fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Þór Saari: Ábyrgð þingheims

Egill Helgason
Miðvikudaginn 14. apríl 2010 11:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, flutti ræðu í þinginu í gær þar sem rætt var um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þór talaði opinskátt um ábyrgð þingmanna og ráðherra.

— — —

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.

Ræða flutt 13. apríl 2010.

Virðulegur forseti.

Við ræðum hér skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.  Því miður er það svo að flestar mínar efasemdir um getu Alþingis sem stofnunar til að taka á málum eftir þetta hrun virðast vera að rætast.

Samkvæmt þeim ræðum sem hér voru fluttar í gær af formönnum flokkana og af forsætisráðherra sjálfum er það að renna upp fyrir mér og alþjóð að úrvinnsla þingsins á efni þessarar skýrslu verður mjög hugsanlega í skötulíki.

Eins og virðulegum forseta og háttvirtum þingmönnum er kunnugt um þá gerði Hreyfingin strax alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisnefndar til laga um skipan þingmannanefndar sem ætti að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Fyrir þeim athugasemdum voru færð góð og gild rök. Viðbrögð þingmanna og þá sérstaklega fulltrúa þeirra þingflokka sem sæti eiga í forsætisnefnd voru hins vegar með þeim hætti að efast mátti frá upphafi að raunverulegur vilji stæði að baki því að aðkoma ráðherra og þingmanna að hruninu yrði skoðuð ofan í kjölin. Óþarfi er að endurtaka þá umræðu hér en hún liggur fyrir í gögnum þingsins.

Meginintakið í gagnrýni Hreyfingarinnar var sá veruleiki að það yrði mjög erfitt fyrir einstaka þingmenn að gagnrýna samflokksmenn sína hvort sem væri í þingmannanefndinni eða í þingsal við umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það kom skýrt fram í ræðum formanna í gær að ekki verður gerð krafa um siðferðilega ábyrgð þingmanna og/eða ráðherra þeirra flokka sem beinan þátt áttu í hruninu með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Virðulegur forseti.

Nú hefur hrunið verið formgert af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis og það kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar að stærstur hluti þess orðsróms og þeirra frétta sem voru fluttar af aðkomu ráðherra og þingmanna fyrir hrunið voru réttar.

Nú er því tíminn til að gera upp.

Þingmannanefnd Alþingis hverrar starfsvið er skilgreint mjög þröngt mun ekki taka nema á örlitlum hluta þess sem við blasir.

Það er því þingsins sjálfs og þeirra þingmanna sem hér sitja að gera þá þætti hrunsins sem að þinginu sjálfu snúa.

Það er nöturleg niðurstaða að af þeim yfir 140 sem rannsóknarnefndin kallaði til skýrslutöku er enginn, ekki einn einasti, sem telur sig bera nokkra ábyrgð á því sem gerðist.

Ekkert, ég endurtek ekkert, gefur skýrari mynd af því samfélagi sem við íslendingar höfum búið okkur til heldur en þessi nöturlega staðreynd.

Burtséð frá afneitun allra þeirra bankamanna sem með algeru siðleysi sínu rændu þjóðina, við því var að búast, þá er það hins vegar afstaða embættismannana og stjórnmálamannana sem hafa hoppað upp í sama afneitunarvagninn sem hvað gleggst sýnir hroka þeirra og fyrirlitngu á almenningi og þeim eðlilegu siðferðisviðmiðum sem almennt ættu að vera til staðar.

Virðulegur forseti.

Það kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hluti af ásæðu þess að hér varð algert hrun er vegna þeirra óeðlilegu tengsla viðskiptalífs og stjórnmálamanna sem voru til staðar og vegna þess mórals í íslenskum stjórnmálum að það bæri að raða flokksgæðingum á jötuna í embættismannakerfinu.

Hvert einasta ráðuneyti og hver einasta stofnun ríkisins var og er gegnsýrð af flokksgæðingum sem eru ráðnir til að tryggja stjórnmálamönnum enn meiri völd.  Hið alræmda Fjármálaeftirlit var skýrt dæmi um slíkt en þegar það var sett á laggirnar og því skipuð þess fyrsta stjórn, af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins, þá var það gert að skilyrði fyrir stjórnarsetu að stjórnarmenn væru sammála því ráðslagi að sonur þáverandi félagsmálaráðherra Páls Péturssonar yrði ráðinn sem forstjóri. Eins og glöggt kemur í ljós í skýrslu rannsóknarnefndarinnar þá hefur fjármálaeftirlitið frá stofnun þess aldrei valdið hlutverki sínu.

Fleiri dæmi má taka en of langt er að telja þau öll upp en sjálfur hef ég lent í þeirri stöðu að vera skipað af yfirmanni í fjármálaráðuneytinu að segja einni af fastanefndum Alþingis ósatt, skipun sem var meira að segja gefin í áheyrn annara í ráðuneytinu. Afleiðingarnar urðu svo þær að við „skiplagsbreytingar“ missti ég starfið, enda sagði ég þingnefndinni sannleikann.

Ótalin eru þau dæmi þar sem starfsmenn eða embættismenn hafa sagt af sér eða sagt sig frá ákveðnum verkefnum en neitað að upplýsa almenning hvers vegna, vegna einhvers misskilins trúnaðar við, eða hótana frá, sínum yfirboðurum.

Er það svona stjórnsýsla sem á að bjóða upp á áfram eða verða gerðar raunverulegar breytingar.

Virðulegur forseti.

Hvað fjármálatengslin varðar þá er augljóst að einstakir stjórnmálamenn hafa þegið stórfé af þeim bankamönnum sem bera höfuðábyrgð á hruninu og sumir stjórnmálaflokkar hafa fengið tugi milljóna í fjárframlög frá þeim. Nú er það augljóst að fyrirtæki sem slíkt getur ekki aðhyllst hugmyndafræði eða haft stjórnmálstefnu heldur er tilgangur með framlögum þess til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að kaupa sér aðgang og gott veður. Þessu hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hins vegar ætíð afneitað eins og andskotinn ömmu sinni.

Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands segir hins vegar tíma til kominn að kalla þessi fjárframlög það sem þau raunverulega eru, þ.e. mútur. Það er ansi stórt orð og ekki get ég staðhæft sjálfur að einstaka þingmenn séu mútuþægir. Fyrirkomulagið hefur hins vegar boðið upp á slíkt hugarflug í sambandi við tengsl viðskiptalífs og stjórnmála og grunsemdir eru uppi um að stjórnmálamenn hafi látið hagsmuni almennings sitja hjá garði vegna hagsmuna annarra. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður mjög vel við þá hugsun, því eftir allt þá varð hér hrun þar sem hvorki stjórnkerfið, stjórnsýslan né stjórnmálamennirnir gættu hagsmuna almennings. Hvað stjórnmálamennina varðar ber þó að undanskilja Vinstri Hreyfinguna Grænt framboð sem ötullega gagnrýndi flest alla þá ætti sem hér öllu hruninu.

Virðulegur forseti.

Sú formlega umgerð sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar setur hrunið og aðkomu alþingismanna og ráðherra að því í, hlýtur að gera þá kröfu til Alþingis að það sem stofnun sýni að það hafi burði til að axla þá ábyrgð sem til þarf. Hér er átt við forseta Alþingis, alla alþingismenn og formenn þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi sem og stjórnmálaflokkana sjálfa sem helstu stofnana lýðræðisins í landinu. Það er einföld og skýlaus krafa að þessir aðilar axli sína ábyrgð eins og hún blasir við í dag. Hér gildir einu hvort um er að ræða ábyrgð vegna fyrri aðgerða eða aðgerðarleysis eða ábyrgð vegna núverandi tengsla við þá þætti hrunsins sem bersýnislegir eru.

Ábyrgð stjórnmálaflokkana og stjórnmálamanna þeirra er að sjálfsögðu mismikil og ekki formleg eða lagaleg nema í kannski fáum tilvikum. Það er hins vegar þung siðferðileg ábyrgð sem hvílir á mörgum stjórnmálamönnum, siðferðileg ábyrgð sem þeir með aðgerðum eða aðgerðarleysi bera, og verða að axla.

Það verður að teljast mjög ólíklegt að þeir ráðherrar sem sitja í núverandi ríkisstjórn og voru einnig í hrunstjórninni, hæstvirtir ráðherrar Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Möller og Össur Skarphéðinsson hafi ekki vitað hvert stefndi en Jóhanna Sigurðardóttir var m.a. í svo kölluðum „súper-ráðherrahópi sem kom fyrst að umfjöllun um öll stærri mál. Hvort sem þau vissu nákvæmlega málavexti eða ekki þá hljóta þau, sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi aðkoma þeirra að stjórn landsins og seta á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra.

Það verður einnig að teljast mjög ólíklegt að margir aðrir ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi heldur ekki vitað hvert stefndi. Hér er um að ræða háttvirta núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins Einar K. Guðfinnsson, Guðlaug Þór Þórðarson og Þorgerði Katínu Gunarsdóttur og svo Björgvin G. Sigurðsson og Þórunni Sveinbjarnardóttir þingmenn Samfylkingarinnar sem öll voru ráðherrar á þeim tíma. Það verður þó að virða háttvirtum þingmanni Björgvin G. Sigurðsyni það til tekna að hann sýndi gott fordæmi og sagði af sér ráðherraembætti á þeim tíma. Þau sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra. Spuna-afsögn Björgvins G. Sigurðssonar sem þingflokksformanns telst þar ekki með.

Ótaldir eru þeir núverandi þingmenn sem voru innstu kopparnir í búrinu og hafa með nánum tengslum sínum við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins einnig fengið stöðu sem setja má spurningamerki við. Hér er um að ræða háttvirta þingmenn Bjarna Benediktsson, Illuga Gunarsson og Tryggva Þór Herbertsson en þeir hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug.

Eins hlýtur það að vera réttmæt krafa að þeir þingmenn sem þáðu fúlgur fjár frá fjárglæframönnunum endurskoði setu sína á þingi. Gildir einu hvort um er að ræða bein fjárframlög eða lán til hlutabréfakaupa.

Hér ber að sjálfsögðu hæst lánveitingar Kaupþings til fjölskyldufyrirtækis varaformanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur upp á nærri 1,7 milljarða króna, þ.e. eitt þúsund og sjö hundruð milljónir. Einnig eru stórar upphæðir lánaðar til formanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Bjarna Benediktssonar og til háttvirts þingmanns Ólafar Nordal. Ótrúlegar lánveitingar til ýmissa fyrrverandi þingmanna Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem koma fram í töflu 8.11.2 kalla svo á gagngera endurskoðun af hálfu þessara flokka á hvort afstaða þeirra til margra mála hafi á þeim tíma verið lituð af þeim lánveitingum og hvernig flokkarnir munu í framtíðinni umgangast peninga.

Há bein fjárframlög til einstakra þingmanna kallar einnig á að þeir endurskoði aðkomu sína að setu á Alþingi. Hér verður tæpt á þeim þingmönnum og ráðherra sem fengu framlög frá Kaupþingi og Landsbankanum og enn sitja sem fastast, en framlög frá Glitni til einstakra þingmanna fengust ekki. Röðin er hér eftir upphæðum:

Kaupþing Landsbanki

Alls

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

3.500.000

3.500.000

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

1.500.000

1.500.000

3.000.000

Guðlaugur  Þór Þórðarson

1.000.000

1.500.000

2.500.000

Kristján Möller

1.000.000

500.000

1.500.000

Össur Skarphéðinsson

1.500.000

1.500.000

Björgvin G. Sigurðsson

100.000

1.000.000

1.100.000

Guðbjartur Hannesson

1.000.000

1.000.000

Helgi Hjörvar

400.000

400.000

800.000

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

250.000

300.000

550.000

Ragnheiður Elín Árnadóttir

250.000

300.000

550.000

Árni Páll Árnason

300.000

300.000

Jóhanna Sigurðardóttir

200.000

200.000

Katrín Júlíusdóttir

200.000

200.000

Þó í sumum tilfellum sé ekki um háar fjárhæðir að ræða og ekki hægt að halda því fram að framlög þessi hafi keypt þingmenn þá leikur engin vafi á því að háar upphæðir hafa áhrif á almenna afstöðu manna til gefandans, þó ekki sé annað. Þannig er einfaldlega mannlegt eðli.

Ótaldar eru svo tugmilljónirnar til flokkana sjálfra og undirfélaga þeirra um allt land sem ekki hefur gefist tími til að skoða nánar en athygi vekur í því samhengi að fyrir liggur að semja frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka þar sem enn er galopið á framlög frá fyrirtækjum, hvort sem er til stjórnmálaflokka eða einstaklinga.

Virðulegi forseti.

Hér hefur margt verið sagt og mörg þung orð látin falla. Þetta er hins vegar mest allt nákvæmlega skjalfesti í þessu stórkostlega plaggi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþinigis er.

Hér hafa og mörg nöfn verið nefnd og spurningarmerki sett við það hvort forsvaranlegt sé fyrir þau að sitja áfram á þingi.

Leiða má líkur að því að Alþingi íslendinga muni aldrei endurheimta trúverðugleika sinn ef þeir þingmenn sem hér sitja nú, taka ekki af skarið og seti fordæmi hvað viðvíkur siðferðilegri ábyrgð. Það fordæmi hlýtur m.a. að felast í því að viðurkenna þá siðferðilegu ábyrgð og að axla hana, ekki með orðskrúði og marklausum frösum heldur með afgerandi sjáanlegum hætti sem leiðir til þess að á Íslandi kemst á siðferðisvitund í stjórnmálum.

Ég vil svo ljúka máli mínu á því að mótmæla með hvaða hætti Alþingi hefur ákveðið að fjalla um þetta mikilvægasta mál lýðveldissögunnar en það er þinignu og forystu þess til vansa. Þingmönnum hefur ekki verið gefinn nægilegur tími til að kynna sér skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ekki hefur gefist nándar nærri nægilegur tími til að gaumgæfa alla mikilvægustu þætti málsins og það er fráleitt að ætla sér að afgreiða málið með svo yfirborðskenndum hætti sem forysta þingsins ætlar að gert verði.

Þó ekki séu líkur á að núverandi þing hafi burði til að koma á betri vinnubrögðum þá vonandi munu þingmenn framtíðarinnar átta sig á því að á Alþingi íslendinga verður að gera hlutina betur en gert hefur verið hingað til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus