Í Moskvu, ekki langt frá Gorkí Park, er að finna Garð hinna framliðnu höggmynda. Þetta er reyndar afar fallegur og friðsæll garður, með litlum tjörnum, smáfuglum og jasmínublóma, en í honum er líka að finna höggmyndir sem hafa færst yfir á annað tilverustig, hafa verið fluttar af torgum og opinberum stöðum þar sem þær stóðu áður í þennan fáfarna garð, enda ekki pláss fyrir þær lengur í ríkjandi hugmyndakerfi.
Þarna má meðal annars finna fræga höggmynd af Felix Derzhinskí, stofnanda öryggislögreglunnar Tséka – sem síðar varð KGB. Hann hafði viðurnefnið Járn-Felix. Höggmyndin stóð áður á torginu fyrir framan Lubijanka, þar sem enn eru höfuðstöðvar rússnesku öryggislögreglunnar FSB, arftaka Tséka. Hún var fjarlægð eftir fall kommúnismans.
Þarna er líka Maxím Gorkí, höfundurinn sem var tignaður á tíma Sovétríkjanna, seldi sál sína, en var hugsanlega drepinn að undirlagi Stalíns.
Sverdlov sem um tíma gekk næstur Lenín sjálfum að metorðum, fyrirskipaði morðin á keisarafjölskyldunni, var sagður hafa dáið úr spænsku veikinni 1919, þótt önnur útgáfa segi að verkamaður hafi lamið hann í höfuðið svo hann hlaut af bana.
Og þarna er Stalín sjálfur með brotið nef.
Svona til áréttingar um staðreyndir málsins, við hliðina á Stalín – höggmynd tileinkuð fórnarlömbum kommúnismans.
Það er talsvert af Lenínstyttum í garðinum – hér er hann með Karli Marx og Leoníd Brésnef.
Gamalkunnur skúlptúr þar sem því er lýst yfir að Sovétríkin aðhyllist heimsfrið.
Fegurðar- og frækinleiksímynd Sovétríkjanna: Ung verkakona.