylduvinnu og borgaði – svona eins og við hin sem þurfum að standa skil á skuldum okkar.
Ég nefndi við hann í viðtali fyrir nokkru síðan hvort hann væri til í að koma heim og vinna á lyftara í Bónus? Mig minnir að hann hafi sagt nei – en í rauninni er það þar sem hann á heima.
En Jón er ekki á þeim buxunum að gefast upp. Með sína hræðilegu viðskiptasögu vill hann halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Hann er ennþá eigandi að mesta fjölmiðlaveldi Íslands – og það er ennþá í bígerð að hann og faðir hans haldi áfram að reka verslunarveldi Haga. Það er látið eins og þetta séu einu mennirnir sem kunni að reka svona búðir – skuldakóngarnir sjálfir.
Nú berast fréttir af því að Jón Ásgeir hafi komið milljónum dollara undan í hruninu.
Það er smánarlegt – og það verður að leggja mikla áherslu að ná þessum peningum aftur til að setja í skuldahít hans hér á Íslandi.