Menn voru aðeins of fljótir á sér þegar þeir afskrifuðu Evrópu í Heimsmeistarakeppninni eftir ófarir Englands, Ítalíu og Frakklands.
Nú detta Suður-Ameríkuveldin út. Brasilíuliðið stóð ekki undir væntingum. Þjóðverjar yfirspiluðu Argentínumenn sem léku einstaklega hugmyndasnauðan sóknarleik – reyndu að troðast í gegnum miðjuna sem var harðlæst. Messi með sínum tilþrifum gerði ekkert annað en að hægja á sóknarleiknum.
Þýska liðið er það besta sem hefur sést í keppninni hingað til, ungt og djaft. Það er aukabónus að liðið fer í taugarnar á hægriöfgamönnum í Þýskalandi sökum þess að það er skipað leikmönnum sem eru upprunnir í Tyrklandi, Afríku og Póllandi.
Eins og stendur finnst manni líklegast að úrslitaleikurinn verði milli Hollands annars vegar og hins vegar Þýskalands eða Spánar.
Hollendingarnir eru baráttuglaðir og hafa hörkuleikmenn eins og Arjen Robben og Wesley Sneijder í sínum röðum, það er algjört bíó að horfa á þann fyrrnefnda spila. Spánverjarnir hafa hins vegar ekki enn sýnt þá snilli sem búist var við af þeim, en gætu samt farið alla leið.