Blogg Pauls Krugman Nóbelsverðlaunahafa um Ísland er athyglisvert.
Í fyrsta lagi virðist hann telja að prógramm Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og íslensku stjórnarinnar sé að virka – semsé gjaldeyrishöftin og hið lága gengi krónunnar. Ísland sé að ná sér hraðar upp úr kreppunni en á horfðist.
Hann er þeirrar skoðunar að Ísland hafi orðið fyrir óvenju þungu höggi, þetta séu einhverjar mestu efnahagshamfarir sögunnar.. Gælir meira að segja við þá (að því er virðist fjarstæðukenndu) hugmynd að það sé betra að verða fyrir stóru höggi en litlu höggi.
Krugman er ómyrkur í máli þegar hann talar um ástæður efnahagshrunsins á Íslandi. Hann talar um blöndu af frjálshyggju og klíku-kapítalisma sem hafi hleypt öllu í bál og brand:
„Iceland is, of course, one of the great economic disaster stories of all time. An economy that produced a decent standard of living for its people was in effect hijacked by a combination of free-market ideology and crony capitalism; one of the papers (pdf) at the conference I just attended in Luxembourg shows that the benefits of the financial bubble went overwhelmingly to a small minority at the top of the income distribution:
And in the process of building short-lived financial empires, a handful of operators built up enormous debts that their fellow citizens are now expected to repay.“
Ég hef áður getið þess að það er ekki líklegt að gengi krónunnar verði leyft að hækka að ráði næstu árin. Hins vegar er þetta ekki alveg nákvæmt hjá Krugman, gengi krónunnar var ekki fellt, heldur hrundi það einfaldlega – og með því lífskjör í landinu. Krugman tekur ekki tillit til þess. En afleiðingin er auðvitað sú að íslenskur útflutningur er samkeppnishæfari – og að innlend framleiðsla fyrir heimamarkað fær ný tækifæri.
Dæmi um það eru til dæmis súkkulaðitegundir sem hættar voru að sjást í búðum, en eru nú aftur komnar á markað, líkt og gamlir vinir.
Spurning hvenær aftur verður farið að framleiða Kórónaföt?