Einhverjir mestu sorgaratburðir tuttugustu aldarinnar – og er af nógu að taka – urðu í Tyrklandi og Grikklandi á öðrum og þriðja áratugnum. Þeir eru lítt þekktir utan þessa heimshluta; það eru ekki margir sem vita af stríði Grikkja og Tyrkja 1919 til 1922.
Allt nær þetta langt aftur í söguna, en það má byrja að nefna að í upphafi aldarinnar náðu völdum í Tyrklandi svokallaðir Ung-Tyrkir undir forystu Envers pasha. Þetta var í orði kveðnu umbótahreyfing, lituð af þjóðernisstefnu sem þá var mjög ríkjandi í heiminum, var stefnt gegn hinu staðnaða Ottómanveldi sem hafið skroppið saman Evrópumegin en teygði sig enn um drjúgan hluta Miðausturlanda.
Ung-Tyrkir veðjuðu vitlaust í heimstyrjöldinni fyrri, féllu fyrir fagurgala þýsku keisarastjórnarinnar sem hafði lagt áherslu á að rækta sambandið við Istanbul – þeir ákváðu að berjast með Þjóðverjum og Austurrikismönnum í stríðinu.
Þetta hafði skelfileg áhrif á mikinn fjölda Grikkja sem þá bjó á Anatólíuskaga, vestarlega í Tyrklandi. Grikkir höfðu verið þarna frá alda öðli – þarna voru grískar og rómverskar rústir út um allt, og heimkynni grískra snillinga – til dæmis sjálfs Hómers og sagnaritarans Heródótusar.
Höfnin í Smyrnu á blómaskeiði borgarinnar. Varningur frá Smyrnu var frægur um allan heim, sjálfur Eliot yrkir um kaupmann frá Smyrnu í kvæðinu The Waste Land.
Helsta borgin var Smyrna – sem nú heitir Izmir – það var alþjóðleg borg þar sem bjuggu Tyrkir, Grikkir, Armeníumenn, gyðingar og vesturlandabúar, ríkidæmi var þar mikið og útflutningur á alls kyns varningi. Smyrna virðist hafa verið einstaklega skemmtilegur staður á þessum tíma. Þaðan var ríkidæmi austursins skipað út og sent um allan heim. Borgin varð mjög auðug. Og landið í kring er frjósamt. Þar er ræktað vín, ávextir og ber, kryddjurtir, ólívur, hnetur og grænmeti.
Í Istanbul – sem Grikkir nefna enn Konstantínópel – var líka fjölþjóðlegur hrærigrautur. Grikkjum og Armenum vegnaði vel þar undir stjórn tyrknesku soldánanna; þeir lögðu ekki síst stund á kaupskap sem hinir hernaðarlega sinnaðri Tyrkir forsmáðu.
Þetta breyttist í upphafi heimstyrjaldarinnar. Tyrkneska stjórnin treysti ekki Grikkjunum í landinu til að berjast með tyrkneska herliðinu, svo Grikkir voru kallaðir út í sérstakar vinnusveitir þar sem ríkti mikið harðræði. Vistin þar var oft skelfileg, sumar þeirra tóku á sig mynd einangrunarbúða. Hungur geisaði og sjúkdómar og sumir Grikkirnir voru beinlínis hnepptir í þrældóm. Á sama tíma tók að sjóða upp úr með tyrkneskum og grískum íbúum sem lengi höfðu lifað nokkurn veginn í sátt og samlyndi. Morð og íkveikjur urðu daglegt brauð.
Mannvíg mögnuðust – þau náðu hámarki í útrýmingarherferð tyrknesku stjórnarinnar gegn armenska minnihlutanum í landinu, skelfilegu þjóðarmorði sem Grikkir fóru heldur ekki varhluta af. Þorp voru brennd, konum nauðgað og búsmali drepinn. Grikkir voru reknir frá svæðum nálægt ströndinni – það var sagt að vegna stríðsins væri þeim ekki treystandi til að dvelja þar.
Í lok stríðsins snerist taflið við. Tyrkir voru þá gersigraðir og Grikkir gengu á lagið. Þeir hófu að hefna sín fyrir grimmdarverk Tyrkja í stríðinu. Þeir töldu að nú hefðu þeir rétt á að beita ofbeldi. Það náði hámarki í innrás griska hersins inn í Tyrkland árið 1919. Þá töldu Grikkir að þeir hefðu á bak við sig vilja stórveldanna til að leggja undir sig stóran hluta Tyrklands og líka sjálfa borgina sem þá dreymdi sífellt um, Konstantínópel. Þetta var partur af því sem kallað var „stóra hugmyndin“, megali idea, endurreisn býsantínska veldisins, grískt ríki sem sem hefði ekki bara Aþenu sem höfuðborg heldur líka Konstantínópel.
Úr varð skelfilegt stríð sem geisaði árin 1919 til 1922. Þá hafði risið upp með Tyrkjum frelsishetja þeirra, Mustafa Kemal, sem tók sér nafnið Kemal Ataturk, faðir Tyrkjanna. Kemal náði að fylkja liði og hefja stórsókn gegn gríska hernum sem hafði sótt svo langt inn í landið að línur hans voru þunnskipaðar. Þetta endaði með algjörum sigri Tyrkja. Inn í þetta spiluðu líka stórveldahagsmunir, ekki síst vegna olíunnar í Miðausturlöndum fóru stórveldin að hallast á sveif með Tyrkjum þegar leið á stríðið.
Smyrna brennur í september 1922. Eldurinn logaði í fimm daga.
Grikkir í Tyrklandi voru reknir burt – borgin Smyrna var brennd 13. september 1922. Eldurinn geisaði í fimm daga. Það var lokapunkturinn í stríðinu. Grískir íbúar borgarinnar flúðu út á pramma í höfninni, þar lágu skip frá stórveldum sem létu sig engu varða um þjáningar þeirra. Skipverjar tóku myndir af atburðunum. Lyktirnar voru þær að mesturhluti grískra íbúa Anatólíuskaga flúði til Grikklands – flestir höfðu aldrei komið þangað áður og áttu þar í raun ekki heimaland. Í Aþenu varð til hverfi sem nefnist Nýja Smyrna – þessara atburða er minnst í ótal söngvum, kvæðum og sögum. Það er talið að nær 800 þúsund grískir íbúar Anatólíu hafi týnt lífi í hildarleiknum, fleiri en milljón voru reknir burt.
En þjóðernishreinsanirnar voru ekki bara á annan veginn. Í raun skiptust þjóðirnar á fólki – með ómælanlegum hörmungum. Á móti voru Tyrkir reknir burt frá borginni og Saloniki og öðrum stöðum í Grikklandi þar sem þeir höfðu búið um langan aldur. Sjálfur Kemal var frá Saloniki. Hún var fjölþjóðaborg, sérstæður hrærigrautur af Grikkjum, Tyrkjum og gyðingum. Eftir seinni heimstyrjöldina voru Grikkirnir einir eftir og borgin hafði misst sinn austræna svip – þá höfðu Tyrkirnir verið reknir burt og nasistar tekið gyðingana og myrt þá í útrýmingarbúðum. Líkt og Smyrna virðist Saloniki hafa verið afar heillandi staður fyrir þessa skelfingaratburði.
Það má segja að Grikkland og Tyrkland nútímans hafi orðið til í eldi þessara þjóðernishreinsana; úr þessu hafa báðar þjóðir smíðað sínar mýtur, og eiga sína þjóðhetjur, eins konar feður nútímaríkjanna tveggja, Tyrkir eiga Ataturk en Grikkir Eleftherios Venizelos.
Kayaköy, yfirgefið grískt þorp í Tyrklandi. Þar er nú sögulegt minnismerki og safn.
Þessi saga leitar á mann þegar maður ferðast milli Grikklands og Tyrklands. Maður veltir fyrir sér hvernig það var hið fjölþjóðlega samfélag sem þarna stóð um aldir. Á Anatólíuskaga eru enn yfirgefin grísk þorp sem merkilegt er að skoða. Og hugurinn leitar enn lengra aftur, til forn-Grikkja. Þarna er víða að finna merki um menningu þeirra – borgin Efesus var stórveldi á sínum tíma og þar er að finna einhverjar stærstu rústir frá fornöld. Þær eru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna sem koma til Tyrklands.
Tyrkir og Grikkir hafa lengi barist á banaspjótum. Sárindi Grikkja ná allt aftur til falls Konstantínópel í hendur Tyrkja 1453. Í báðum löndum hafa verið kenndar útgáfur af sögunni sem ala á tortryggni og jafnvel hatri. Ég hef hitt hægláta Grikki sem segjast aldrei munu koma til Tyrklands nema með her á leið til Konstantínópel. Þjóðirnar halda úti stórum herjum sem eru í vígstöðu hvor gegn öðrum.
En staðreyndin er samt að þessar þjóðir eiga mikið sameiginlegt í mat, drykk, menningu og lífsstíl. Þessi fagri hluti og heimsins hefur mótað báðar þjóðirnar. Það er sagt að í einkalífi nái Grikkir og Tyrkir vel saman. Sem betur fer eru ýmis merki um bætt samskipti. Það er auðvelt núorðið að ferðast milli Grikklands og Tyrklands. Það virðist styttast í einhvers konar lausn á hinni illvígu Kýpurdeilu. Sá stóratburður varð svo í maí síðastliðnum að Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, kom í heimsókn til Aþenu til að tjá stuðning sinn við Grikki í skuldakreppunni miklu. Erdogan var meira að segja boðið á fund með ríkisstjórn Grikklands.
Saman verða þessar merku þjóðir sterkari – þær hafa allt að vinna með góðu og náinni sambúð í þessum sögufræga og stórkostlega fagra hluta heimsins.
Grískir og Tyrkneskir fánar blakta í Aþenu þegar Erdogan kom þangað í heimsókn í maí.