fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Valdaklíkur, smæð, fúsk og spilling

Egill Helgason
Miðvikudaginn 29. september 2010 15:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Steingrímsson stærðfræðingur sendir þennan pistil.

— — —

Valdaklíkur, smæð, fúsk og spilling

Í stærri löndum gerist það yfirleitt þegar stjórnmálaflokkur lendir í hremmingum, þótt þær séu ekki eins hrikalegar og það sem við höfum séð síðustu árin, að forystu flokksins er rutt burt, og við tekur nýtt fólk. Nýja fólkið/klíkan er ekki endilega betra í sjálfu sér en fyrirrennararnir.  En, af því að nýja fólkið ryður því gamla burt á þeirri forsendu að gamlingjarnir hafi brugðist verða þeir nýju að sýna að þeir séu betri.  Það þýðir að í svolítinn tíma verður að stunda heilbrigðari stjórnmál.  Þótt nýja klíkan fari ef til vill í sama farið á endanum verða þessi endurteknu uppgjör þó gjarnan til þess að viðhalda einhvers konar lágmarksheilbrigði.

Á Íslandi hefur forysta nokkurra flokka tekið pokann sinn eftir hrun. Vandamálið er að nýja fólkið kemur oftast úr nákvæmlega sömu valdaklíku, hvert í sínum flokki, og þeir sem fóru, og því verður aldrei neitt uppgjör.  Smæðin veldur því að það er ekki pláss fyrir nema eina klíku í hverjum flokki, auk þess sem valdaklíkur landsins eru meira og minna samtvinnaðar; samanber t.d. ráðningu forystumanna VG á Baldri Guðlaugssyni sem ráðuneytisstjóra í Menntamálaráðuneytið.  Því kemur aldrei ný „kynslóð“ í forystu flokka hér, það er sama valdaklíkan sem „endurnýjar“ sig innanfrá.

Á þessu eru undantekningar, þ.e.a.s. að ólíkar klíkur takast á innan flokkanna hér, t.d. Björn Bjarnason vs. Guðlaugur Þór, eða Össur vs. Ingibjörg Sólrún.  En, öfugt við það sem gjarnan gerist í stærri löndum þá snúast þessi átök hér sjaldan eða aldrei um mismunandi pólitískar áherslur, heldur eingöngu um völd. Það er þess vegna sem aldrei verður pólitískt uppgjör í íslenskum flokkum, aðeins valdaskipti.

Klíkumyndun, að minnsta kosti tilhneigingin til hennar, er óhjákvæmileg í öllum valdakerfum.  Og smæð Íslands veldur því auðvitað að hér er hlutfallslega minna af verðleikafólki til að setja í áhrifastöður en í stærri löndum, því hér þarf að manna hlutfallslega fleiri slíkar stöður.  Vandamálið er hins vegar að Ísland er ekki bara ekki-verðleikasamfélag, heldur víða andverðleikasamfélag.  Undirmálsfólk sem sölsar undir sig völd, bæði í stjórnsýslu og fyrirtækjum, eyðir miklu af kröftum sínum í að halda í burtu öllu þeim sem eitthvað geta, þeim sem gætu innleitt fagleg vinnubrögð, því samanburðurinn við verðleikafólkið er óbærilegur.

Háskólarnir, vandamál íslenskrar stjórnunar í hnotskurn

Það er reyndar sérútgáfa af þessu sem hefur gert íslensku háskólana HÍ og HR jafn vonda og þeir eru, þótt tækifæri þeirra hafi verið stórkostleg á árunum 2005-2008.  Ekki svo að skilja að gífuryrði þessara skóla um sjálfa sig hafi ekki verið botnlausar ýkjur, en það sorglega er að þeir hefðu getað komist miklu nær yfirlýstum markmiðum sínum en raun ber vitni ef þeir hefðu einungis hagað sér eins og þeir góðu skólar sem þeir þóttust vilja líkjast.

Saga þessara skóla síðustu árin lýsir í hnotskurn vanda íslenskrar stjórnunar:  Þeim sem hafa burðina til að gera háskólana sómasamlega hefur verið vandlega haldið frá öllum áhrifum, því burðir þeirra einir og sér eru óþolandi ógn við undirmálsfólkið sem ræður lögum og lofum.  Þetta er sérlega auðvelt í háskólakerfinu, því á meðan góða fólkið var að þroska með sér þessa burði, að sjálfsögðu á erlendum vettvangi, flýtti undirmálsfólkið sér heim aftur (eða fór aldrei til útlanda) til að tryggja völd sín yfir starfseminni.

Umræðan um háskólamál á Íslandi er glórulaus, því hún kemst aldrei upp úr því að „rökræða“ um hluti sem eru algerlega sjálfsagðir í góðu umhverfi erlendis, og eru því grundvöllur slíkrar umræðu en ekki álitamál.  Eitt dæmi um þetta eru hin sífelldu átök um hvort meta eigi vísindastarf í alþjóðlegum samanburði, eða hvort „séríslenskt“ háskólastarf sé svo „sérstakt“ að það sé ekki hægt.  Það kaldhæðnislega við þessa afstöðu er að það vísindafólk sem fæst við sérlega íslensk viðfangsefni (t.d. íslenskar miðaldabókmenntir eða íslenska jarðfræði) stendur allt föstum fótum í alþjóðasamfélagi vísindanna og vill ekki sjá annan samanburð en alþjóðlegan, á meðan þeir sem helst veifa þessum staðhæfingum eru gjarnan á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu, en viðkomandi einfaldlega undirmálsfólk á þeim vettvangi.

En þetta er önnur saga, sem væri efni í langa sögu.  Sorgarsögu glataðra tækifæra íslenska háskólakerfisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna