Ein aðferðin við að komast út úr kreppu er að örva eftirspurn í hagkerfinu.
Þetta dugir illa á hér vegna þess að aukin eftirspurn á Íslandi hefur strax áhrif á viðskiptajöfnuðinn – eftirspurnin er jafnan eftir innfluttum erlendum vörum.
Ég nefndi í pistli um daginn að Íslendingar þyrftu kannski að fara að framleiða Kórónaföt á nýjan leik – Congaskúkkulaði er aftur búið að slá í gegn.
Ísland er stórskuldugt og heldur uppi ströngum gjaldeyrishöftum.
Eins og staðan er má krónan ekki styrkjast mikið – erlendir hagfræðingar sem ég hef rætti við segja að næstu árin megi hún ekki vera sterkari en sirka 150 á móti evrunni. Það er með þeim hætti að krónan er að hjálpa Íslendingum að komast út úr kreppunni. En á móti hefur það náttúrlega mikil áhrif á kjörin í landinu – við drögumst langt aftur úr nágrannaþjóðunum.
Skuldavandinn er ferlegur. Og þess vegna hefur verið talið að nauðsynlegt sé að fara blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar hjá ríkinu. Flestir eru sammála um að vernda velferðarkerfið eins og kostur er. Leið hinnar auknu eftirspurnar er ekki í boði – og það er líka mjög takmarkað hvað við getum fengið af lánum til að hefja stórframkvæmdir. Peninga getum við heldur ekki prentað.
Hrunið hérna var eitt hið stærsta sem hefur gengið yfir nokkra þjóð. Það er staðreynd. En það er líka staðreynd að Íslendingar eru að fara betur út úr þessu en á horfðist. Það þýðir samt ekki að kreppan hérna sé búin, því fer fjarri og við eigum enn eftir að færa talsverðar fórnir.