LÍÚ eru æfir vegna þess að sjávarútvegsráðherra gefur frjálsar veiðar á úthafsrækju, stofni sem þeir hafa ekki nýtt. Þetta staðfestir enn einu sinni að LÍÚ telur sig eiga fiskinn sem syndir í sjónum kringum Ísland. Það er ekkert flóknara en það. Þeir hafa ekki veitt þessa fiskitegund, en vilja samt ráða hvernig henni er ráðstafað.
Það hefur verið sýnt fram á að 70 aðilar „eiga“ 70 prósent fiskveiðikvótans. Þetta er ótrúleg samþjöppun auðs. Um tíma var þetta réttlætt með að allir Íslendingar gætu fengið hlut í auðlindinni gegnum hlutabréfamarkað, en nú er því ekki lengur að heilsa. Hlutabréfalýðræðið var hvort sem er alltaf fals.
Það er prófsteinn á það Ísland sem rís upp úr kreppunni hvernig við ætlum að fara með auðlindir okkar, hvaða arð við ætlum að hafa af þeim, hvernig við deilum honum út og hvernig við nýtum hann.
Þetta snýr ekki einungis að erlendum fyrirtækjum sem sækja í íslenska orku – því hvað sem öðru líður mumum við þurfa fulltingi og fjármagn erlendra aðila við að nýta orkuna – heldur líka að íslenskum fyrirtækjum, fiskveiðiauðlindinni, einokun og samþjöppun auðsins.
Kannski er heldur ekki svo erfitt að ná samstöðu um þetta – það má minna á eftirfarandi setningu í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins:
„Eign og ráðstöfunarréttur á auðlindum er og verði í höndum þjóðarinnar.“