Íslendingar gengu lengi með grillur um að þeir væru betri og merkilegri en aðrar þjóðir. Gerðu til dæmis lítið úr vinaþjóðum á Norðurlöndunum.
Í hruninu 2008 var Íslendingum kippt niður á jörðina. Það kom í ljós að þeir voru uppfullir af ranghugmyndum um sjálfa sig og samfélag sitt. Þeir trúðu því ekki bara að hér væri besta vatn í heimi, besta lambakjötið, bestu tómatarnir og fegurstu konurnar – heldur að hér væru bestu fjármálamennirnir og stjórnmálamenn sem væru á heimsmælikvarða.
Og að á Íslandi væri langbest að lifa – þótt reyndar væri til fólk sem hafði komið til útlanda og vissi að lífsgæðin á mörgum stöðum væru alls ekki síðri, og jafnvel betri.
Nú eru Íslendingar býsna ráðvilltir, þeir vita ekki alveg hvar þeir standa. En það er víst að þeir eru ekki merkilegri en aðrir – heldur einungis þjóð meðal þjóða.
Og það er reyndar alveg nóg.